145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[15:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel ótvírætt að þarna sé verið að vísa til þess sem við höfum verið að vinna að á undanförnum áratugum, að þeir sem eru úti á vinnumarkaðnum nái yfir starfsævina að byggja sér upp það myndarleg lífeyrisréttindi að það muni síður reyna á almannatryggingakerfið þegar á lífeyristökualdur er komið.

En einn vandi kerfisins sem við búum við í dag er einmitt hversu misjafnlega þetta lítur út fyrir einstaka aldurshópa. Við erum með kynslóðir sem þurfa í dag og þó nokkuð mörg ár inn í framtíðina mjög að treysta á almannatryggingakerfið til framfærslu. En á sama tíma hafa réttindin verið að breytast þannig fyrir ungu kynslóðina í landinu að engin ástæða er til að ætla að fólk sem mun leggja til hliðar alla starfsævina muni þurfa á að halda réttindum á borð við þau sem eru í almannatryggingakerfinu þegar kemur á efri ár, ekki nema menn fari út í einhverjar hugmyndir eins og borgaralaun eða annað þess háttar, að greiða fólki algjörlega óháð þörfinni fyrir framfærslustuðning.

Augljóslega á þetta við með allt öðrum hætti hjá öryrkjum og þeim sem hafa tapað starfsorkunni og möguleikanum á að ná sér í sjálfsaflafé. Það er allt annað mál.

Kerfin okkar eiga að vera þannig byggð upp að mínu áliti að við leggjum allt kapp á að styðja þá myndarlega sem raunverulega þurfa á stuðningi að halda. Það sé á sama tíma hvati fyrir alla til að bjarga sér sem það geta og að fyrirhyggja sé byggð inn í kerfin þannig að fólki sé gert skylt með hvötum og lagakvöð, þar sem það á við, að leggja til hliðar fyrir góðum efri árum. Alveg eins og lífeyrissjóðakerfið gerir ráð fyrir.