145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[16:59]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í hinni ágætu greinargerð sem fylgir með þingsályktunartillögunni er vel farið yfir það alþjóðlega samstarf sem meðal annars er á vettvangi OECD, Norðurlandanna og fleiri ríkja. Ég tek undir að Ísland eigi að vera í forustu í því samstarfi og aldrei vera lengi að innleiða það sem þar er verið að gera. Ég hef bara efasemdir um að Ísland eigi að hafa eitthvert sérstakt frumkvæði að viðskiptaþvingunum vegna þess að ég held að þær bitni á röngum aðilum, fátæklingum og almenningi í þessum litlu lögsögum sem munu satt að segja fara sínu fram hvort sem er.

Það getur verið hálfgerður tvískinnungur í því að hafa mjög í hótunum við lítil ríki en þora síðan ekki að hjóla í Bandaríkin sem eru í Delaware með lög til að draga að útlendinga. Bandaríkin mega ekki leyna eignarhaldi sínu í Delaware, það eru útlendingar. Bandaríkjamenn hafa verið harðir í því að sækjast eftir upplýsingaskiptasamningum, að þeir megi sækja gögn um sína landsmenn, en þeir vilja ekki gefa upplýsingar um þá útlendinga sem eiga hluti í Delaware. Það er tvöfeldni í gangi í heiminum og við megum ekki vera leiksoppur í því dæmi.

Ég held hins vegar að það séu mikil tækifæri fyrir Ísland til að sýna gott fordæmi, taka til hjá okkur sjálfum. Núna er skýrsla í drögum í efnahags- og viðskiptanefnd sem byggir á ábendingum sem nefndinni bárust í síðustu viku þar sem eru hvorki meira né minna en 19 atriði sem við gætum bætt í okkar löggjöf til að verða til fyrirmyndar í þessu vegna þess að Ísland er á vissan hátt skattaskjól. Ísland er á vissan hátt staður þar sem maður getur leynt því hver er raunverulegur eigandi í hlutafélagi. Við getum breytt lögum hér og síðan sagt: Þannig höfum við gert hreint í okkar garði, þannig bætum við okkar eigin ímynd, að við séum ekki að laða hingað fé sem er að leita að skjóli eða illa fengið fé eða taka þátt í einhverri skattasamkeppni sem er komin út fyrir öll mörk.

Ég held að sú leið væri betri en ég fagna málinu og þeirri umræðu sem hér er.