145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[15:05]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með þessa fjármálaáætlun. Mér finnst mjög gott að við séum komin á þann stað að vera farin að horfa fram í tímann. Mér finnst þetta í grunninn gott plagg þótt ég sé ekki sammála pólitíkinni í áætluninni. Ég hefði samt gjarnan viljað hafa „index“ fremst. Mér finnst alltaf mega aðeins hugsa betur um að vera ekki að endurtaka sig. Ef hægt er að hafa eitthvað á 150 blaðsíðum sem nú eru 200 blaðsíður er vel þess virði að fara í gegnum skjalið, stytta það og gera aðgengilegt fyrir sem flesta.

Mig langar aðeins að fara út í fjárfestingu sem vex kannski ekki mikið en þó eru mikilvæg verkefni þarna eins og ráðherra nefnir, Landspítalinn, nýr Herjólfur og ýmislegt fleira. Eftir allt sem á undan er gengið er gríðarleg þörf fyrir meiri uppbyggingu innviða, sérstaklega í samgöngukerfinu. Við erum enn með einbreiðar brýr og víða á þjóðveginum þarf að breikka hann og þar fram eftir götunum. Það vantar peninga í þetta en á sama tíma erum við hálfpartinn í þensluumhverfi þannig að þetta er áskorun.

Ég velti fyrir mér hvort ráðherra sé sammála mér um að það væri gott að setja meiri peninga í fjárfestingar. Ástæðan fyrir því að það er ekki gert er kannski að einhverju leyti sú að halda aftur af þenslu. Samt er þessi ríkisstjórn alltaf til í að fara í skattalækkanir. Ein leið til að halda aftur af þenslu er að fara ekki í skattalækkanir, fara jafnvel frekar í skattahækkanir.

Er ekki ástæða til þess á þessum tímum þegar við viljum hafa gott heilbrigðiskerfi, innviðina í lagi, ætlum að fara að byggja landspítala og þurfum líka að fara í framkvæmdir á Akureyri, fjórðungssjúkrahúsinu þar, og þurfum að fara í framkvæmdir á vegum og samgöngukerfinu, að horfa frekar í skatttekjur, draga úr þenslunni í gegnum einkaneysluna og fara ekki í skattalækkanir, t.d. eins og að fara í þessi tvö skattþrep? Þótt búið sé að ákveða það finnst mér það ekki endilega góð hugmynd. Er ekki nær að láta þá sem eru í efri millitekjum og (Forseti hringir.) þá sem hafa verulega mikið á milli handanna leggja sitt af mörkum og draga úr einkaneyslu á sama tíma?