145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Hann var málefnalegur að vanda. Hv. þingmaður fór pínulítið inn á svörin sem mig langaði að fá hjá honum í svörum sínum við spurningum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar en mig langar að heyra meira um það hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að hægt sé að takast á við þennan vanda með einhverjum öðrum leiðum en viðskiptaþvingunum. Ég deili að miklu leyti áhyggjum hv. þingmanns, sér í lagi þeim að þetta kæmi niður á blásaklausu, fátæku fólki sem hefði ekkert með þetta að gera. Ég hef áhyggjur af því. Það er vissulega alltaf nokkuð sem þarf að hafa í huga en á móti kemur að við þurfum að gera eitthvað.

Ég velti fyrir mér hver viðhorf hv. þingmanns séu til hugmynda á borð við þær að viðurkenna ekki kröfur sem koma frá einhverjum tilteknum ríkjum. Sömuleiðis hefði ég gaman af að heyra meira um hvernig hv. þingmaður mundi skilgreina þessi svæði misjafnlega vegna þess að væntanlega eru misjöfn vandamál við þau. Ég aðhyllist mjög ágætishugtak frá hv. þingmanni, upplýsingasvarthol. Þannig er væntanlega hægt að skilgreina einhver svæði en ekki endilega öll, geri ég ráð fyrir. Ég hef áhuga á að heyra hvað hv. þingmaður hefur um það að segja, hvernig hægt sé að flokka þessi svæði niður með þeim hætti að það væri hugsanlega hægt að beita misjöfnum aðferðum til að eiga við vandamál gagnvart misjöfnum ríkjum.

Sömuleiðis langar mig að heyra frá hv. þingmanni hver hans afstaða er til þess að eignarhald lögaðila skuli vera opið og rekjanlegt. Það er það sem ég heyrði hv. þingmann nefna í svari sínu við annarri fyrirspurn, ef ég skildi hann rétt, að hann teldi það við hæfi þegar um væri að ræða meirihlutaeign, þ.e. ráðandi hlut í hlutafélögum. Það er eitt af þeim atriðum sem ég hefði mikinn áhuga á að heyra meira um frá hv. þingmanni.