145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér líður strax miklu betur að heyra það hjá hv. þingmanni að hann vill þrátt fyrir allt gera sitt til að uppræta þetta vandamál. Ef hv. þingmaður hefði ekki sagt það í ræðu sinni áðan að hann hefði í farteskinu 19 tillögur, þá hefði ég leyft mér að halda því fram fullum fetum að ræða hans væri viðleitni til að sópa þessari umræðu undir teppið. En svo er ekki, ég tek það alveg skýrt fram.

Ég ítreka aftur að mikill munur er á því sem er nánast skipuleg starfsemi til að hjálpa skálkum til að skjóta sér hjá því að borga skatta annars vegar og hins vegar einhverjum lagagloppum sem við vitum þó um og hefur ekki verið feluleikur með. Menn gerðu þetta meira að segja meðvitað hérlendis fyrir 30–40 árum beinlínis til að laða hingað erlent fjármagn. En það er önnur saga.

Ástæðan fyrir því að hv. þingmaður er á móti þessu er hugmyndafræðileg. Það hefur margoft komið fram í umræðum um aðra þætti utanríkismála að hann er á móti því að beita alþjóðlegum viðskiptaþvingunum, aðallega vegna þess að Ísland er svo lítið, segir hv. þingmaður, eða ég hef skilið hann þannig í umræðum í nefnd sem við eigum báðir sæti í, og þar sem sé svo auðvelt að koma með mótaðgerðir gagnvart Íslandi. Þá vek ég eftirtekt hv. þingmanns á því að eins og hv. þm. Árni Páll Árnason lagði málið upp í framsögu sinni er hér lagt til að Ísland hefði frumkvæði að því innan bandalaga sem við eigum aðild að, að þau samtök taki þetta upp sem sína stefnu. Hann nefndi sérstaklega EFTA. Ég á nú eftir að sjá ríki eins og Þýskaland, Hong Kong, ég tala ekki um Bandaríkin, standa á móti því þegar alþjóðleg virt samtök með mun lengri sögu en jafnvel sjálft Evrópusambandið hefðu forgöngu að því að beita viðurlögum gagnvart ríkjum sem aðstoða skattaskálka í þessum efnum. Telur hv. þingmaður virkilega að Þýskaland vildi komast á slíkan lista, eða Bandaríkin? Nei. Þetta hefur allt saman (Forseti hringir.) miklu hlutverki að gegna við að auka þrýstinginn gegn starfsemi af þessum toga.

Þess vegna er ég (Forseti hringir.) mótfallinn þessari hugmyndafræðilegu ástæðu hv. þingmanns. Ég tel að hann hafi rangt fyrir sér í þessu efni en hugsanlega rétt fyrir sér í flestu öðru. Um það þori ég þó ekki neitt að fullyrða að sinni.