145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[15:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem gerðist hér á árunum fyrir fall bankakerfisins er mikilvægt að muna að við vanmátum hagvöxtinn á árunum 2005 og 2006. Hefðum við haft upplýsingar um hversu mikill hagvöxtur var þá held ég að menn hefðu gripið til aðgerða til að slá á þensluna eins og hefði verið betra að gera akkúrat þá.

Mér finnst hér talað eins og það vanti peninga í ríkissjóð, það vanti skatttekjur til að standa undir einhverjum verkefnum. Staðreyndin er samt sú að við erum með hátt á annað hundrað milljarða í afgang á næstu fimm árum. Það vantar ekki tekjur í ríkissjóð til að standa undir nýjum útgjöldum. Menn þurfa bara að ákveða hver útgjöldin eigi að vera. Sú stefna að tala fyrir hærri sköttum á fólk er væntanlega eingöngu hugsuð til þess að ná einhverjum öðrum markmiðum en tekjum í ríkissjóð. Það vantar ekki viðbótartekjur inn í þessa áætlun til að standa undir markmiðum um að veita aðhald, um að greiða niður skuldir. Það hefur lengi legið fyrir að langheppilegasta leiðin fyrir okkur til að ná frekari árangri í niðurgreiðslu skulda væri sala eigna eins og menn hafa reyndar ávallt talað fyrir, þvert á flokka.

Á engu tímabili hefur meira verið tekið í veiðigjöld en síðustu þrjú árin. Við tökum tugi milljarða í veiðigjöld um þessar mundir. Það er í sjálfu sér ekki vandamál þessarar áætlunar, það er bara allt önnur pólitík. Það er spurningin um hversu langt eigi að ganga að taka hluta af framlegð útgerðarinnar til ríkisins og í sameiginlega sjóði. Mér finnst það ekki í sjálfu sér atriði sem hefur áhrif á þau markmið sem við erum að ræða hér varðandi fjármálastefnuna og fjármálaáætlunina.

Upp úr stendur að ef menn tala fyrir hærri sköttum (Forseti hringir.) verða menn að svara því til hvaða markmiða sé verið að vísa. Er það til að hækka útgjaldastigið sem þó hækkar um 10%? Eða er það eitthvað allt annað? Og menn eiga þá bara að segja það.