145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[14:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Fjármálastefna og fjármálaáætlun til fimm ára á grundvelli nýrra laga um opinber fjármál eru nú í fyrsta skipti lagðar fyrir Alþingi. Tilgangur fjármálastefnu er að setja almenn markmið um þróun opinberra fjármála sem breið sátt á að geta náðst um. Fjármálaáætlunin felur í sér ítarlegri útfærslu á markmiðum fjármálastefnunnar um tekjur, gjöld og efnahag opinberra aðila. Fjármálastefnan setur kúrsinn. Fjármálaáætlunin segir til um hvernig róið verður.

Með gildistöku laga um opinber fjármál nú um áramót var mikilvægt skref stigið til að treysta umgjörð opinberra fjármála og innleiða meiri aga í áætlunargerð opinberra aðila með áherslu á langtímastöðugleika í efnahagslífinu. Í lögunum er að finna strangar reglur um afkomu og skuldaþróun, svonefndar fjármálareglur. Ein markverðustu tíðindin í fjármálaáætluninni eru að góðar horfur eru á að tvö skilyrði fjármálastefnunnar, samkvæmt 7. gr. laganna, verða bæði uppfyllt á fyrstu tveimur árum áætlunarinnar, með jákvæðum heildarjöfnuði yfir allt fimm ára tímabilið og lækkun heildarskulda hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, í 30% af vergri landsframleiðslu. Slíkur árangur gefur góð fyrirheit um að það takist að skapa forsendur til að beita þeim úrræðum sem eiga við hverju sinni til að samhæfa fjármál ríkis og sveitarfélaga og bæta opinbera hagstjórn eins og stefnt er að með nýjum lögum um opinber fjármál.

Munar í þeim efnum miklu um að sjálfvirk skuldasöfnun ríkissjóðs hefur verið stöðvuð, skuldir fara lækkandi og enn fremur skiptir máli hversu vel hefur tekist til við framkvæmd ráðstafana í tengslum við uppgjör slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja og áætlun um afnám fjármagnshafta. Fyrir liggja nú til umræðu þessar tvær þingsályktunartillögur og er þeim steypt saman í eina umræðu í stað tveggja eins og mögulegt hefði verið.

Það er því nauðsynlegt að geta þess hér að þessar þingsályktunartillögur eru ekki eitt og sama málið og því mun ég byrja á að reifa helstu atriði fjármálastefnunnar en koma síðar í ræðu minni inn á fjármálaáætlunina, enda er hún lögð fram á grundvelli þeirra markmiða sem koma fram í fjármálastefnunni.

Virðulegi forseti. Lykilatriðin í fjármálastefnunni sem hér eru sett fram snúa að markmiðunum um þróun afkomu og skulda hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, eins og fram kemur í töflu fjármálastefnunnar. Sett er það markmið að næstu fimm árin verði heildarafkoma hins opinbera jákvæð sem nemur að minnsta kosti 1% af landsframleiðslu árlega, þ.e. A-hluti ríkis og A-hluti sveitarfélaga, í því skyni að viðhalda efnahagslegum stöðugleika í þjóðarbúskapnum og lækka skuldir hins opinbera niður fyrir lögbundið skuldahlutfall. Það svarar til um 170 milljarða kr. uppsafnaðs afgangs á afkomunni yfir næstu fimm árin.

Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga, sem var undirritað þann 18. apríl síðastliðinn í aðdraganda stefnumörkunarinnar, hefur verið sammælst um að ganga út frá því að allur afgangur á afkomu hins opinbera myndist hjá A-hluta ríkissjóðs en að afkoma A-hluta sveitarfélaga verði í jafnvægi yfir tímabilið. Samkomulagið er hið fyrsta sem gert er á grundvelli nýju laganna og gildir til eins árs. Ríki og sveitarfélög eru sammála um að styðja sameiginlega við stöðugleikann með því að fylgja eftir þessum markmiðum og leggja þannig af mörkum til þess að hér verði lægri vextir, meiri stöðugleiki og hærra atvinnustig. Að því leyti til er hér um tímamótasamkomulag ríkis og sveitarfélaga að ræða.

Erfitt kann að reynast að beita æskilegu aðhaldsstigi hjá fyrirtækjum í opinberri eigu á næstu árum þar sem mikil þörf hefur myndast fyrir nauðsynlega uppbyggingu í innviðum samfélagsins. Lágt viðhalds- og fjárfestingarstig undanfarin ár ásamt gríðarlegum vexti í ferðaþjónustu hefur kallað á aukna uppbyggingu í flugmannvirkjum samhliða fjárfestingum í orkuframleiðslu og raforkudreifingu. Stefna stjórnvalda er því að heildarafkoma opinberra aðila í heild verði í jafnvægi árin 2017 og 2018 en skili síðan afgangi sem nemi um 1% af vergri landsframleiðslu að meðaltali árin 2019–2021.

Stjórnvöld hafa, auk afkomumarkmiðs, sett sér skuldamarkmið sem felur í sér að heildarskuldir A-hluta ríkissjóðs lækki verulega á tímabilinu, úr um 32% af vergri landsframleiðslu í árslok 2016 í um 21% af vergri landsframleiðslu í árslok 2021. Til að ná svo krefjandi markmiði þarf mun meira að koma til en afgangur á afkomu sem nemur 1% af vergri landsframleiðslu árlega.

Áformuð lækkun á skuldahlutfallinu er að stórum hluta til komin vegna vaxtar í landsframleiðslu á tímabilinu en umtalsverður hluti, sem svarar til um 180 milljarða lækkunar á nafnvirði skuldanna á tímabilinu, byggist á tilteknum forsendum um ráðstöfun óreglulegra tekna á borð við arðgreiðslur, sölu á eignarhlutum í fjármálastofnunum í nokkrum mæli og ráðstöfunum í endurfjármögnun tiltekinna lána. Auk þess er lögbundið að stöðugleikaframlögum frá slitabúum bankanna verði varið til lækkunar skulda.

Virðulegi forseti. Fjármálastefnan byggist á hagfelldri hagspá fyrir tímabilið. Efnahagsaðstæður hér á landi hafa farið batnandi undanfarin missiri og sýna flestir hagvísar merki um framfaraskeið um þessar mundir og næstu árin. Heildareftirspurn í hagkerfinu er á hraðri uppleið aftur eftir mikla dýfu í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Samkvæmt efnahagsspá Hagstofunnar frá því í lok febrúar var vöxtur þjóðarútgjalda 6,2% árið 2015, 5,8% árið 2016 og verður 4,2% árið 2017 en eftir það hægir á vextinum niður í liðlega 2,5% til loka áætlunartímabilsins.

Á þessu ári er þjóðarbúið á sjötta ári samfellds hagvaxtar og gangi þessi hagspá eftir um sleitulausan hagvöxt áfram til ársins 2021 verður þetta lengsta hagvaxtartímabil í nútímahagsögu landsins. Undirliggjandi í þessari þróun er þróttmikill vöxtur einkaneyslu og enn frekar í fjárfestingu atvinnuveganna um þessar mundir. Síðast í gær kom fram hjá hagdeild ASÍ að fram undan væri kröftugur hagvöxtur og það jákvæða væri að hann byggði á traustum grunni þar sem kaupmátturinn knýr áfram vöxt einkaneyslunnar en ekki skuldsetning heimilanna. Allt ber að sama brunni.

Verðbólga hefur verið undir viðmiðum Seðlabankans þrátt fyrir miklar launahækkanir í kjarasamningum, bæði á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera, sem leitt hefur til talsvert meiri kaupmáttaraukningar en gert var ráð fyrir. Hvers vegna er verðbólgan þetta lág? Ja, það skýrist að stærstum hluta af verðhjöðnun sem flutt hefur verið inn frá viðskiptalöndum, meðal annars vegna lækkandi olíuverðs og hrávöruverðs, og af því að gengi krónunnar hefur sömuleiðis verið að styrkjast. Samhliða þessu hefur atvinnuleysi minnkað mikið. Hins vegar hefur framleiðni staðið í stað og það er visst áhyggjuefni og það getur dregið úr vexti mögulegrar framleiðslu í hagkerfinu. Sú þróun hefur orðið til þess að framleiðsluslaki hefur horfið og ójafnvægi hefur tekið að myndast milli heildareftirspurnar og framleiðslugetu.

Ekki virðist þó ástæða til að ætla að uppsveiflan sem hafin er verði í líkingu við góðærið á árunum fyrir hrun bankakerfisins þar sem ekki er útlit fyrir nærri jafn mikla þenslu í heildareftirspurn né eignabólur sem þenjast út á flæði af ódýru fjármagni. Þetta er ekki sami skuldsetti vöxturinn og við sáum áður, mun heilbrigðari undirstöður fyrir þessum vexti.

Mikil samtímaáhrif stærri fjárfestinga og framkvæmda gætu þó magnað upp verulega spennu í byggingar- og mannvirkjaiðnaði eða eftir atvikum á einstökum sviðum. Þá má nefna að fjármálakerfið stendur traustum fótum, byggist á innlendri fjármögnun, stendur ekki lengur í áhættusamri erlendri stöðutöku og er starfsemi sem býr að sterkri eiginfjárstöðu.

Staðan er því nokkuð góð heilt yfir, það er bjart á að líta fram veginn svo lengi sem ábyrg og traust hagstjórn á grundvelli raunsærrar fjármálaáætlunar lýsir hann upp.

Virðulegi forseti. Ég vík máli mínu þá að sjálfri fjármálaáætluninni. Í þessari umræðu er tækifæri til þess að ræða stefnuna. Hvernig eigum við að deila byrðunum á milli opinberra aðila við að styðja við stöðugleikann? Hvernig tekur þingið við stefnu af þessum toga þar sem lagt er upp með 1% heildarafgang? Hvaða sjónarmið eru uppi varðandi skuldaþróun? Hvaða sjónarmið eru uppi um það hversu mikið meira við getum leyft ríkinu að taka til sín eða yfir höfuð opinberum aðilum við þær aðstæður sem nú eru uppi í hagkerfinu? Þetta eru grundvallarspurningar fjármálastefnunnar.

En aftur að sjálfri fjármálaáætluninni. Það er mikilvægt að okkur takist að fara í gegnum þessa umræðu eins og hún er hugsuð þar sem við beinum sjónum okkar einkum að breiðu línunum og því sem er fram undan. Þetta er ekki fjárlagagerð fyrir næsta ár en við erum samt að teikna upp útlínur fjárlaganna með fjármálaáætluninni. Með því að skuldir verði greiddar niður og himinhá vaxtabyrði ríkisins lækkuð myndast á næstu árum aukið svigrúm til að byggja upp samfélagslega mikilvæga innviði, létta byrðum af vinnandi fólki með lægri sköttum og treysta til muna grunnþjónustu ríkisins, meðal annars með hærri bótum til þeirra sem höllum fæti standa, stóreflingu heilbrigðiskerfisins og meiri gæðum menntunar á öllum stigum.

Þannig búum við raunverulega í haginn fyrir komandi kynslóðir og fjölgum tækifærum ungs fólks sem vill búa hér og starfa. Og um þetta fjallar þessi fjármálaáætlun í raun og veru. Hún dregur nefnilega upp mynd sem segir að í ljósi verulegra umskipta til hins betra í ríkisfjármálum á undanförnum missirum og góðrar stöðu í efnahagslífinu blasi gríðarleg tækifæri við Íslendingum til að auka velferð allra í þessu landi og nýta þau tækifæri sem eru fram undan til að byggja enn frekar upp og búa í haginn.

Allir helstu hagvísar og hagtölur benda til þess að hagur fólks á Íslandi fari mjög batnandi. Skuldir heimilanna fara lækkandi. Laun fólks hækka umfram verðbólgu á sama tíma og mjög hefur dregið úr atvinnuleysi og atvinnuþátttaka eykst. Þetta eru jákvæð tíðindi fyrir heimilin í landinu. Svo mjög hafa laun hækkað á undanförnum 12 mánuðum að við höfum ekki mælt aðra eins kaupmáttaraukningu frá því að mælingar hófust árið 1989. Þetta er það sem tölurnar fyrir síðustu 12 mánuði segja okkur.

Við sjáum líka á öðrum mælikvörðum sem mæla félagslega velsæld að við færumst hratt í rétta átt og skipum okkur sess með þjóðum sem eru að ná hvað bestum árangri á heimsvísu, hvort sem það er á grundvelli kannana eins og Social Progress Index, með leyfi forseta, og ég leyfi mér að vitna í aðra skýrslu sem tekin er saman af OECD, Society at a Glance. Þessar skýrslur segja okkur þessa sögu.

Í skýrslu um félagsvísa 2015 kemur einnig fram að tekjudreifing árið 2014 hefur ekki verið meiri á Íslandi í tíu ár, hvort heldur sem stuðst er við Gini- eða fimmtungastuðul, og mjög dregur úr skorti á efnislegum gæðum. Nýjar tölur frá Eurostat staðfesta að hvergi var meiri jöfnuður í Evrópu en á Íslandi árið 2014.

Auðvitað er það ekki svo að hver og einn sjái skuldir sínar lækka sem hlutfall af landsframleiðslu. Fæstir velta því fyrir sér yfir höfuð hvað þeir skulda sem hlutfall af landsframleiðslu en staðan heilt yfir, um heildarskuldir heimilanna sem hlutfall af landsframleiðslu, segir sögu um það hvernig staða heimilanna almennt séð er að þróast. Það sem fólk hefur fyrst og fremst áhyggjur af eru næstu mánaðamót, nánasta framtíð, hvernig gengur að láta laun og aðrar ráðstöfunartekjur duga fyrir því sem þarf þann og þann mánuðinn og það og það árið. En það er engum blöðum um það að fletta að allir þeir hagvísar sem ég hef hér vísað til segja góða sögu um að við erum að þokast í rétta átt og reyndar ekki bara þokast, okkur miðar hratt áfram þessi missirin.

Við vitum líka að staða sumra þjóðfélagshópa, eins og aldraðra og öryrkja, er enn viðkvæm og fólk í neðri launaþrepunum á erfitt með að ná endum saman. Það er ekki nóg að benda á kaupmáttaraukningu eina og sér ef ekki felst í því á sama tíma sanngjörn og réttlát skipting milli allra þeirra sem leggja sitt af mörkum í samfélaginu. Það má ekki gerast að einhverjir þjóðfélagshópar verði beinlínis skildir eftir. Ég tel að þær tölur sem við erum með í dag sýni að það eru allir að taka þátt í lífskjarasókninni. Það segir ekki að við séum búin að ná endanlegum markmiðum. Verkefninu er aldrei lokið, en við þurfum áfram að hlúa betur að þessum þáttum, þeim sem minnst mega sín og hafa úr minnstu að spila. Jákvæðu tíðindin í því sem við erum nú með í höndunum í þessum þingsályktunartillögum eru þau að við erum sem betur fer, eftir tiltölulega fá ár frá falli fjármálafyrirtækjanna og þeim erfiðleikum sem því fylgdu, að komast í stöðu til að treysta enn frekar undirstöður velferðarsamfélagsins.

Í þessu sambandi vil ég get þess sérstaklega að í áætluninni er að finna tölur sem sýna þróun á ýmsum bótaflokkum. Það þarf að gæta að því þegar þingsályktunartillagan er lesin að stór hluti þeirrar hækkunar sem mun birtast í almannatryggingakerfinu er inni í lið sem heitir Laun og verðlag. Það kemur til af því að bætur munu fylgja því sem hærra er af launum eða verðlagi í framtíðinni. Þetta er mikilvægt atriði.

Almennt um framsetningu í þingskjalinu vil ég sömuleiðis segja að það mun án vafa taka einhvern tíma fyrir menn að glöggva sig á þessari nýju framsetningu, enda eru þetta nýlega samþykkt lög, þetta er nýtt verklag, þetta eru ný sjónarhorn sem við erum að birta á opinberu fjármálin og það er sjálfsagt og eðlilegt að menn taki tíma í að skilja það allt til fulls; og sjálfsagt að geta þess einnig að þetta mun að hluta til marka útlit fjárlaga sem koma síðan í kjölfarið fyrir næsta fjárlagaár, þessi breytta framsetning.

Virðulegi forseti. Ég ætla að tæpa í stuttu máli á nokkrum helstu þáttum tekju- og útgjaldaáætlunarinnar og þar með framkvæmdaáætlunar, þeirrar sem við erum hér með í höndunum.

Varðandi tekjuáætlunina sérstaklega; hún mótast af hagstæðum þjóðhagshorfum og þeim breytingum á skattkerfinu sem þegar hafa verið lögfestar. Þá á ég sérstaklega við að miðþrep tekjuskatts fellur brott um næstu áramót en 93% þeirra sem greiða tekjuskatt falla undir miðþrepið og um næstu áramót lækkar sömuleiðis neðra þrepið. Tollar falla svo brott af öllum vörum nema tilteknum matvælum.

Þá hefur á tekjuhlið áætlunarinnar verið gert ráð fyrir ýmsum tímabundnum og óreglulegum tekjum sem taka breytingum á áætlunartímabilinu, svo sem bankaskatti og stöðugleikaframlögum; hér er einkum um að ræða bankaskatt og stöðugleikaframlög. Ef við berum saman undanfarin ár og horfum aðeins inn í framtíðina eru talsverðar sveiflur á tekjuhliðinni sem að verulegu leyti skýrast af tímabundnum skattstofnum eða einskiptistekjum. Tökum sem dæmi árið 2016 sem reyndar er ekki hluti af þessari fimm ára áætlun, þá erum við að horfa upp á algjörlega einstaka heildarafkomu ríkissjóðs sem á sér væntanlega engin fordæmi sem skýrist af slíkum einskiptistekjuþætti sem er stöðugleikaframlögin. Í fyrri áætlunum höfum við gert ráð fyrir að bankaskatturinn fylgdi okkur lengur inn í framtíðina og það þarf að huga að því þegar menn bera þessa langtímaáætlun saman við fyrri langtímaáætlanir; sú staðreynd að slitabúin kláruðu sína nauðasamninga seint á síðasta ári hefur áhrif á tekjuhliðina næstu tvö árin.

Einnig er gert ráð fyrir nokkru svigrúmi til tiltekinna skattaráðstafana eins og lækkunar á tryggingagjaldi frá miðju þessu ári og á tekjuhliðinni koma síðan á móti áformaðar tekjuöflunaraðgerðir eins og hækkun gistináttagjalds og breyting á reglum um samsköttun hjóna.

Þá að útgjaldaáætluninni. Stefnumið um útgjaldaþróun ríkissjóðs miða að því að tryggja að afkomumarkmið fjármálaáætlunarinnar um að minnsta kosti 1% afgang á afkomu náist. Aðallega er gengið út frá því að raunvöxtur útgjaldahliðarinnar verði ekki umfram vöxt landsframleiðslu fram til ársins 2021 heldur verði hlutfall frumgjalda án óreglulegra liða nær óbreytt yfir tímabilið. Sé stefnumiðunum fylgt eftir er unnt að auka talsvert svigrúm fyrir áherslumál á málasviðum ráðuneytanna. Nánari útfærsla og sundurliðun til einstakra málaflokka og til stofnana birtist síðan í fjárlagafrumvarpi hvers árs og í fylgiriti.

En helstu atriðin eru þessi: Gert er ráð fyrir nálægt 14 milljarða svigrúmi fyrir árið 2017 sem dreift hefur verið niður á einstök málefnasvið. Hér erum við sem sagt að tala um viðbótarsvigrúm á útgjaldahliðinni í frumgjöldum borið saman við árið 2016. Við skiptingu svigrúmsins var annars vegar horft til sérstakra áherslumála ráðuneyta en hins vegar til veltu málefnasviða með þeim hætti að heilbrigðis-, mennta- og löggæslumál fá meiri forgang.

Þessu til viðbótar er á árunum 2018–2021 gert ráð fyrir frekara árlegu útgjaldasvigrúmi sem einnig skiptist niður á einstök málefnasvið ráðuneyta út frá veltu og forgangi en þar er um að ræða um það bil 7 milljarða kr. á ári. Það viðbótarsvigrúm sem með þessu fæst ásamt öðrum vexti í helstu útgjaldaþáttum gerir okkur kleift að hafa hóflegan raunvöxt innan málefnasviðanna á tímabilinu.

Samanlagt nemur uppsafnað útgjaldasvigrúm til nýrra og aukinna verkefna 42 milljörðum á tímabilinu. Þarna erum við að ræða um 42 milljarða á verðlagi ársins í ár. Þar af er reiknað með að ráðstafa um 45% af svigrúminu í ný og aukin framlög til heilbrigðismála og um 20% til mennta- og menningarmála.

Af öðrum málum má geta þess að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verða hækkaðar og rekstrargrunnur framhaldsskóla styrktur, ásamt því að barnabætur og vaxtabætur, sem og frítekjumörk í kerfinu, hækka ár frá ári.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði aukin verulega að raungildi á næstu árum eða sem nemur ríflega 30 milljörðum uppsafnað árið 2021 og verði þar með orðin ríflega 200 milljarðar kr. Það svarar til þess að framlögin verði aukin um 18% að raunvirði yfir tímabilið. Sú aukning er fyrir utan allar launahækkanir. Við erum bara að tala um rekstrarliðina, við erum ekki með laun inni í þessum tölum, svo sem til lækna og hjúkrunarfræðinga. Það bætist þá við á tímabilinu auk annarra verðlagsbreytinga. Í því samhengi er rétt að geta þess að stærstur hluti heilbrigðisútgjalda felst í launakostnaði stofnana og samningum um kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu sem byggir að stærstum hluta á launaútgjöldum. Þetta er veruleg aukning og gerir okkur kleift á næstu missirum að auka mikið gæði og öryggi þjónustunnar, bæta aðstöðu starfsfólks og tryggja jafnt aðgengi sjúklinga að þjónustu um allt land. Þetta eru verkefnin fram undan í heilbrigðismálum.

Virðulegi forseti. Fjármálaáætlunin felur jafnframt í sér að mögulegt verði að ráðast í ýmis fjárfestingarverkefni sem hafa verið til skoðunar eða í undirbúningi undanfarin ár en ekki hefur verið talið unnt að fjármagna og ljúka sökum hallareksturs og mikillar vaxtabyrði ríkissjóðs í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Nú hefur tekist að skjóta styrkari stoðum undir ríkisfjármálin og þjóðarbúskapinn og þannig er unnt að fjármagna framkvæmdirnar með verulega auknum reglubundnum tekjum ríkissjóðs. Ekki er gert ráð fyrir að óreglulegum tímabundnum tekjum ríkissjóðs verði varið til þessara verkefna.

Ég nefni hér nokkur þeirra helstu: Byggingarframkvæmdir við fyrsta verkáfanga nýs Landspítala, einkum meðferðarkjarnann sem er hjartað í spítalanum og er nú verið að hanna, og rannsóknarhús. Þetta verði boðið út strax og hönnun er lokið og framkvæmdirnar fari síðan á fullan skrið í kjölfarið. Stóraukin framlög til uppbyggingar á innviðum á ferðamannastöðum eru annað dæmi. Kaup á nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna; við þekkjum það af fjárlögum undanfarinna ára að við verjum háum fjárhæðum til að leigja þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna. Hér er gengið út frá því að keyptar verði tvær þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna eins og lengi hefur staðið til. Smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju rúmast innan þessarar áætlunar til næstu fimm ára. Það verkefni er fullfjármagnað samkvæmt áætluninni. Sömuleiðis framkvæmdir við Dýrafjarðargöng sem hafa verið talsvert til umræðu að undanförnu en í sjálfu sér eru Dýrafjarðargöngin nefnd annars staðar, nefnilega í samgönguáætlun. Uppbygging á Þingvöllum, bygging nýrra hjúkrunarheimila, bygging Húss íslenskra fræða sem hefur tafist eru dæmi um slíkar fjárfestingar sem við horfum til hér.

Viðfangsefnið fram undan er að ráðast í þessi og önnur mikilvæg verkefni af skynsemi og yfirvegun. Þær jákvæðu efnahagshorfur sem við blasa á næstu árum eru samt sem áður ekki alveg í hendi, og sér í lagi ekki ef við gætum ekki hófs. Það er sígandi lukka sem mun reynast best við þær aðstæður sem nú eru uppi. Það þarf að gæta að því að fjármálaáætlunin styðji við önnur hagstjórnarúrræði, eins og peningastefnuna, til að draga úr hættu á ofhitnun og óstöðugleika í hagkerfinu.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið nokkra lykilþætti áætlunarinnar og fjármálastefnunnar. Mér þætti mikilvægt fyrir framhaldið að hér tækist að skapa hefð fyrir umræðu um stefnuna sérstaklega vegna þess að hún er slíkt kjarnaatriði og bara aðeins til upprifjunar: Fjármálastefnan mun ávallt koma fram að afstöðnum kosningum og hún á þá að vera leiðarljós fyrir viðkomandi ríkisstjórn næstu árin á meðan fjármálaáætlunin verður uppfærð á hverju ári.

Ég vænti þess hér að fram komi ýmis sjónarmið um að gera eigi hlutina svona en ekki hinsegin, að menn gagnrýni á einstökum málasviðum að ekki sé tryggt nægilegt fjármagn. Best væri fyrir málefnalega umræðu um grundvallarmál eins og þessi að þá kæmi um leið fram með hvaða hætti menn hygðust gera nauðsynlegar breytingar til að ná slíkum markmiðum. Í mínum huga er þetta þannig að við erum í þessari áætlun með lágmarksaðhald hins opinbera miðað við aðstæður í hagkerfinu, við erum þó að miða við 1% heildarafgang allt áætlunartímabilið. Það held ég að sé fullnægjandi en ekki er hægt að ganga mikið á afganginn til þess að mæta nýjum verkefnum. Við erum sömuleiðis að horfa á það að á fimm árum ætlum við að leyfa frumgjöldunum að vaxa um 10%. Það er ágætt að velta því aðeins fyrir sér. Ég held að það verði ekki mörg tímabil næstu áratugina þar sem við getum leyft frumgjöldunum að vaxa um heil 10% þannig að þeir sem munu taka þátt í þessari umræðu að gagnrýna að frumgjöldin vaxi ekki enn meira þurfa þá að gera grein fyrir því hvernig það ætti að vera hægt að gera til langs tíma án þess að stórauka framleiðnina á Íslandi og gera aðrar grundvallarbreytingar. Ég held að það væri gott fyrir umræðuna í heild sinni, ef menn vilja fara þá leiðina að segja að á útgjaldahliðinni sé ekki nægjanlegur vöxtur, að við tökum þá bara þá umræðu hvort það eigi að gerast þannig að menn gangi á afkomuna eða hvort menn muni leggja áherslu á að nota eignasölu til að standa undir rekstri eða hvernig annars menn ætla að fjármagna þetta. Þegar upp verður staðið tel ég að verkefnið sem við réðumst í, með því að vinna að lögum um opinber fjármál, standi og falli með því hvaða hefðir og venjur myndast hér á Alþingi í umræðum um þessi mál til lengri tíma, að við föllum ekki beint inn í eins konar fjárlagaumræðu þegar við erum að ræða þetta heldur náum að beina sjónum okkar að því hvernig breiðu línurnar líta út; og svo geta menn tekist á um það hvort eigi að vera meiri eða minni heildarafgangur, meira eða minna gert af því að greiða upp skuldir, hvort rétt sé skipt á milli málefnasviðanna. Þetta er það sem umræðan ætti að snúast um.

Sú áætlun sem við teflum hér fram er hugsuð til þess að ná góðu jafnvægi á milli þessara þátta, að skila góðri afkomu sem er mikilvægt miðað við aðstæður, að greiða upp skuldir sem er mikilvægt, ekki bara vegna fjármálareglunnar heldur vegna þess að við höfum blætt allt of miklu í vaxtagjöld í of langan tíma. Við höfum þörf fyrir að koma skuldunum niður áður en næst kreppir að í hagkerfinu en á sama tíma (Forseti hringir.) að skapa svigrúm fyrir aukin útgjöld til mikilvægra málefnasviða. Þetta góða jafnvægi tel ég að sé til staðar og legg þetta hér fram, virðulegi forseti, um leið og ég legg til að málunum verði vísað til hv. fjárlaganefndar að lokinni þessari umræðu.