145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu okkar þingmanna Samfylkingarinnar þess efnis að Alþingi feli ríkisstjórninni að beita sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gagnvart lágskattaríkjum.

Tilefni þingsályktunartillögunnar er augljóst þar sem eru þær upplýsingar sem fram hafa komið í Panama-skjölunum um umfang þátttöku Íslendinga í rekstri og eignarhaldi á aflandsfélögum þar sem Ísland er í algerri sérstöðu. Þessi staðreynd leggur okkur ríkar skyldur á herðar að vera í fararbroddi við að vinda ofan af þeim ósóma sem rekstur aflandsfélaga er. Þar af leiðandi er rík þörf fyrir okkur að marka skýra alþjóðlega stefnu og koma fram fyrir Íslands hönd á alþjóðlegum vettvangi sem eindregnir talsmenn andstöðu við aflandsfélög og rekstur skattaskjóla.

Það er vert að hafa í huga í þessu samhengi að umfang málsins er auðvitað margfalt meira en við höfum þegar fengið að sjá. 600 Íslendingar eru á listunum frá Mossack Fonseca. Það er ein af mörgum lögmannsstofum í Panama. Mörg önnur lönd en Panama gefa sig út fyrir að aðstoða við að koma eignum undan og fela þær þannig að heildarumfang þessa vanda á alþjóðavísu er langt í frá ljóst og heildarumfangið fyrir Ísland er ekki heldur ljóst þó að þetta sé jafn mikið og raun ber vitni.

Eins og komið hefur fram í umræðunni undanfarnar vikur er eignarhald aflandsfélaga alvarlegt og eins og ríkisskattstjóri hefur sagt og yfirskattanefnd staðfest er almennt litið svo á að einungis tvær ástæður geti legið að baki eignarhaldi á aflandsfélögum, að fela eignarhald og fela hverjir í raun að því standa eða að koma eignum undan eðlilegri skattheimtu.

Það má segja að alþjóðleg þróun í þá átt að byggja undir og viðhalda skattaskjólum hafi eflst mjög á árabilinu frá 1970 þegar ákveðinn viðsnúningur varð á Vesturlöndum gagnvart þeirri grundvallarhugmynd að skattheimta væri fjárfesting í samfélagslegum verðmætum og að greiddir skattar væru ekki glataður aur heldur fjárfesting í uppbyggingu velferðar fyrir okkur öll. Þá urðu ráðandi hugmyndastraumar um að skattar væru af hinu illa, peningar sem greiddir væru í skatta væru glatað fé, og þar af leiðandi skipti máli að forða peningum undan skattheimtu eins og kostur væri. Vert er að hafa í huga að skattlagning var á þessum tíma og langt fram á níunda áratuginn umtalsverð á hæstu tekjuhópa, t.d. í Bandaríkjunum vel yfir 70% í hæsta þrepi allt fram á níunda áratuginn. En það sem gerist á þessum áratugum er að ákveðin samkeppni myndast milli vestrænna velferðarríkja í að lækka álögur á þá best stæðu vegna þess að þeir voru farnir að flýja unnvörpum og flytja eignir sínar í skattaskjól. Mónakó var algengastur fyrsti viðkomustaður á áttunda áratugnum og allir þekkja sögu Sviss og sögu Liechtensteins í þessum efnum og síðan myndaðist mikið samkeppnisforskot fyrir þau ríki eins og Bresku Jómfrúreyjar sem byggja á breskri lagahefð en geta samt haft sjálfstæða skattalögsögu.

Þetta hefur síðan leitt til þeirra samfélagslega skaðlegu áhrifa að þrýstingur hefur myndast meðal velferðarsamfélaga Vesturlanda á að draga úr skattlagningu á þá sem best eru stæðir vegna þess að menn óttast að missa þá alfarið. Þá fara menn að finna leiðir til þess að mæta þeim þannig að þeir séu þó með það sem þeir eiga í eins ríkum mæli og mögulegt er í heimahöfn, í stað þess að skattlagningin væri sanngjörn og miðaði við þá grunnhugmynd sem jafnaðarmenn lögðu við upphaf velferðarríkisins, að menn ættu að leggja af mörkum eftir efnum og þiggja eftir þörfum.

Ef horft er á sjónarmiðin sem legið geta að baki eignarhaldi í skattaskjólum er það augljóslega eins og nafnið ber með sér að skýla eignum undan skatti og komast hjá eðlilegri skattlagningu þeirra. Vert er samt að hafa í huga, vegna þess gríðarlega fjölda sem við vitum nú að stofnaði til aflandsfélaga í gegnum Landsbankann einan á árunum fyrir hrun, að á akkúrat þeim tíma hafði skattlagningu fyrirtækja verið komið svo fyrir hér á Íslandi að hún var með því allra lægsta sem gerist í heiminum. Við vitum að það hlýtur eitthvert stúss og einhver kostnaður að hafa fylgt því að koma þessum félögum á fót. Það hlýtur að vekja þá hugsun að kannski hafi ekki bara skattaskjólsmarkmiðið verið efst í huga þeirra sem með þessum hætti stofnuðu til aflandsfélaga heldur hitt, að fela eignarhaldið, að koma með öðrum orðum í veg fyrir að gagnsæi væri tryggt í eignarhaldi. Það er hin önnur skaðlega afleiðing skattaskjólanna. Ég hef nú þegar rakið þá hlið sem varðar skattasamkeppnina niður á við gagnvart þeim best stæðu. En við búum við það í fjölþættu nútímasamfélagi að í lögum er að finna fjölbreytileg ákvæði sem lúta að því hverjir megi fara með hvers konar eignarhald. Þannig er t.d. í lögum um fjármálafyrirtæki ítarlegar upplýsingar og ítarleg ákvæði, og voru í aðdraganda hruns, um hverjir megi fara með eignarhald. Það viðgekkst reyndar hér á Íslandi í aðdraganda hruns að ekki var mikið verið að skoða hverjir væru á bak við félög sem þó gátu augljóslega ekki verið í eigu þeirra sem voru skráðir fyrir þeim.

En það er á fleiri sviðum þar sem eignarhald er takmarkað. Nýverið hafa verið í umræðunni forustumenn lífeyrissjóða. Forsvarsmenn lífeyrissjóða eru t.d. meðal þeirra sem mega ekki persónulega fjárfesta nema samkvæmt ströngum reglum. Forsvarsmenn í fjármálakerfinu líka. Þess vegna eru aflandsfélög svo skaðleg vegna þess að gagnsæið sem við þurfum nauðsynlega á að halda um eignarhald er eyðilagt. Það getur verið vegna þess að menn lúta sérlögum, hvort sem það er vegna þess að þeir eru forsvarsmenn í fjármálafyrirtækjum, nú eða stjórnmálamenn, og vilja líka forðast að upplýsa um eignarhald sitt í gegnum hagsmunaskráningu og aðrar þær kvaðir sem settar eru á stjórnmálamenn.

Þess vegna er þessi tvíþætti vandi raunverulegur, annars vegar að það er verið að koma eignunum frá skattlagningu og hins vegar að halda þeim frá kastljósi þeirra gagnsæju leikreglna sem við höfum skapað um eignarhald á fyrirtækjum. Það á eftir að koma í ljós við frekari fréttaflutning hvað er raunverulega að finna í þessum skjölum um hverjir það eru sem að öðru leyti hafa verið að fjárfesta þarna. Maður veltir fyrir sér hinni augljósu hættu á innherjasvikum, þ.e. að þeir sem t.d. vita af einhverjum samningum sem eru í bígerð innan fjármálafyrirtækja, veita t.d. lán til einhverra verkefna, vita þar af leiðandi að einhver hlutabréf eiga eftir að hækka mjög verulega í verði, lúta samkvæmt lögum takmörkunum á því að mega sjálfir fjárfesta í viðkomandi hlutabréfum. Þeir hafa þá mögulega getað komið upplýsingum eitthvert annað og gert einhverjum öðrum kleift að auðgast á þessu. Það er eitt af því sem þarf að rannsaka allvel, hverjir þeir eru sem eiga þarna félög og hvaða viðskipti lágu að baki og hvaða tengsl höfðu viðkomandi við þá sem kunnu að hafa haft innherjaupplýsingar sem skiptu máli við viðskiptin á þeim tíma sem þau fóru fram.

Virðulegi forseti. Hreyfing jafnaðarmanna í Evrópu hefur haft frumkvæði að stefnumótun á þessu sviði um árabil og gripið mjög fast í taumana nú í kjölfar þess að þessar upplýsingar komu fram. Þannig samþykkti stjórnarnefnd PES, Evrópusamtaka jafnaðarmanna, tillögur í tólf liðum að aðgerðum sem hafa að markmiði að sporna við starfsemi skattaskjóla og fela m.a. í sér gerð upplýsingaskiptasamninga milli Evrópusambandsríkja og milli allra ríkja sem hafa gengist undir kvaðir OECD um upplýsingaskipti um skatta- og fjárhagsmálefni og að þau ríki sem ekki eru tilbúin til að gangast undir slíka samninga og kvaðir verði beitt þvingunum. Þá er lagt til að skylda fjármálafyrirtæki til að skila upplýsingum til skattyfirvalda um reikninga í ríkjum utan Evrópusambandsins sem ekki eru tilbúin að gangast undir slíkar kvaðir og að efla gagnsæi og upplýsingagjöf um félög sem skráð eru utan Evrópusambandsins en starfa innan svæðisins, t.d. um hverjir eru raunverulegir eigendur þeirra.

Þá er gert ráð fyrir í tillögum Evrópusamtaka jafnaðarmanna að fjölþjóðleg fyrirtæki sem starfa innan Evrópusambandsins þurfi að gefa upp allar tekjur sínar til skatts og að styrkt verði refsilöggjöf varðandi aðstoð banka og annarra við skattundanskot, en eins og við höfum séð í umfjöllun hérlendis voru íslenskir bankar í lykilhlutverki við að styðja við þessa starfsemi og útbúa hana í aðdraganda hruns. Við sáum líka í gær tillögur danskra jafnaðarmanna sem falla mjög í sömu átt.

Það sem þingsályktunartillagan og tillögugreinin felur í sér er að Ísland taki alþjóðlegt frumkvæði til þess að beita sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gagnvart lágskattaríkjum. Það er augljóst að gera það með félögum okkar á vettvangi EFTA, við erum auðvitað aðilar að OECD, en það er augljóst að gera það á vettvangi EFTA. Þar eru nú meðal ríkja tvö ríki, Sviss og Liechtenstein, sem hafa sögulega séð haft annars konar bankareglur en flest Vesturlönd og mikilvægt að ræða þetta á þeim vettvangi af þeirri ástæðu. Sama á við innan Evrópusambandsins þar sem Lúxemborg hefur verið með auðveldari leiðir til þess að leyna upplýsingum, sem sagt ekki upplýst um bankaupplýsingar með sama hætti og önnur Evrópuríki hafa gert í gagnkvæmum upplýsingaskiptum. Markmiðið hlýtur að vera að gangast fyrir því á alþjóðavettvangi að lágskattaríkin geri hreint fyrir sínum dyrum, afhendi allar upplýsingar, ársreikninga og bankaupplýsingar, og að þau fái hóflegan frest til að koma sínum málum í lag. Að öðrum kosti standi þau frammi fyrir viðskiptaþvingunum, jafnt fjárfestingarþvingunum sem og öðrum viðskiptaþvingunum.

Við getum ekki í ljósi reynslunnar núna búið við þá umgjörð að velferðarsamfélag Vesturlanda sé í þeirri stöðu að stór hluti þjóðarauðsins komi aldrei til skattlagningar eða lúti engum reglum um gagnsæi og rétta meðferð fjármuna eins og við gerum að öðru leyti ráð fyrir í löggjöf. Það hlýtur að vera grundvallarkrafa okkar í viðskiptum við önnur ríki að þau virði þá grundvallarhagsmuni okkar því að þetta skiptir auðvitað höfuðmáli um getu okkar til þess að halda úti því velferðarstigi sem við öll viljum halda uppi vítt og breitt um Vesturlönd.