145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[14:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina og ræðuna. Ég fagna því sannarlega að stefnan og áætlunin sé komin til þingsins en gagnrýni um leið að hún kemur allt of seint, eða mánuði of seint miðað við lög um opinber fjármál.

Við í fjárlaganefnd og fleiri nefndir eigum auðvitað eftir að fara yfir stefnuna og áætlunina og spyrja spurninga. En ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það sem fram kemur í fjármálaáætluninni um heilbrigðismál. Nú hafa tæplega 90.000 manns krafist þess með undirskrift sinni að auknum fjármunum verði varið til heilbrigðisþjónustu.

Fram kemur í áætluninni að gert sé ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði orðin ríflega 30 milljörðum kr. hærri árið 2021.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Eru bæði rekstur og stofnkostnaður inni í þessum 30 milljörðum kr.? Ég get ekki fundið það við lestur áætlunarinnar. Er Landspítalinn þar inni? En nýbyggingin, lagfæringar á Sjúkrahúsinu á Akureyri og hjúkrunarheimilin?

Ef svo er telur hæstv. ráðherra að áætlunin nái því markmiði að auka þjónustuþörf vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar og þeirri kröfu að heilbrigðisþjónusta verði bætt um allt land?

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er gert ráð fyrir því í þessari fimm ára áætlun að minnka hlut sjúklinga í heildarkostnaði við heilbrigðisþjónustuna? Við þekkjum frumvarpið sem breytir dreifingunni á sjúklingana þannig að greiðsluþátttaka þeirra sem eru langveikir lækkar.

Ég spyr: Er það kostnaðarþátttaka sjúklinga í heild? Verður hún (Forseti hringir.) minnkuð á þessu fimm ára tímabili samkvæmt áætluninni?