145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort þessir stóru aðilar, Hong Kong, Bandaríkin og Lúxemborg, séu stærri í þeim skilningi að þar séu meiri umsvif. Eða eru reglurnar verri eða einhvern veginn erfiðara að eiga við þessi ríki? Ég spyr sérstaklega vegna þess að ég velti fyrir mér hvort við mundum þá ekki fara ólíkar leiðir gegn ólíkum svæðum.

Sömuleiðis velti ég fyrir mér í sambandi við fyrri spurningu, sem ég skil mætavel að hv. þingmaður hafi ekki haft tíma til að svara, í sambandi við opið og rekjanlegt eignarhald lögaðila, hvort hv. þingmaður telji líkur á því að ef við tækjum upp sérstaklega róttæka stefnu hér, eða ég geri ráð fyrir að hún sé róttæk, þar sem lögaðilar þyrftu einfaldlega að greina frá eignarhaldi, gæti það haft neikvæð áhrif á okkur. Ég spyr sérstaklega vegna þess að hv. þingmaður nefnir, alveg réttilega að mínu mati, að við eigum að vera til fyrirmyndar. Eru einhverjar þær ógnir fólgnar í því að vera svo mikið til fyrirmyndar að það hreinlega fæli burt viðskipti? Væntanlega er þarna einhvers konar jafnvægi eftir því hvaða aðferðum er beitt, en fyrirtæki ættu ekki að eiga í miklum vandræðum með að opinbera eignarhald sitt. Ég veit ekki hvers vegna menn ættu að vera eitthvað feimnir við það, en þetta er þannig heimur að menn eru oft að fela hluti sem maður áttar sig ekki á hvers vegna þeir ættu að fela ef þeir hafa fullkomlega lögmætan tilgang.

Ég varpa fram spurningunni hvort nokkuð sé því til fyrirstöðu að eignarhald lögaðila skuli vera opið og rekjanlegt.