145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[18:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd þeirra þingmanna Samfylkingarinnar sem flytja þetta þingmál þakka þeim ágætu alþingismönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni og með einum eða öðrum hætti lýst stuðningi við málið. Tillagan felur í sér að Ísland hafi frumkvæði að því að viðeigandi samtök taki upp eða hafi frumkvæði að því að beita þau lönd viðskiptaþvingunum sem flokka má sem lágskattalönd eða lönd sem beinlínis hafa gert það að iðnaði innan sinna vébanda að auðvelda skattsniðgöngu eða skálkum að stela fé undan skatti. Umræðan, sem hefur verið krítísk á köflum, hefur sérstaklega snúist um þetta atriði. Sá skilningur sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, hefur á málinu er algjörlega hárréttur. Við megum ekki falla í þá gryfju að útiloka viðskiptaþvinganir á þeim grundvelli að þær geti leitt til þess að hinn breiði fjöldi í þeim löndum sem fyrir verða og er hugsanlega blásnauður fyrir verði helst fyrir barðinu á þeim. Menn verða að gera sér grein fyrir því að úrræðin sem eru fyrir hendi eru margs konar.

Ég nefni það sérstaklega, herra forseti, að á síðustu árum höfum við séð, til dæmis í tengslum við deiluna sem tengist Úkraínu, nýja tegund af viðskiptaþvingunum færast í fremstu víglínu. Við höfum til að mynda séð þar þvinganir sem beint er að sérstökum einstaklingum og þær hafa verið tvenns konar. Í fyrsta lagi hafa þær beinst að því að takmarka ferðafrelsi þeirra. Viðeigandi einstaklingum sem hafa þótt standa fullnærri meintri glæpsamlegri starfsemi þar sem farið er á skjön við alþjóðalög hefur verið meinað að ferðast til tiltekinna landa. Sömu einstaklingum hefur sömuleiðis verið meinað að eiga í tilteknum viðskiptum, einkum á sviði fjármála, í ákveðnum löndum. Þetta eru þær aðgerðir sem ég tel að hafi hrifið hvað mest í þeirri deilu.

Þau tæki sem alþjóðasamfélagið hefur úr að velja eru þær heimildir sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur yfir að ráða. Gleymum því ekki að helsta tæki Sameinuðu þjóðanna er öryggisráðið. Það er sú stofnun sem Sameinuðu þjóðirnar í 1. gr. sáttmála síns fela að standa vörð um alþjóðaréttindi, bæði réttindi þjóða, einstaklinga og líka þær ákvarðanir sem samtökin taka. Í þeim tilgangi að gera öryggisráðinu kleift að standa við skuldbindingar og ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur öryggisráðinu verið fært ákveðið vald. Þetta er í reynd framsal á valdi frá þeim þjóðríkjum sem eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum og er oft og tíðum töluvert umfangsmikið. Í því felst að ef ákvörðun er tekin af hálfu öryggisráðsins þá felur hún í sér að öll aðildarríkin 193 eru bundin til að fylgja henni eftir. Þær aðgerðir sem öryggisráðið getur gripið til eru til dæmis takmarkanir á ferðafrelsi, það eru breiðar alhliða viðskiptaþvinganir en það eru líka þvinganir sem taka til tiltekins afmarkaðs sviðs. Þessi úrræði geta beinst að heilum þjóðum, að fyrirtækjum, fyrirtækjasamsteypum eða einstaklingum.

Ég tel að í þessu tilviki, ef um væri að ræða frumkvæði af hálfu til að mynda Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, um viðskiptaþvinganir gagnvart ríkjum sem beinlínis stuðla að með skorti á regluverki eða með undarlegum reglum sem við fellum okkur ekki við stuðla að einhvers konar starfsemi sem við teljum að sé á snið við lög okkar og siðferði, þá væri það hagkvæmast fyrir markmiðið sem menn hafa að beita slíkum þvingunum á mjög takmarkaðan þröngan hóp einstaklinga sem er í forsvari fyrir þeim geira eða þeim fyrirtækjum sem stunda slíka starfsemi. Það hefur gríðarleg áhrif og um er að ræða svo miklar takmarkanir, tel ég, sem alþjóðasamfélagið getur sett á umsvif slíkra manna að þeir hugsa sig um oftar en tvisvar áður en þeir halda slíkri iðju áfram.

Með sama hætti er hægt að segja að það væri hægt í reynd að loka fyrirtæki sem stunda slíka starfsemi af með aðgerðum af hálfu alþjóðasamfélagsins. Slíkar aðgerðir væru ekki til þess fallnar að hafa áhrif nema á mjög takmarkaðan fjölda manna, hugsanlega starfsmenn þeirra fyrirtækja sem fyrir yrðu, en þá spyr maður sjálfan sig: Er það hlutverk okkar að spara við okkur aðgerðir sem koma í veg fyrir að fólk hafi iðju og framfæri að því að stunda sviksamlega starfsemi? Að sjálfsögðu ekki. Þetta mundi hins vegar koma í veg fyrir að hinn breiði fjöldi, oft blásnauður, í löndum sem flokka má sem skattsniðgönguríki verður ekki að nokkru leyti fyrir barðinu á slíkum aðgerðum.

Síðan er önnur hlið á þessu máli sem þeir sem vilja ræða þetta á mórölskum grunni verða líka að skoða. Það kann vel að vera í þeim tilvikum þar sem menn hafa gripið til breiðari og alhliða viðskiptaþvingana að það muni koma niður á þeim sem fátækir eru í viðeigandi löndum. En við skulum þá ekki gleyma hinni hlið þessa máls og hún er sú að þetta framferði kemur nú þegar niður á blásnauðu fólki í þeim löndum sem þeir búa í sem skjóta fé undan skatti. Þeir sem það gera koma sér hjá því að borga fyrir gangvirki samfélagsins, koma í veg fyrir það að þeir greiði sinn rétta skerf. Með öðrum orðum draga þeir ýmist úr þjónustu til velferðar í viðeigandi löndum, eins og hér á Íslandi, eða láta aðra borga fyrir það. Það er hin hliðin á þeirri röksemd sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson flutti hér í dag. Þetta er mjög mikilvægt að menn skilji í þessari umræðu.

Í fyrsta lagi er hægt að beita alþjóðlegum viðskiptaþvingunum þannig að þær nái einungis gegn takmörkuðum fjölda manna, t.d. í tilviki Úkraínudeilunnar náðu þau fyrst til 10 manna, sá hópur var síðan aukinn upp í tæplega 30, en það hafði samt mjög mikil áhrif, auk þess voru ýmsar aðrar þvinganir. En það eru þessi viðurlög sem gegnum þvinganir er beitt að litlum hópum sem beinlínis eru ráðandi og í forustu ólögmætra aðgerða, sem hafa mjög skýr og sterk áhrif.

Hitt og í öðru lagi sem menn þurfa líka að hugsa er að það er með þeirri iðju sem er verið að reyna að uppræta líka verið að draga úr lífsgæðum þeirra sem eru veikir fyrir, sem eru fátækir í löndum þar sem þeir búa sem fremja skattsniðgöngu eða skattsvik með þessum hætti.

Herra forseti. Þessi umræða er náskyld þeirri umræðu sem var hér síðastliðinn föstudag um tillögu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Við í Samfylkingunni styðjum þá tillögu. Það sem er skrýtið í þessari umræðu er vitaskuld það að þeir sem hafa tjáð sig af hálfu framkvæmdarvaldsins koma ekki til hennar. Ég verð að segja að það er undarlegt að eiga hér umræðu dag eftir dag um það mál sem hefur vakið mest umrót í íslensku samfélagi og hefur svipt hulunni af stórfelldum flutningi fjár héðan frá Íslandi í skattaskjól þar sem það er geymt á reikningum sem við höfum ekki einu sinni hugmynd um hverjir eiga og þar sem fyrir liggur, a.m.k. í einu tilviki, að viðkomandi aðili hefur meira að segja notað fé á kröfur, kaupa pappír á íslenska ríkið, var í hópi kröfuhafa. Við þessa aðferð er því skrýtið að enginn úr hópi framkvæmdarvaldsins, enginn hæstv. ráðherra, skuli koma hingað til umræðunnar. En hrós þeim er hrós ber og ég vil þakka hv. þingmönnum Elínu Hirst, Frosta Sigurjónssyni, Willum Þór Þórssyni, Þorsteini Sæmundssyni og öðrum þeim úr stjórnarliðinu sem hafa komið og rætt málið og öll, hvert og eitt einasta sem tekið hefur til (Forseti hringir.) máls úr stjórnarliðinu hefur meira og minna fallist á þær röksemdir sem við höfum flutt fram.