145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að ég sé einhvern veginn ónæmur fyrir rökræðu. Ég hlusta á rök og önnur sjónarmið þegar ég mögulega get. Það er engin mótsögn fólgin í því að ganga lengra en aðrir en samt ekki fara út í algert viðskiptabann. Eins átta ég mig á því að hægt er að útfæra viðskiptabann á mismunandi hátt. En þá er mikilvægt að við höfum eftirfarandi í huga: Þegar eitthvað neikvætt gerist í lífinu og efnahagnum er mikilvægt að bregðast við af ákveðinni yfirvegun, jafnvel þótt maður sé reiður og þótt maður hafi góðan og réttan málstað. Það er mikilvægt ef maður ætlar að fara út í aðferðir sem ganga beinlínis gegn hagsmunum annarra, sem eru hugsanlega heilu ríkin, þá vandi maður til verka og veri viss um hvað maður sé að gera. Mér finnst það ekki ljóst á þessu stigi. Það skýrist væntanlega við meðferð þingsins. Ég hlakka til þeirrar umræðu og eins og ég sagði í ræðu minni hlakka ég til að sjá hvað kemur úr umsögnunum. Væntanlega verður þar eitthvað að finna um slík vandamál sem komið gætu upp. Þá tökum við auðvitað mið af því og reynum að gera þetta á sem bestan hátt. Það er algerlega sjálfsagt í mínum huga. Ég þarf ekkert að velta því fyrir mér hvort ég ætla hlusta á rök eða taka mark á einhverjum nýjum gögnum sem berast. Það er bara hluti af því sem ég tel vera eðlileg vinnubrögð, ekki bara á þingi heldur í lífinu almennt.

En ég get alveg haft það í huga að margvíslegar þvinganir eru til staðar. Ég get alveg haft í huga að hægt er að beina þeim gegn einu fyrirtæki eða ákveðnum málaflokki. Ég var reyndar með það í pælingaglósum mínum að hugsanlega væri hægt að standa að viðskiptaþvingunum þannig að þær bitnuðu mest á þeim sem stjórna samfélaginu, efri stéttum í því samfélagi eða eitthvað. Það er allt saman á hugleiðingastigi, enda erum við hér við fyrri umr. á máli sem ekki hefur einu sinni komist til nefndar enn þá.

Ég leyfi mér allar hugsanir og endurskoðun á hvaða afstöðu sem ég hef, (Forseti hringir.) svo sem gagnvart þessu máli. Hv. þingmaður þarf ekki að hafa áhyggjur af því.