145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Við erum náttúrlega fjarri því að vera að tæma þetta umræðuefni og komum til með að ræða það enn um sinn og ekki síst vegna þess að markalínur ríkisstjórnarflokkanna eru á furðulegum stöðum og í raun og veru á allt öðrum stað en meðal til að mynda fjármálaráðherra Evrópusambandsríkjanna og annarra þeirra sem eru í forustu landanna í kringum okkur sem líka glíma við afleiðingar Panama-skjalanna, þó ekki í jafn ríkum mæli og við hér á Íslandi. Af því held ég að full ástæða sé til að hafa áhyggjur. Hitt er annað sem kom fram í andsvari hv. þm. Frosta Sigurjónssonar að í vissum skilningi er um tvískinnung að ræða. Þá er ég ekki að tala um tillögu hv. þingmanns heldur það, og nú er ég ekki að gera hans orð að mínum heldur miklu frekar að orða þessa hugsun, að hér horfum við í raun á afurð nýfrjálshyggjunnar, við horfum á afurð kapítalismans og gróðahyggjunnar og þess að skattar séu í sjálfu sér verkfæri hins illa, ef svo má að orði komast, að það sé í einhverjum skilningi eðlilegt að forðast það að greiða til samneyslunnar, það að skattaskjólin séu leið bisnessmanna og ríks fólks til að forðast skatta heima hjá sér og jafnvel vegna þess að þeir séu of háir. Það hefur meira að segja komið fram í orðum nokkurra hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans að leiðin til að berjast gegn skattaskjólum sé fyrst og fremst að lækka skatta á Íslandi. Það er einmitt grein af þessum meiði. Þarna liggja mjög djúpar pólitískar rætur sem mér finnst skipta máli að við horfumst í augu við. Hvers virði er andstaða OECD eða Evrópusambandsins eða hverra annarra þeirra aðila sem hér um véla þegar viðkomandi aðilar eru líka drifnir áfram (Forseti hringir.) af sömu gróðahyggju, svo ég geri málið ennþá flóknara?