145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[15:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, við höfum of lengi búið við skattstefnu hægri flokka hér á landi. Það sem gerðist fyrir hrun varð til þess að við fórum ekki á góðum stað inn í kreppuna. Fyrir hrun voru hér miklar opinberar fjárfestingar og skattar voru lækkaðir. Það hafði áhrif á þensluna í samfélaginu og á verðbólguna. Í þessum fasa fórum við inn í hrunið.

Auðvitað var ekki möguleiki á að lækka skatta þegar fjárlagagatið var upp á 216 milljarða kr. Það dettur varla nokkrum manni í hug. Það þurfti að finna þunna línu með að hækka skatta, skera niður þjónustu og passa að byrðarnar af hruninu lentu ekki á þeim sem helst þyrftu á þjónustu ríkisins að halda.

Núna erum við í uppsveiflu. Þá nýtir þessi ríkisstjórn tækifærið til að lækka veiðigjöld, afnema auðlegðarskatt og taka þrepin sem ætluð eru til að jafna stöðu fólks út úr tekjuskattskerfinu. Það allt saman hefur vitaskuld áhrif á tekjur ríkissjóðs og þá opinberu þjónustu sem þeir fá sem þurfa á henni að halda. Við erum að tala um greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustunni, fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum, greiðslur til þeirra sem aðeins lifa á greiðslum frá Tryggingastofnun o.s.frv.

Varðandi þrepin er það þannig að þeir sem eru með 450 þús. kr. á árinu 2017 fá 3 þús. kr. í afslátt. Það fá líka þeir sem eru með 800 þús. kr. eða meira, (Forseti hringir.) þeir fá líka 3 þús. kr. í afslátt. Þeir sem eru með 700 þús. kr. fá að vísu 12 þús. kr.