145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. 1. maí var haldinn hátíðlegur á sunnudaginn og var þar eðlilega minnst 100 ára sögu verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Samstaða í 100 ár — sókn til nýrra sigra, var slagorð dagsins og gleðilegt að íslensk alþýða gat fagnað mörgum sigrum á síðustu 100 árum og á trúlega eftir að fagna mörgum á næstu árum. En einkunnarorð 1. maí sem lengst hafa lifað í mínum huga eru: Frelsi, jafnrétti og bræðralag. Það var kallað eftir réttlæti í samfélaginu um síðustu helgi og við tökum undir það.

Jafn falleg og þessi orð eru hvert og eitt eða sem markmið og sýn á betra líf þá velti ég fyrir mér hvernig okkur hafi tekist að láta þau rætast.

Virðulegi forseti. Við heyrum af því á hverjum degi að fyrirtæki og einstaklingar feli peninga í aflandsfélögum. Íslensku bankarnir stofnuðu aflandsfélögin og áttu félögin á lager þegar fólk kom í bankann og bað um ráðleggingar eða fjárstýringu. Það voru bankarnir sem fluttu fjármunina í skattaparadísir og földu fyrir skattinum og ráku fleyg í samfélagið, opnuðu svöðusár sem er enn ógróið.

Sem betur fer tóku ekki allir þátt í þeirri svörtu vinnu bankanna og stóðu heiðarlega að sínum málum. En daglega birtast fréttir í fjölmiðlum af fólki sem fékk afskrifaða milljarðatugi í bankahruninu en hefur flutt inn milljarða til að kaupa hér fyrirtæki og koma sér fyrir á ný. Þetta fé hefur verið flutt til landsins í gegnum 20%-leið Seðlabankans en enginn þarf að gera grein fyrir því hvaðan það fé kemur og þetta fólk hefur notið sérkjara umfram okkur hin.

Þegar ég velti fyrir mér fallegum orðum sem við öll höfum notað við hátíðleg tækifæri, frelsi, jafnrétti og bræðralag, spyr ég hvort við lifum í þannig samfélagi. Ef við viljum sátt í samfélaginu verða bankarnir að gera viðeigandi yfirvöldum grein fyrir því hvað þeir stofnuðu mörg aflandsfélög, hverjir eignuðust þau og hvað bankarnir fluttu mikið fé af landi brott í þessi félög. Ég spyr: Þarf Seðlabankinn ekki að fá svör frá þeim sem fengu milljarðaafskriftir skulda sinna, fá svör við þeirri spurningu hvernig þeir hafi eignast (Forseti hringir.) milljarða í skattaskjólum og flutt þá til landsins á 20%-reglu bankans og skekkt alla samkeppni í landinu? Ég bíð eftir þeim svörum. (Forseti hringir.) Fyrr verður ekki hægt að tala um jafnrétti og bræðralag í þessu landi.


Efnisorð er vísa í ræðuna