145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[15:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Samkvæmt lögum um opinber fjármál á að leggja fjármálaáætlun til fimm ára fram 1. apríl ár hvert. Við ræðum nú fyrstu fjármálaáætlun sem unnin er samkvæmt lögum um opinber fjármál og fjármálastefnuna eins og fram hefur komið. Hún kemur mánuði of seint.

Ef markmið laganna um opinber fjármál eiga að nást þarf að fara eftir lögunum. Hugmyndin um fjármálastefnu og fjármálaáætlun og með þeim gildum sem tiltekin eru með lögum að eigi að ganga í gegnum hvort tveggja er góð en gagnast ekki ef stjórnvöld fara ekki eftir lögunum. Ég gagnrýni því harðlega að fjármálastefnan og -áætlunin hafi ekki komið til þingsins á réttum tíma. Sá dráttur skerðir það svigrúm sem þingnefndir hafa til að vinna með áætlunina og gera við hana athugasemdir.

Samkvæmt 13. gr. laga um opinber fjármál á fjármála- og efnahagsráðherra að skipa fjármálaráð. Hlutverk fjármálaráðsins er að leggja mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi þeim grunngildum sem talin eru upp í 2. mgr. 6. gr. laganna og skilyrðum 7. gr. um fjármálareglurnar. Álitsgerðir fjármálaráðs skal birta opinberlega. Eigi síðar en tveimur vikum eftir að tillaga til þingsályktunar um fjármálastefnu eða fjármálaáætlun hefur verið lögð fram á Alþingi, eða tillaga til þingsályktunar um breytingar á gildandi áætlun, skal fjármálaráð senda Alþingi umsögn sína um hana.

Herra forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er ekki enn búinn að skipa fjármálaráð sem ætti að skila umsögn sinni eigi síðar en 13. maí. Bæði drátturinn á framlagningu fjármálastefnunnar og fjármálaáætlunarinnar og það að hæstv. ráðherra hefur ekki enn skipað fjármálaráð veldur mér miklum vonbrigðum og virðist benda til þess að lítil virðing sé borin fyrir lögum um opinber fjármál og markmiðum þeirra.

Í fjármálastefnunni kemur fram að efnahagsleg framvinda og horfur bendi til þess að hin hefðbundna íslenska eftirspurnarþensla með vexti þjóðarútgjalda umfram framleiðslu sé enn og aftur hafin eða í aðsigi. Við þær aðstæður sé ekki nægilegt að draga úr eftirspurnaráhrifum fjárfestinga ríkis og sveitarfélaga, ekki síður sé mikilvægt að tryggja að fyrirtæki í eigu hins opinbera auki ekki á vandann með fjárfestingum sem geti beðið og æskilegt að ráðist sé frekar í þegar um hægir. Þar er meðal annars átt við orkuöflun og framkvæmdir í samgöngum. Vísbendingar eru um að hagkerfið geti ofhitnað og verðbólga farið af stað ef ekki sé gætt aðhalds í opinberum rekstri.

Þó að hagspár séu hagfelldar er það mikilvægt nú eins og við aðrar aðstæður að stefna opinberra fjármála og peningamálastefna Seðlabankans sé í takti og dragi vagninn í sömu átt en togist ekki á eins og gerðist fyrir efnahagshrunið. Þá væri voðinn vís fyrir kjör fólks og fyrirtækja í landinu. Í fjármálaáætluninni er þetta ítrekað og bent réttilega á að með beitingu fjármála hins opinbera megi draga úr hagsveiflum og þar með stuðla að stöðugleika sem er eitt meginmarkmið nýrra laga um opinber fjármál. Í kaflanum um efnahagsástæður ríkisfjármálaáætlunarinnar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Í samræmi við grunngildi nýrra laga um opinber fjármál ætti farsæl stjórn opinberra fjármála að miða að því að þau verði hagsveiflujafnandi en ekki hagsveiflumagnandi.“

Undir þetta tek ég heils hugar. Það sem ég gagnrýni hins vegar er hvernig ríkisstjórnin vill með áætlun sinni nýta sveiflujöfnunarmöguleika ríkisfjármála og hverjir það eru í samfélaginu sem eiga að taka það á sig að bera stöðugleikann uppi.

Herra forseti. Skattstefna ætti að taka mið af stöðu hagsveiflunnar hverju sinni. Allt kapp ætti að leggja á að búa í haginn þannig að þjóðarbúið sé vel í stakk búið til að taka á sig næstu niðursveiflu. Þess vegna ætti ekki að lækka skatta og gjöld í uppsveiflunni eins og gert hefur verið og það er algerlega óásættanlegt að þeir sem síst þurfa á að halda fái mestan ábata af bættum hag ríkissjóðs. Með gjalda- og skattstefnu þeirri sem keyrt hefur verið eftir á kjörtímabilinu er hreint ekki farið eftir þeim áherslum sem hamrað er á bæði í fjármálastefnunni og fjármálaáætluninni. Lækkun veiðigjalda um milljarða, afnám auðlegðarskatts um annað eins og lækkun tekjuskatts einstaklinga með fækkun þrepa úr þremur í tvö eru allt aðgerðir sem gagnast þeim efnameiri í samfélaginu. Fyrir vikið verða skatttekjur ríkissjóðs lægri en ella hefði orðið. Það hefur áhrif á tekjuþróunina sem gengið er út frá í fjármálaáætlun fyrir hið opinbera á árunum 2017–2021.

Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir auka peningamagn í umferð og valda því að hagsveiflan verður meiri ef ekkert er að gert. Aðgerðir sem hæstv. ríkisstjórnin grípur til, til að minnka áhrif þess að ríkið greiði lægri gjöld og skatta, bitna á þjónustu hins opinbera við þá sem þurfa á henni að halda. Aðgerðirnar bitna á þjónustu í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og almannatryggingum. Þjónustan verður því ekki bætt eins og brýn þörf er á. Fjárfestingar í samgöngum verða einnig minni en þörf er á. Þetta er lykilatriði í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar, sköttum og gjöldum á þá efnameiri er haldið lágum og fyrir vikið er velferðarþjónustan ekki bætt svo hún dugi til að standa undir nafni. Bættur hagur ríkissjóðs skilar sér ekki til almennings í sama mæli og til þeirra efnameiri því að óréttlæti á samkvæmt áætlun hæstv. ríkisstjórnar að viðhalda næstu fimm árin, nái hún fram að ganga.

Um barnabætur segir meðal annars í fjármálaáætlun, með leyfi forseta:

„Í samræmi við markmið um einföldun skattkerfisins er stefnt að því að endurskoða barnabótakerfið til einföldunar og meiri skilvirkni.

Að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra vann Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) úttekt á tekjuskattlagningu einstaklinga og á barna- og vaxtabótakerfunum með frekari úrbætur í huga. Niðurstaða sérfræðinga sjóðsins var sú að veruleg þörf væri á endurskoðun þeirra í átt til einföldunar, auk þess að beina þessum bótum í auknum mæli til lágtekjuheimila. Því markmiði megi meðal annars ná með því að skerðingarhlutfall barnabóta verði eitt og hækki töluvert frá því sem nú er. Einnig er lagt til einungis verði greidd ein föst fjárhæð barnabóta fyrir hvert barn undir 18 ára aldri, óháð fjölskyldugerð og aldrei með fleiri börnum en þremur.“

Á öðrum stað segir um barnabætur, með leyfi forseta:

„Jafnframt þarf að sníða af ýmsa agnúa sem hafa óæskileg áhrif í kerfinu. Þetta verður til að mynda gert með því að sporna við því að foreldrar barns skrái sig ekki í sambúð til að öðlast rétt til hærri barnabóta sem einstætt foreldri. Þá þarf að breyta því fyrirkomulagi að barnabætur ná í einhverjum tilvikum of langt upp tekjuskalann sem vinnur gegn því meginmarkmiði að vera eingöngu stuðningur við tekjulægstu fjölskyldurnar.“

Þar höfum við það. Meginmarkmiðið með barnabótum er að þær verði eingöngu stuðningur við tekjulægstu fjölskyldurnar í landinu. Þetta er stefna hæstv. ríkisstjórnar sem birtist í fimm ára áætluninni. Mér finnst þetta ekki ásættanlegt markmið og langt frá þeim markmiðum sem hinar Norðurlandaþjóðirnar setja sér. Annars staðar á Norðurlöndum munar ungar barnafjölskyldur um barnabæturnar. Þær eru þar til þess að jafna stöðu barnafólks við stöðu hinna sem ekki eru með börn á framfæri. Leita ætti frekar í smiðju norræna velferðarkerfisins en til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við útfærslu á stuðningi við barnafjölskyldur hér á landi.

Herra forseti. Margar ágætar setningar eru í fjármálastefnunni og fjármálaáætluninni sem hægt er að taka undir. Gallinn er bara sá að það er fátt í aðgerðaáætlunum sem er í takti við þær. Í upptalningu á ýmsum viðmiðum við mótun fjármálaáætlunar kemur meðal annars fram að brýnt sé að þegar tekjuhlið ríkissjóðs er tekin að styrkjast á hagvaxtarskeiði við hagfelldar aðstæður í útflutningsgeiranum, svo sem í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, verði þess gætt að treysta fjárhagsstöðu ríkissjóðs og búa í haginn til þess að gera betur kleift að mæta óhagfelldari kringumstæðum þar sem vera má að fyrr eða síðar komi að því að dragi úr hagvexti eða jafnvel að samdráttur verði eins og sagan sýnir. Undir þetta getum við væntanlega öll tekið.

En hvað hefur verið gert svo sem í ferðaþjónustunni í þessa veru? Ljóst er að vegna fjölgunar ferðamanna hefur álag aukist gríðarlega á vegi landsins, löggæslu, heilsugæslu og sjúkraflutninga án þess að því hafi verið mætt með auknum fjárframlögum sem duga. Í fjármálaáætluninni er aðeins gert ráð fyrir því að gistináttagjald hækki úr 100 kr. í 300 kr. Það munar ekki mikið um það til að mæta álaginu af fjölgun ferðamanna. Raunar er úrræðaleysi stjórnvalda ótrúlegt þegar kemur að þessari stóru og sístækkandi atvinnugrein sem ferðaþjónustan er hér á landi. Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Í fjármálaáætluninni er tiltekið að ferðamönnum hafi fjölgað um 30% á milli áranna 2014 og 2015 og að Isavia spái því að fjölgunin verði allt að 37% á þessu ári. Þessi mikla fjölgun gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Hættan sé sú að yfirskot verði í fjárfestingum í greininni með tilheyrandi vandamálum sem slíku fylgja. Miklar framkvæmdir hafa verið undanfarið í greininni og ekki síður fyrirætlanir um miklar framkvæmdir fram undan.

Í fjármálaáætluninni segir um ferðaþjónustuna meðal annars, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að ná jafnvægi í efnahagslegum áhrifum greinarinnar en ekki þarf síður að huga að því að stýra fjölda ferðamanna á svæðum þar sem ágangurinn er kominn að þolmörkum.“

Og hvað ætla stjórnvöld að gera í þessu? Jú, þau ætla að hækka gistináttagjaldið úr 100 kr. í 300 kr. og það mun ekki hafa mikil áhrif til að skapa jafnvægi í efnahagslegum áhrifum greinarinnar.

Í fjármálaáætluninni er talað um að endurskoðun á sköttum og gjöldum í ferðaþjónustunni geti verið sveiflujafnandi aðgerð og aðgerð til að jafna samkeppnisstöðu atvinnugreina innan lands. Ég tek undir það. Í því sambandi liggur beint við að ferðamenn greiði virðisaukaskatt af gistingu og afþreyingu í almennu þrepi en ekki lægra þrepi eins og nú. Hvers vegna ættu ferðamenn að fá undanþágur frá almennu virðisaukaskattsþrepi þegar litið er til þeirrar stöðu sem ferðaþjónustan hefur sem atvinnugrein hér á landi? Ákvörðun um 24% virðisaukaskatt á gistingu og afþreyingu fyrir ferðamenn mundi gera það sem rætt er um í fjármálaáætluninni að nauðsynlegt sé að gera, bæði að jafna samkeppnisstöðu atvinnugreina innan lands og skapa jafnvægi í efnahagslegum áhrifum greinarinnar.

Fram kemur einnig í áætluninni að markaðssetning Íslands utan sumartíma hafi gengið vonum framar og fjölgun ferðamanna hafi verið mest á þeim tímum. Nýting gistirýma hafi verið mjög mikil og aukist yfir vetrarmánuðina í takt við fjölgun ferðamanna. Þannig er nýting hótela á höfuðborgarsvæðinu með því mesta í Evrópu. Aukinni eftirspurn hafi verið mætt með auknu framboði í stað þess að verð sé hækkað.

Ef stjórnvöld taka ekki í taumana og stýra þróun ferðaþjónustunnar mun því miður illa fara. Mesta hættan er sú að fjárfestingar nýtist ekki og kostnaður vegna uppbyggingar greinarinnar lendi á almenningi ef illa fer. Vegir sem molna undan álagi og ekki er viðhaldið og álag á lögreglu og heilbrigðisstarfsmenn mun síðan bitna á íbúum þessa lands. Aðgerðaleysi og fyrirhyggjuleysi stjórnvalda getur hreinlega verið hættulegt heilsu manna hvað þetta varðar.

Herra forseti. Í fimm ára áætluninni er mikið um fögur orð. En þau verða innantóm þegar horft er á áætlanir því að þar er ekki að finna miklar eða góðar og raunhæfar lausnir sem eru í takt við þessi fögru orð.

Herra forseti. Við í fjárlaganefnd munum nú fá tækifæri til að vinna með áætlunina, spyrja spurninga og leggja til breytingar. Alþingi á samkvæmt lögum að fá umsögn fjármálaráðs 13. maí næstkomandi til þess að nota í umræðunni um stefnuna og áætlunina en ég get ekki séð að við fáum hana í hendur, enda hefur hæstv. ráðherra ekki skipað ráðið. Mér er kunnugt um að stjórnarandstaðan sé búin að tilnefna sína fulltrúa en það stendur á ríkisstjórnarflokkunum að standa við lög, nýsamþykkt lög, sem mikil sátt var um, um opinber fjármál.