145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:01]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur áhyggjur af því á hverjum viðskiptaþvinganir mundu bitna. Það er líka hægt að stilla þær af þannig að þær hafi tilætluð áhrif. Við sjáum til dæmis að stór hluti af viðskiptaþvingunum alþjóðasamfélagsins gagnvart Rússlandi hefur snúið að nafngreindum aðilum í nómenklatúrunni, í forréttindastéttinni, sem ræður fyrir landinu og hittir þannig akkúrat fyrir þá sem helst þarf að hitta fyrir.

Hitt sem hv. þingmaður nefnir, Delaware og hlutur Bandaríkjamanna þannig í þessu, er alveg hárrétt og við þurfum auðvitað að ræða það. Þess vegna er þessi tillaga hugsuð sem heimild fyrir Ísland til að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi að þessu leyti líka þannig að við getum af fullum krafti sest niður með félögum okkar innan Evrópusambandsins og EFTA og rætt þetta mál við Bandaríkin. Það hefur ekkert mikið verið rætt á Íslandi. Svo að segja hvert einasta þekkingarfyrirtæki sem skráð hefur verið á Íslandi frá hruni er með heimilisfesti í Delaware. Við ræðum þetta ekki neitt, en vegna veikleika gjaldmiðilsins og haftanna hafa menn skráð sig annars staðar og auðvitað er af því líka skattalegt hagræði. Við þurfum að ræða það á alþjóðlegum vettvangi við Bandaríkin með hvaða hætti þau ætla þá að leggja sitt af mörkum.

Það er athyglisvert í þessum Mossack Fonseca skjölum, og maður veit ekki alveg af hverju það er, að þar sé ekki eitt einasta bandarískt fyrirtæki og ekki einn einasti bandarískur aðili í öllum þeim 3 terabætum af gögnum sem þar er að finna. Samsæriskenningasmiðir hafa komið með betri skýringar en ég ætla að koma með hér á því en það er bara vert fyrir okkur að hafa í huga að heildarmyndin í þessu máli kann að vera stærri og flóknari en við höfum jafnvel gert okkur í hugarlund.