145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:11]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi rökin sem við heyrum, að þessar upplýsingar eigi að kalla á að við lækkum skatta á Íslandi. Þegar maður horfir til þess tíma er menn fóru með alla þessa peninga í aflandsfélög þá voru fyrirtækjaskattar hér með því allra lægsta sem gerðist í heiminum, alla vega á Vesturlöndum, og þá dettur manni í hug Snorri goði: Hverju reiddust þá goðin þegar það hraun rann sem við stöndum á nú? Hvaða háu skattar ollu því að allt þetta gríðarlega flóð varð í aflandsfélög rétt fyrir hrun ef lausnin núna er að lækka skatta til að koma í veg fyrir það? Ég held þvert á móti að um tvennt sé að ræða. Annars vegar að leyna eignarhaldi, og það má ekki gleyma því, mikilvægi þess að forðast gagnsæisreglur og hæfiskröfur og annað slíkt sem hanga á því að allt sé upplýst um eignarhald. Hitt er að það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það varð á ákveðnum tímapunkti á Vesturlöndum viðskilnaður milli raunhagkerfisins og hugmyndafræðinnar. Það má kalla þetta gróðahyggju, nýfrjálshyggju, ég vil meina að það hafi verið lögð áhersla á bóluhagnað og það skipti engu máli hvernig hagnaður varð til. Það skipti ekki máli að hann skapaði störf, það skipti ekki máli að hann skapaði verðmæti, það skipti ekki máli að hann tryggði einhvern samfélagslegan ávinning heldur var allt í lagi að pakka einhverju inn sem menn gátu auðgast um skrilljónir á og jafnvel þannig að engin raunveruleg verðmæti skiptu um hendur. Þessi kapítalismi hefur sannanlega farið á vegg. Hann hefur haft í för með sér hörmungar. Hann hefur aukið á ójöfnuð og hann hefur sogið verðmæti út úr atvinnuskapandi atvinnulífi. Hluti af því að eiga uppgjör við þessa fortíð er að viðurkenna að það er (Forseti hringir.) mikilvægt að skattar séu greiddir, það er æskilegt að skattar séu greiddir og það er eðlilegt að það sé til samneysla. Mér finnst það vanta svolítið í orðræðu forustumanna ríkisstjórnarinnar akkúrat nú.