145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu og tillöguna sem olli henni. Vitaskuld er markmiðið með tillögunni gott og mikilvægt og það er að berjast gegn skattsvikum og leyndarhyggju sem bitnar á þeim sem borga sína skatta, að koma í veg fyrir skattundanskot. Það er mikilvægt markmið, nauðsynlegt markmið.

Ég verð þó að segja að sérstaklega eftir ræðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, og reyndar fyrir hana, hef ég efasemdir um að þessi tiltekna tillaga komi einungis niður á hinum seku. Þá á ég ekki við fólk sem á eignir í þessum ríkjum heldur þvert á móti fólk sem á ekki eignir í þessum ríkjum en býr þar. Hv. þm. Árni Páll Árnason fór inn á það áðan að ef við erum ekki reiðubúinn til að beita vopnavaldi þurfum við að hafa einhverjar aðrar leiðir á borð við viðskiptaþvinganir. Það er hárrétt. En það er líka önnur spurning sem við þurfum að hafa í huga í því samhengi og það er að aðgerðir okkar bitni ekki á saklausu fólki. Mér er minnisstætt þegar sú umræða stóð hvað hæst fyrir nokkru meira en áratug að menn vildu ráðast inn í Afganistan og skömmu síðar Írak. Það var alltaf látið við stríðsandstæðinga eins og þeir væru einhverjir sérstakir vinir Saddams Husseins eða Osama bin Ladens, sem er þvættingur. En í þeirri umræðu kristallaðist að tilgangurinn helgar ekki meðalið. Það skiptir máli þegar við bregðumst við af mjög réttlátri reiði að viðbrögð okkar og aðgerðir séu réttlætanlegar gagnvart þeim sem verða fyrir þeim. Það er ekki sjálfsagt. Það gerist ekki sjálfkrafa. Það þarf að pæla í því, hugsa hlutina til enda og það á hverjum aðgerðirnar bitna.

Fyrst þegar ég sá þessa tillögu leist mér ágætlega á hana. Hún er í róttækari kantinum eftir því sem ég fæ best séð. Sömuleiðis varðar hún ekki það að Ísland fari upp á sitt einsdæmi að lýsa yfir viðskiptaþvingunum og viðskiptabönnum hér og þar heldur beiti sér fyrir þeim á alþjóðlegum vettvangi, sem er auðvitað eina leiðin til að gera þetta, hygg ég, og augljóslega samkvæmt flutningsmönnum og þeim ágætu hv. þingmönnum sem töluðu á undan mér.

En þá velti ég fyrir mér hvað sé hægt að gera. Nú hafa lönd verið skilgreind í misjöfnum brotaflokkum, ef ég skil rétt. Það er sjálfsagt og nauðsynlegt að skilgreina nákvæmlega hvað það er sem við ætlumst til af öðrum ríkjum í sambandi við skattupplýsingar. Mér finnst gott orð sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson notar stundum, upplýsingasvarthol. Auðvitað er helsti vandinn sá að þær upplýsingarnar sem þarf til að meta skattbyrðina fást ekki. Það er rót vandans í reynd.

Það að segja öðrum ríkjum hvernig þau eigi að haga upplýsingamálum sínum er ekki eitthvað sem við gerum ein og sér. Til þess þarf að vera viðskiptalegur þrýstingur, ekki endilega hótanir en viðskiptalegur þrýstingur.

Ég velti einnig fyrir mér upp að hvaða marki sé mögulegt að nota hreinlega siðferðisviðmið þegar kemur að fyrirtækjarekstri almennt. Það er stundum sagt að fyrirtæki hafi einungis tvær tilfinningar, hagnað og tap. Þó er það þannig að stundum er þessi hagnaður og þetta tap bundið því hvernig fólk upplifir tiltekið fyrirtæki og þá geta hugsanlega, án þess að ég hafi lagst í neinar rannsóknir á því, siðferðisgildi og gildi sem fyrirtæki ákveða á eigin spýtur að rækta og rækja, haft áhrif á hegðun fyrirtækja. Sem dæmi má nefna ef fyrirtæki tekur þá siðferðilegu afstöðu að nota einungis endurnýjanlega orku eða eitthvað því um líkt. Það getur haft áhrif á viðskipti þess og þá væntanlega og vonandi með jákvæðum hætti.

Það er þó að mínu mati fullmikil bjartsýni að ætlast til þess að slíkir ferlar virki einir og sér. Til þess að raunverulega hafa áhrif á stóra aðilann sem skiptir máli þarf reglur, þarf einhverja umgjörð. Ég dreg þá ályktun einfaldlega út frá því að fyrirtæki og sambærilegar stofnanir eru ekki tilfinningaverur í sama skilningi og manneskjur og jafnvel dýr.

Mér finnst því ekki augljóst hvað eigi að gera. Mér finnst hins vegar í samhengi við það heldur ekki augljóst að þetta sé rétta leiðin. Mér finnst sjálfsagt að skoða hana betur og hlakka sérstaklega til að sjá hvað kemur af umsögnum þegar málið er komið úr umsagnarferli, hvað fólk sem þekkir vel til um þessi mál getur frætt hið háa Alþingi um í því sambandi. Og sömuleiðis hvernig umræðan mun líta út við seinni umræðu, sem ég vænti þess að verði jafn áhugaverð og þessi.

Það er eiginlega ekki hægt að ræða þetta mál án þess að fara aðeins inn á hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og Falson & Co, fyrirtæki sem hann átti einhvern tímann og er ekki lengur starfrækt og allt í góðu með það. Það sem er erfitt við þessa umræðu og í kjölfar þeirra uppljóstrana sem hafa nýlega átt sér stað er að það er ákveðið trúverðugleikavandamál. Það er til staðar jafnvel ef maður gefur öllum í umræðunni allan séns í heiminum, jafnvel ef maður lætur hvern sem er njóta hvaða vafa sem er. Það er samt sem áður trúverðugleikavandamál til staðar vegna þess að ef hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra stígur í pontu og segir okkur að hann sé mótfallinn þessari tillögu þá þarf maður, hvort sem manni líkar betur eða verr, að taka með í reikninginn hvernig hann sjálfur hefur talað um viðskipti sín frá 2006 eða hvað það var. Það er ákveðið vandamál. Mér finnst þetta oft ekki spurning um það hvort menn hafi gert eitthvað rétt eða rangt heldur hvort það líti út fyrir að ástæðurnar að baki því sem þeir hafa myndað sér skoðun á séu raunverulega málefnalegar. Það er eitthvað sem við þurfum alltaf að spyrja okkur að í stjórnmálum. Það verður erfiðara undir þessum kringumstæðum.

Þó vil ég þakka hv. þm. Frosta Sigurjónssyni sérstaklega fyrir þátttöku sína í umræðunni. Mér þykir alltaf áhugavert að heyra hvað sá hv. þingmaður hefur að segja, jafnvel þegar ég er ósammála honum.

Á þeim stutta tíma sem ég hef kemst ég ekki hjá því að minnast á eitt sem ég heyrði í útvarpinu í morgun og mér finnst undirstrika svolítið vandann sem við þurfum öll sameiginlega að reyna að vinna gegn. Í útvarpinu var maður, sem mér skilst að sé þáttastjórnandi, sem kvaðst hafa farið til Þýskalands og hitt þar konu frá Bandaríkjunum sem spurði hvaðan hann væri. Hann sagðist vera frá, á ensku, með leyfi forseta, „the land of corruption“, eða landi spillingarinnar. Og þessi bandaríska kona í Þýskalandi giskaði strax á Ísland. Það eru svona sögur sem láta manni líða hálf illa með stöðuna sem við erum komin í. Þetta þurfum við að laga.

Ég hygg að við gerum það ekki nema með því að vera framúrskarandi í málaflokknum. Það er langt í það held ég. En ég er alveg viss um að við getum það ef við ætlum okkur það, en þá þurfum við líka að ætla okkur það. Við þurfum að gera meira en aðrar þjóðir til að berjast gegn spillingu. Við þurfum að vera gegnsærri en aðrar þjóðir vegna þess að við erum svo fá og við eigum svo stutta nútímaefnahagssögu. Að mínu mati erum við mjög blaut á bak við eyrun þegar kemur að fjármálum og efnahag yfir höfuð. Þetta þýðir að mínu mati að við þurfum að gera betur. Við getum einfaldlega ekki sætt okkur við að við uppfyllum hinar og þessar reglur sem aðrar þjóðir gera, við þurfum að vera framúrskarandi og það þarf að sjást að við erum framúrskarandi. Ég hygg því miður að langt sé í það, en ég held líka að það sé mögulegt ef við einsetjum okkur að verða það. Ég held að það sé ekki bara raunhæft til lengri tíma, ég held að það sé nauðsynlegt til lengri tíma.

Örstutt á síðustu sekúndunum vil ég nefna 10. lið í efnahagsstefnu Pírata sem við höfum aðeins rætt, hv. þm. Frosti Sigurjónsson og sömuleiðis sá sem hér stendur, en það er að eignarhald lögaðila skuli vera opið og rekjanlegt. Stundum er þeirri hugmynd varpað fram með kvöð um að það þurfi þá að vera ráðandi hlutur sem um ræðir eða ákveðin prósenta, segjum 20% eignarhald eða eitthvað því um líkt. En ég átta mig ekki alveg á því enn sem komið er hvers vegna slíkar takmarkanir ættu að vera til staðar. Hvers vegna ekki einfaldlega að hafa þetta opið og rekjanlegt? Ég átta mig hreinlega ekki á því. Þegar kemur að þessum málum held ég að það gæti verið leið til að vera framúrskarandi, kannski ekki miðað við allar þjóðir, ég þekki ekki hvernig þetta er hjá öllum öðrum þjóðum, en ég held að þarna sé alla vega tækifæri til að gera betur en aðrar þjóðir. Því miður hef ég ekki meiri tíma til að ræða þetta en ég vona að umræðan haldi áfram og hlakka til að sjá hvað kemur fram í umsögnum.