145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

Fell í Suðursveit og Jökulsárlón.

725. mál
[16:24]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Almennt vil ég segja um spurningarnar að það er vitaskuld mikilvægt varðandi þetta náttúrufarslega mikilvæga og sérstæða landsvæði, sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir ferðaþjónustu okkar, að ekki séu uppi deilur og ósamstaða sem bitnar á svæðinu og þeirri þjónustu sem þar þarf að veita.

Því miður hefur ekki verið hægt að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu á þessu svæði undanfarin ár þrátt fyrir atbeina sveitarstjórnar og fyrirliggjandi deiliskipulag.

Jökulsárlón er reyndar að mestu leyti í eigu ríkisins, að hluta til sem þjóðlenda og og líka að nokkru öðru leyti í eigu ríkisins. Sá hluti sem er í einkaeigu er austan megin við þjóðlendumörkin. Skipulagning svæðisins skiptir þess vegna miklu máli, að hún sé heildstæð til þess að vernda náttúru þess til framtíðar og tryggja að nýtingin verði sjálfbær, örugg og rýri á engan hátt náttúrugæði.

Því er eðlilegt að ríkið í samstarfi við sveitarfélagið Hornafjörð og eftir atvikum landeigendur skoði gaumgæfilega hvernig best verði staðið að því. Það er jafnframt forsenda þess að öflug og sjálfbær ferðatengd atvinnustarfsemi geti blómstrað á svæðinu til framtíðar.

Eins og hv. þingmaður gat um liggur jörðin Fell að austanverðu Jökulsárlóni. Jökulsárlónið sjálft er hins vegar að langmestu leyti í ríkiseigu, en land bæði norðan og vestan lónsins er þjóðlendur. Það liggja fyrir alveg skýr, afmörkuð landamerki milli jarðarinnar Fells og þjóðlendanna.

Jökulsárlón er á náttúruminjaskrá enda býr svæðið yfir einstakri náttúru. Samkvæmt ákvæðum í nýju náttúruverndarlögunum hefur ríkið forkaupsrétt á þeim jörðum sem eru á náttúruminjaskrá. Það ákvæði er sett fram í 37. gr. náttúruverndarlaga, nr. 60/2013.

Það er því einboðið að ef til þess kemur út frá náttúruverndarsjónarmiðum þá verði það skoðað til hlítar hvort beita eigi forkaupsréttarákvæði laganna, komi til þess að jörðin Fell í Suðursveit verði seld. Það er rétt að hafa í huga að það eru fordæmi fyrir því að því ákvæði hafi verið beitt við sölu eigna á náttúruminjaskrá.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, í samráði við önnur hlutaðeigandi ráðuneyti, mun þó taka það til efnislegrar skoðunar hvort það leggi til að þessum forkaupsréttarheimildum á grundvelli laganna verði beitt, komi til þess að jörðin verði seld.

Hins vegar er spurt hvort til greina komi að taka jörðina eignarnámi. Það er allt annað ferli innan náttúruverndarlaganna sem kveður á um slíkar heimildir ríkisvaldsins og tengist áformum um friðlýsingu ef ekki næst samkomulag við landeigendur. Slík vinna hefur ekki farið fram á þessu svæði og hefur því ekki komið til neinnar skoðunar á því.

Mér finnst það mjög áhugaverð framtíðarsýn að Jökulsárlón verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Þær viðræður hafa þegar átt sér stað varðandi þann hluta lónsins sem er innan þjóðlendunnar sem ég skýrði frá hér áðan, þ.e. að vestanverðu. Jafnframt hefur bráðnun jökla á undanförnum árum orðið til þess að hluti Jökulsárlóns að norðanverðu er væntanlega þegar innan markalínu þjóðgarðsins vegna þess að lónið hefur verið að stækka.

Í því samhengi vil ég nefna að í samtali og samráði við mennta- og menningarmálaráðherra hefur verið hafin vinna við skoðun á því hvort ekki sé rétt að tilnefna Vatnajökulsþjóðgarð á heimsminjaskrá UNESCO eins og hér hefur verið greint frá, vegna þessara einstæðu náttúruminja. Hluti þess er að skoða hvort hugsanlega þurfi að stækka þjóðgarðinn, m.a. með tilliti til þess að tengja hann til sjávar.

Hins vegar er rétt að benda á að samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er ekki skilyrt að land innan hans skuli vera í eigu ríkisins heldur er heimild til að leita samninga við aðra landeigendur.