145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[18:30]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar frá þingflokki jafnaðarmanna um alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum. Hún var flutt af fyrsta flutningsmanni, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, sem fylgdi henni úr hlaði. Það eru nokkur atriði í greinargerð sem hafa ekki mikið verið rædd en rétt er að fjalla um. Ég verð að segja í upphafi máls míns, og taka þar með undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að þingsályktunartillagan sem við ræðum er af svipuðum meiði og tillagan sem við ræddum síðasta föstudag, tillaga Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum. Allt kemur þetta fram út af svokölluðum Panama-skjölum sem birt hafa verið og hafa valdið miklum titringi víða um heim, ekki síst á Íslandi miðað við það sem er komið fram og á meira eftir að koma fram í þeim efnum. Þess vegna er þessi tillaga lögð fram um að boða að ríki Evrópusambandsins, sem við eigum inngrip inn í í gegnum EES, beiti sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum.

Í tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Þá hafa komið fram hugmyndir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um svartan lista yfir ríki og svæði sem ekki eru tilbúin til samstarfs og að þau verði í kjölfarið beitt þvingunum og að þrýst verði á um gerð og framkvæmd samninga á vegum ESB og OECD um gagnsæi í skattamálum, m.a. OECD Base Erotion Profit Shifting Guidelines og samnings OECD um gagnkvæma aðstoð í skattamálum, Convention on Mutual Administrative Assistance in Tax Matters.“

Líka er fjallað um að samtök jafnaðarmanna í Evrópu, PES-samtökin, hafi komið fram með tillögur, sem hæstv. forsætisráðherra gerði að umtalsefni í dag, tillögur danskra jafnaðarmanna í þessum efnum. Allt ber það að sama brunni sem hér er lagt til. Ríki víðs vegar í kringum okkur, ríki sem við eigum samskipti við, leita leiða til þess að koma í veg fyrir skattundanskot og að farið sé í lágskattaríki eða skattaskjólsríki.

Talað er um að í kjölfar birtingar Panama-skjalanna hafa komið fram háværar kröfur um að stemma stigu við starfsemi þessara ríkja. Boðað hefur verið til alþjóðlegra samræmdra aðgerða og segir í tillögunni að fimm öflugustu ríki Evrópusambandsins, Bretland, Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Spánn, hafi tilkynnt nýlega að skattyfirvöld ríkjanna muni skiptast á upplýsingum sem gagnast geti til að koma í veg fyrir skattundanskot með notkun aflandsfélaga. Vitnað er í það sem fjármálaráðherra Bretlands, George Osborne, tilkynnti um samkomulag um alþjóðlegan svartan lista yfir skattaskjól og mörg G20-ríki hafa fagnað þeim fyrirætlunum.

Einnig er fjallað um hvað fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa sagt og eru að ræða um. Þá liggur fyrir á Evrópuþinginu tillaga um rannsókn á Panama-skjölum sem þingið mun taka afstöðu til í maí, en margir þingmenn á Evrópuþinginu hafa kallað eftir rannsóknum og aðgerðum í kjölfar lekans.

Það er sannarlega þörf á því. Í umræðu á föstudaginn um tillögu Vinstri grænna vísaði ég í fund sem ég sat þar sem skattrannsóknarstjóri fór yfir þessi mál, m.a. þau gögn sem keypt voru hingað og vandamál sem skattyfirvöld í þessum löndum eiga við að etja. Það var sláandi að heyra þá lýsingu að í skattaskjólslöndunum er ekki skylda að búa til ársreikning og ekki skylda að telja fram til skatts. Svo var tekið dæmi um fyrirtæki sem geta þess vegna verið skráð í Lúxemborg, sem eru á hinu Evrópska efnahagssvæði en geta svo verið skráð með félag í Tortólu og talið fram eða sýnt fram á að greiddur hafi verið sérfræðistyrkur upp á, við skulum segja 100 millj. kr., en vonlaust fyrir skattyfirvöld að fá sundurliðun á því hverjir fengu greitt. Það hlýtur að vera þess vegna sem aðilar fara í skattaskjólslönd, til að fela peninga, til að þurfa ekki að telja þá fram, til að þurfa ekki að sýna ársreikning og annað slíkt. Það er dálítið sérstakt að verið er að fara með peninga til landa sem eru með lága vexti miðað við vexti á Íslandi.

Allt ber þetta að sama brunni, virðulegi forseti. Eins og ég sagði hefur uppljóstrun Panama-skjalanna gert það að verkum að verið er að ræða þessi mál í öllum þjóðlöndum og það hvernig samfélögin geta komið í veg fyrir þetta. Þess vegna fagna ég því sem hér kemur fram hvað varðar ESB, að búa til svartan lista yfir þau ríki sem vilja ekki taka þátt í þessari upplýsingaskyldu.

Það kemur líka fram í greinargerðinni að að mati ríkisskattstjóra sé um 80 milljónum skotið undan skattgreiðslum. Talað er um að dylja eignarhald, eins og ég sagði áðan.

Virðulegi forseti. Ég held að þessar tvær tillögur séu mikilvægt innlegg í umræðuna hér á landi sem við stöndum frammi fyrir á Alþingi. Við þurfum að taka ákvörðun um hvað við viljum gera vegna þess að svona getur þetta auðvitað ekki gengið, það er alveg ljóst.

Má ég svo líka minna á að á sama tíma og þetta óvissuástand ríkir og ekki er klárt hvenær verður kosið er komin fram tillaga um að stöðva sölu ríkiseigna í ákveðinn tíma. Ég segi fyrir mitt leyti, út frá þeirri umræðu sem varð á fyrirspurnafundi í dag, þ.e. út af fyrirspurn minni til hæstv. fjármálaráðherra um ýmislegt sem gerðist við sölu Landsbankans á 31,2% hlut í Borgun og það ógegnsæi sem þar var, leynd og í raun mjög skrýtnir viðskiptahættir, að mér finnst full þörf á svoleiðis aðgerð á meðan menn eru aðeins að gíra sig niður og komast að niðurstöðu um hvernig þetta á að vera. Þetta er ekki hægt að bjóða þjóðfélagsþegnum að horfa upp á. Hvað varðar þetta tiltekna Borgunardæmi sem ég og hæstv. forseti höfum oft rætt á þingi, ef hægt er að reikna út að ávinningur af sölu á þeim litla hlut sé orðinn, segjum að lægri talan sé 4 milljarðar og hærri talan allt upp undir 8,5 milljarðar, þá er það náttúrlega eitthvað sem getur ekki gengið. Það er ósköp eðlilegt að fólkinu í landinu ofbjóði og allt verði vitlaust. Um leið hefur ríkið orðið af mikilli eign og miklum tekjum, sérstaklega þeirri eign sem þarna er. Ég bæti því svo við sem kom fram í dag að upp undir helmingur af kaupverði hlutarins, þessum 2,2 milljarða hlut í Borgun, er kominn til baka á tveimur árum sem arður út úr fyrirtækjum, þ.e. þeirra hlutur af arðgreiðslu sem fer þá að nálgast 3 milljarða kr.

Ég fagna þessari tillögu, enda er ég einn af flutningsmönnum hennar alveg eins og ég fagna þingsályktunartillögu Vinstri grænna. Ég fagna því sem ríkisstjórnin hefur þó gert, að setja í gang vinnu hvað þetta varðar sem er efnislega svipuð og hér er og annað sem gert hefur verið í þeim dúr í framhaldi af þeim Panama-skjölum sem hafa komið fram og hafa skekið þjóðfélagið.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessi tillaga fái þinglega meðferð í þingnefnd ásamt öðrum tillögum sem koma fram um þetta og að áður en þingi lýkur og þingmenn fara heim og til kosninga verði gripið til aðgerða og reynt að komast að samkomulagi allra sem sæti eiga á Alþingi, allra flokka, sem verði þá að tillögu sem allir geta sætt sig við og menn telja fullnægjandi til að reyna að stoppa í þessi göt.