145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[15:09]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla í seinna andsvari aðeins að ræða um sveitarfélögin. Eins og ég les út úr tölunum virðist rekstur þeirra og skuldastaða vera í járnum eiginlega meira og minna næstu árin þó að það rofi eitthvað til undir lok tímabilsins. Það hefur verið talað um tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að hluti tilfærslna frá ríkinu til sveitarfélaga sé hvergi jafn lítill í OECD-ríkjunum og hér á landi.

Sveitarfélögin hafa t.d. kallað eftir að fá tekjur af fjármagnstekjuskatti, þ.e. að þeir sem greiða fjármagnstekjuskatt greiði ekki útsvar. Eins að sveitarfélögin greiði ekki fjármagnstekjuskatt til ríkisins eða jafnvel ekki virðisaukaskatt og það eru ýmsar fleiri kröfur og auðvitað að fjármunir fylgi verkefnunum. Mig langar því að spyrja: Er eitthvað í gangi hjá þessari ríkisstjórn um að horfa í einhverjar breytingar á þessari tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga? Ég finn það ekki í áætluninni. Ég get að sumu leyti tekið undir (Forseti hringir.) kröfur sveitarfélaga hvað þetta varðar. Nú er ríkið að rétta úr kútnum en sveitarfélögin virðast enn þá samanlagt í vandræðum.