145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Í dag, 3. maí, er alþjóðadagur fjölmiðlafrelsis. Það er því miður staðreynd að Ísland er á hraðri niðurleið á lista Transparency International sem metur spillingu í einstökum löndum. Ísland er í 19. sæti og langt á eftir öðrum Norðurlandaþjóðum á lista um frelsi fjölmiðla sem var gefinn út í aðdraganda þessa dags.

Frjálsir og óháðir og öflugir fjölmiðlar sem standa vörð um hagsmuni almennings eru bráðnauðsynlegir til þess að tryggja gagnsæi og aðhald gagnvart stjórnvöldum og koma þannig í veg fyrir spillingu. Atburðir síðustu vikna sýna svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er. Vald fjármálamanna, sem hafa mjög mikla hagsmuni af skoðanamyndun og ákvörðunum stjórnmálamanna yfir áhrifamiklum fjölmiðlum á Íslandi, er mikið áhyggjuefni. Eitt öflugasta dagblað landsins er í eigu fólks sem hefur auðgast mjög mikið í krafti réttar til að nýta sameiginlega sjávarauðlind þjóðarinnar. Miklir hagsmunir eru þar af því að mæla gegn því að gjald fyrir þau afnot verði endurskoðuð í þágu almennings.

Samtök atvinnugreinar sem fær mjög mikinn stuðning af almannafé og nýtur mikillar verndar hafa efni á að gefa út blað sem er dreift út um allt land þar sem rekinn er massífur áróður fyrir sérhagsmunum. Almenningur virðist því látinn kosta þá sérhagsmunagæslu.

Það er lykilatriði fyrir almannahagsmuni, íslenskt samfélag og lýðræði í landinu að hafa burðugan ríkisfjölmiðil sem er hollur almenningi og engum öðrum, óháður sérhagsmunaöflum og varinn fyrir afskiptum pólitíkusa. (Gripið fram í.)

Það er mikið áhyggjuefni að sjá hvernig stjórnmálamenn, sem eru að gjamma hér fram í núna, herra forseti, hafa reynt að vega að RÚV. Þjóðin verður að hafa vit á því að standa vörð um þessa mikilvægu stofnun. Þetta snýst um almannahagsmuni, virkt lýðræði, gagnsæi hvað varðar meðferð valds og almannafjár og varnir gegn spillingu og sérhagsmunapoti sem hefur aldeilis komið hér fram á síðustu dögum og vikum. Þar hafa æðstu menn þjóðarinnar staðið fremst í flokki.

Irina Bokova, forstjóri UNESCO, sagði í ávarpi í tilefni dagsins, með leyfi forseta:

„Á tímum upplausnar og breytinga um allan heim hefur þörfin fyrir hágæðaupplýsingar (Forseti hringir.) aldrei verið meiri. […] Allt þetta krefst þess að skapaður sé góður jarðvegur svo fjölmiðlafrelsi þrífist (Forseti hringir.) og að það kerfi virki sem tryggir rétt fólks til upplýsinga.“

Stöndum vörð um RÚV og stöndum vörð um fjölmiðlafrelsi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna