145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

útlendingar.

560. mál
[18:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í umræðu um nefndarálitið um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, um kærunefndina. Við höfum kallað þetta litla útlendingamálið en það er ekki svo lítið heldur veigamikill þáttur í því að takast á við það sem við erum að fást við, þ.e. fjölgun flóttamanna, hælisleitenda og fólks sem sækir til okkar út af einhvers konar neyðarástandi. Það er rétt að við erum tvær með fyrirvara á nefndarálitinu. Auðvitað er hæpið að hægt sé að gera svo að öllum líki, en það er frumskilyrði að hægt sé að hraða þessari vinnu svo að fólk þurfi ekki að bíða jafn lengi og það hefur þurft að gera fram til þessa og þurfi ekki að velkjast um í kerfinu milli vonar og ótta um það hvort mál þess fái framgang eða hvort það þurfi að fara úr landi.

Fyrirvari minn og hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur er á þá vegu að við teljum mikilvægt að gagnsæi sé viðhaft í öllu ferlinu gagnvart kærendum og þess sé gætt í hvívetna að aukinn málsmeðferðarhraði komi ekki niður á gæðum málsmeðferðarinnar eða réttaröryggi kærenda. Í c-lið 2. gr. er lagt til að kærunefndin fái rúma heimild til að meta í hvaða málum sé þörf á að kærandi komi sjálfur fyrir nefndina. Þetta er breyting sem ég geri mér grein fyrir að er í þá átt að reyna að hraða málsmeðferð en á móti kemur að verið að skerða þann rétt sem kærendur hafa haft. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því og vona svo sannarlega að það komi ekki til með að bitna á þeim sem sækir málið. Það er í rauninni sett í hendurnar á nefndinni að kærandi eða talsmaður komi fyrir nefndina þegar hún telur þess þörf, það er ekki lengur beinlínis á forsendum þess sem kærir.

Ég vil líka tala um hverjir eru tilnefndir, þ.e. hverjir skipa þessa nefnd. Mér finnst áhugavert að ráðherra skipar þá tvo sem þurfa að vera héraðsdómarar, þ.e. formann og varaformann. Hinir fimm eru tilnefndir af Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnun háskólans og svo eru tveir án tilnefningar. Maður vonast til þess að þarna verðum við komin með hæft og gott fólk til starfans sem hafi ævinlega mannúðina að leiðarljósi við afgreiðslu allra mála en ekki kerfið, en við höfum heyrt mjög mikla gagnrýni á að það sé fyrst og fremst kerfið sem ráði en ekki mannúðin.

Það að tryggja sanngjarna og skilvirka málsmeðferð á ævinlega að byggja á því að við hugum út frá mannúðlegu sjónarmiði og ekki neinu öðru. Það er allt í lagi að geta þess að gert er ráð fyrir því að fjöldi hælisleitenda verði um og yfir 600 og jafnvel enn fleiri. Þeir mánuðir sem liðnir eru af árinu sýna að það er fjölgun miðað við sama tíma í fyrra og eðlilega þar sem ekki tekst að leysa vandann á heimaslóðum þess fólks sem kemur til okkar. Vonandi verður þetta til þess að styrkja það.

Í 2. gr. er líka talað um að þrír nefndarmenn eigi að sitja fundi í hverju máli. Það er svolítið verið að reyna að leggja upp með að með auknum fjölda nefndarmanna verði hægt að búa til einhvers konar sérhæfingu því að mál eru oft mjög sértæk. Það er mjög gott að geta búið til einhverja slíka sérþekkingu sem ætti að ýta enn frekar undir það að málin gangi hraðar fyrir sig. Á sama tíma fá bæði formaður og varaformaður rýmri heimildir til að úrskurða einir og taka ívilnandi ákvarðanir sem geta staðfest ákvarðanir lægra setts stjórnvalds. Mér finnst þurfa að fylgjast mjög vel með því að þetta gangi nokkuð snurðulaust fyrir sig.

Það hefur farið fram mikið starf í nefndinni og málið hefur fengið langa og góða umræðu og við höfum komist að nokkuð sameiginlegu niðurstöðu. Það sem var helst umdeilt í frumvarpinu var í 5. gr. sem fjallaði um örugg upprunaríki en það er tekið hér í burtu. Það breytti heilmiklu og varð til þess að við gátum sæst á að þetta væri forgangsmál og annað væri umdeildara og við gætum tekið samtal um það á lengri tíma, en þetta væri mikilvægt til þess að við gætum hraðað málsmeðferðinni og fólk þyrfti ekki að bíða, eins og ég sagði áðan.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég er fegin að þetta er að komast hér í gegn. Ég vil líka þakka fyrir reglulega góða vinnu í nefndinni. Ég þakka formanninum sérstaklega fyrir utanumhald hennar á þessu og framsögumanninum sem vann að stóra frumvarpinu og hafði góða innsýn í málið í heild sinni og þær báðar. Það skiptir sköpum þegar við erum að fjalla um svona viðkvæm mál.