145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[15:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú er ég svo aldeilis hissa. Mér finnst hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra tala eins og hann hafi ekki skrifað sína eigin fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Auðvitað þurfum við að horfa á hvaða krónur eru í umferð í hagkerfinu. Ef við erum búin að lækka skatta og gjöld hjá þeim sem hafa mikið handa á milli hefur það áhrif á peningamagn í umferð. Það þarf að gera eitthvað annað annars staðar til að hér fari verðbólga ekki af stað. Það er nákvæmlega það sem stendur í efnahagsstefnunni og fjármálaáætluninni sem við erum að ræða.

Við jafnaðarmenn viljum réttlátt tekjuskattskerfi sem er þrepaskipt þannig að þeir ríku beri líka sinn sanngjarna hlut í skattinum og því fé sem fer í ríkissjóð. (Gripið fram í: Það er mestur jöfnuður á Íslandi.) — Hér er kallað fram í að mestur jöfnuður sé á Íslandi. Enn og aftur er vitnað í stöðuna á árinu 2013 sem er náttúrlega (Gripið fram í.) árangur síðustu ríkisstjórnar. Það er gott að hv. þingmenn telja mikilvægt að auka hér jöfnuð og finnst í lagi að monta sig af honum. Það er bara gott, en við skulum spyrja að leikslokum þegar þetta kjörtímabil verður metið. Við viljum að þrepin séu mörg og að þjónustan við þá sem þurfa á henni að halda sé góð. Við viljum ekki skera niður í heilbrigðiskerfinu. Við viljum ekki að sjúklingar beri sérstakan skatt til viðbótar þeim skatti sem þeir greiða í gegnum tekjuskattskerfið. Og við viljum ekki fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum. Hér þarf að bæta vegi, löggæslu, sjúkraflutninga og heilsugæslu úti um allt land. Ef við ætlum að gera það án þess að fara í einhverjar aðgerðir (Forseti hringir.) þar á móti veldur það auðvitað verðbólgu og spennu í samfélaginu.

Ég segi enn og aftur, herra forseti, að ég er mjög hissa á þeirri ræðu sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fór með áðan og er ekki í neinum tengslum við þá stefnu sem hann talar fyrir í þinginu. (Fjmrh.: Það er engin verðbólga í …)