145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[15:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef gert það að eins konar meginstefi í öllu sem ég hef beitt mér fyrir í fjármálum ríkisins að reyna að byggja undir frekari stöðugleika. Á meðan ríkið er með of miklar skuldir og háan vaxtakostnað er ekki staða hjá ríkissjóði til að láta sveitarfélögunum eftir mjög mikið af tekjustofnum sínum.

Þegar skuldahlutföllin eru komin niður fyrir þau mörk sem við höfum sett okkur til lengri tíma og sé staðan þannig hjá sveitarfélögunum að þau eigi erfitt með að bæta afkomu sína og halda áfram skuldaniðurgreiðslu, en mörg þeirra eru mjög skuldsett, finnst mér sjálfsagt að við veltum fyrir okkur hvernig sé sanngjarnt að fara inn í frekari framtíð vegna þess að ég hef aldrei litið þannig á að ríki og sveitarfélög séu í rekstri í einhverju sérstöku hagnaðarskyni.

Við erum bara að halda úti opinberri þjónustu til að bæta lífskjörin í landinu. Ef niðurstaðan er að það sé eitthvað (Forseti hringir.) ójafnt skipt milli ríkis og sveitarfélaga á það að vera til skoðunar og það verður stanslaust til skoðunar á grundvelli þessara laga og er síðan grundvöllur að samkomulagi sem gert er á hverju ári.