145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:33]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Ég hef einmitt velt því fyrir mér, eins og hann, hvaða leiðir séu raunverulega færar og geti raunverulega skilað árangri, hvað við getum gert, hvað ekki, hvað við ættum að gera fyrst og hvað er mikilvægast. Við fengum til okkar sérfræðinga á þessu sviði úr stjórnkerfinu og auk þess hef ég verið að kynna mér það sem er verið að skrifa erlendis, eins og hv. þingmaður hefur eflaust gert sjálfur. Meðal annars er mikið hægt að fræðast um þetta á vefsvæði OECD og síðan á vefsvæðum eins og Tax Justice Network sem eru grasrótarsamtök þeirra sem vilja raunverulega taka á málunum.

Þessi samtök, Tax Justice Network, skattaréttlætissamtökin, hafa gert lista yfir stærstu skattaskjól heims og raðað þeim eftir umfangi, ekki bara eftir leyndinni heldur líka margfaldað með magninu sem fer í gegnum þessi svæði. Þá fer athyglin frá litlu aflandseyjunum sem eru kannski ekki stóru syndaselirnir. Stóru syndaselirnir eru Hong Kong, Bandaríkin og Lúxemborg og þarna tróna fyrirtæki sem eru vönd að virðingu sinni. Ég held að við þurfum að átta okkur á því að skattundanskot eru gríðarlega stórt vandamál. Við munum ekki leysa það ein, Íslendingar. Við getum ákveðið að setja okkur ákveðnar reglur og fara eftir þeim, að okkar ríkisborgarar og okkar fyrirtæki fari eftir ákveðnu siðgæði og ákveðnum reglum. Það getum við alveg sett í lög. Ég held að það sé mikilvægt að þegar við finnum að samfélagið krefst þess að löggjafinn grípi inn í, setji okkur sjálfum reglur, sé það hlutverk okkar í þinginu að finna leið til þess. Þær ábendingar sem við höfum fengið frá íslenskum sérfræðingum í málunum sem eru skattyfirvöld eru afskaplega áhugaverðar hugmyndir og (Forseti hringir.) ég hlakka til að fá að kynna þær nánar.