145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[15:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er mjög gott að sátt náðist um að ræða hér tillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 og fjármálastefnu fyrir sömu ár því að málin eru það skyld. Þau eru byggð á lögum um opinber fjármál sem góðu heilli náðist að klára vinnu við á þessu kjörtímabili. Það mál var unnið í fjárlaganefnd og voru þar viðhöfð mjög fagleg vinnubrögð og án pólitíkur til þess að reyna að ná sem bestri sátt um þann ramma sem rekstur ríkisins er nú kominn í. Það var afar ánægjuleg vinna og vil ég þakka fjárlaganefnd fyrir mjög góð störf. Nú er afurð þessara laga að líta dagsins ljós í dag í þessari umræðu.

Vissulega eru smábyrjendahnökrar á málinu öllu. Til dæmis á eftir að skipa í fjármálaráð. Það verður gert nú á næstu dögum. Jafnframt koma þingsályktunartillögurnar örlítið of seint fram miðað við lögin. En við gerum nú ekki mikið mál úr því vegna þess að það reynir nú á það í fyrsta sinn.

Ég hefði viljað sjá tillögurnar fara í gegnum þingið án kosninga, eins og stefnt er að nú í haust, og láta reyna á þessa framkvæmd á heilum þingvetri með framlagningu fjárlaga sem yrðu svo að lögum fyrir áramót. Þau yrðu byggð á þessum þingsályktunartillögum, römmum og þessari framtíðarsýn. En það virðist ekki eiga að vera þannig. Ég hefði talið það mjög mikilvægt í ljósi þess að þetta er umfangsmikill lagabálkur sem þingsályktunartillögurnar byggja á, um opinber fjármál. En svona er það nú bara og ekkert við því að gera og allir gera sitt besta þannig að þetta verði sem best úr garði gert og að nái fram að ganga með þessum hætti.

Meginbreytingin er, eins og komið hefur fram í ræðum hér, að nú ræðum við málefnasvið og framtíðarsýn á þeim til næstu fimm ára, allt til ársins 2021, og byggir það á þeim grunni sem lög um opinber fjármál byggja á. Þá er hægt að hafa frekari yfirsýn og sjá þróun ýmissa útgjaldaflokka, sem er afar jákvætt. Jafnframt er hægt að finna í þessu skjali samanburð úr fjárlögunum 2016 og frá ríkisreikningum 2014–2015 þannig að ég tel að það sé mjög mikilvægt að það sé allt saman í einu plaggi. Það hefði náttúrlega verið ákjósanlegt að hafa heildartöflu sem fylgiskjal með þessum tillögum svo þróunin sjáist allt frá árinu 2014. Það má vel vera að fjárlaganefnd fari fram á að sett verði inn í nefndarálit því að málið fer til fjárlaganefndar.

Þetta er upphafsstaðan þegar þetta kemur hér fram í fyrsta sinn á grunni nýsamþykktra laga um opinber fjármál.

Því ber að fagna að hér er langtum betri heildarsýn yfir opinber fjármál í heild sinni því að nú á að gera ríkið upp sem samstæðu. Nú eru fjármál sveitarfélaga komin hér undir líka, sem er afar mikilvægt því að þegar alþjóðakreppan skall á og bankarnir féllu var ríkissjóður sem betur fer vel staddur og nánast skuldlaus á meðan sveitarfélögin voru meira í myrkri og rekin sjálfstætt. Enginn vissi svo sem hvernig staða þeirra var. Sveitarfélögin stóðu sig vel þarna fyrst á eftir en standa nú mörg hver mjög illa, því miður verð ég að segja, og eru sum hver mjög skuldsett. En nú er verið að koma þessu undir einn hatt og þá munu ríki og sveitarfélög vinna saman. Það er mjög mikilvægt í ljósi atburða því að við eigum að læra af því sem miður fer. Ég tel það mjög mikilvægt að sveitarfélögin komi nú með afgerandi hætti inn í þennan samstæðureikning.

Þegar við vorum að ræða frumvarpið um opinber fjármál í fjárlaganefnd á sínum tíma ræddum við mikið um að við þyrftum að sýna heildarskuldbindingar ríkisins. Ég og varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, töluðum mjög fyrir því að sýnt yrði hverjar lífeyrissjóðsskuldbindingar ríkissjóðs væru o.s.frv. Við gerðum mjög ítarlegt nefndarálit með fjárlögunum 2016 í þá veru þannig að allar skuldbindingar ríkisins, hvort sem það eru lífeyrissjóðsskuldbindingar, ríkisábyrgðarskuldbindingar eða aðrar skuldbindingar, yrðu gerðar sýnilegar í fjármálaáætlunum. Er það vel því að eins og fregnir herma eru ábyrgðir á lífeyrissjóðsskuldbindingum opinberra starfsmanna nú að verða og jafnvel komnar yfir 600 milljarða, sem er ígildi tæplega heilla fjárlaga. Þegar það er ljóst og sýnilegt tel ég að það hafi þau áhrif að fólk geri sér betur grein fyrir ríkisrekstrinum og hvað það þýðir að koma fram með óábyrg kosningaloforð, ekki síst að stuðla að eyðslu hjá ríkinu, og stuðla að yfirboðum eins og tíðkast svo oft í pólitíkinni, því miður. Þá er staðan klár og öllum ljós. Ég tel það mjög til bóta.

Á bls. 5 í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árið 2017–2021 kemur fram hvernig sviðunum er skipt niður og hvernig þau þróast til ársins 2021. Ég tel mjög jákvætt að frumgjöld innan ramma séu sýnd á raunvirði, raunaukning útgjalda, og jafnframt eru þau sýnd á verðlagi hvers árs. Þá er kominn mikilvægur samanburður sem snýr að raunaukningu og verðlagi hvers árs.

Í umræðunni vill það stundum týnast og verða óskýrt. Það hefur skapað miklar deilur milli þeirra sem fá fjármagn frá ríkinu gagnvart þeim sem fara með fjárveitingavaldið, 63 þingmönnum. En þarna er það svart á hvítu. Þarna er það sett upp í töflu á tvennan máta þannig að nú er búið að leysa þann ágreining sem oft og tíðum hefur verið uppi þegar deilt er um fjárveitingar til hinna og þessara málaflokka. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé sýnt með þessum hætti og fagna því mjög.

Í töflunni á bls. 5 er stefna ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Þegar sú tafla er skoðuð sést vel að stefnan er klár og hún heldur áfram að vera eins og hún hefur verið síðastliðin þrjú ár, þ.e. að forgangsraða til grunnþjónustunnar. Þá er um að ræða heilbrigðismál, málefni aldraðra og öryrkja, menntamál o.s.frv. Þeir flokkar sem ekki falla undir grunnþjónustuna eins og hún er skilgreind bera minna úr býtum. Það er mikið fagnaðarefni. Þess vegna er þessi framtíðarsýn svo mikilvæg til að sýna fram hver stefna ríkisstjórnar á hverjum tíma er. Þá hafa landsmenn allir og þeir sem kjósa stjórnmálaflokka í almennum alþingiskosningum skýrt val til lengri tíma og sjá hver framtíðarstefnan er. Tel ég það mjög mikilvægt.

Eins er þetta plagg mikil áskorun um að halda þær fjármálareglur sem fram koma í lögum um opinber fjármál. Ég tel að það hafi verið mjög til bóta að setja þessar reglur til að reyna í fyrsta lagi að hemja ríkisreksturinn og í öðru lagi til að skapa þann stöðugleika sem við þurfum á að halda. Ekki síst er sýndur afgangur af ríkissjóði til næstu fimm ára í þessu plaggi og eru það afar góðar tölur sem ég ætla ekki að endurtaka hér því að komið hefur verið inn á það. Síðan kemur fram að erlendar skuldir eru greiddar niður, sem er okkur líka svo mikilvægt. Horfurnar eru því mjög bjartar svo ekki sé meira sagt.

Það verður gaman að vinna eftir þessari áætlun og skoða málin út frá henni. Framhaldið af þessu öllu saman, því að ég reikna með og veit að málinu verður vísað til fjárlaganefndar til frekari úrvinnslu, er að fjármálaráðuneytið kemur á fund nefndarinnar og fer gróflega yfir tillögurnar. Svo er meiningin að fá á fund nefndarinnar fulltrúa frá hverju ráðuneyti fyrir sig sem fer yfir sitt svið. Þá verður fagnefndum þingsins jafnframt boðið eftir málaflokkum á fund nefndarinnar til þess að fá þessa sömu kynningu, allt eftir því hvaða svið er á dagskrá hverju sinni.

Ég held að það gæti verið mjög gott fordæmi til framtíðar að gera þetta með þessum hætti. Það sparar tíma, það skapar betra samtal á milli þingmanna. Tvær nefndir eru saman á kynningarfundi með spurningar sem svarað er á sama tíma þannig að þá eru átján þingmenn á sömu blaðsíðu varðandi sviðin eftir kynninguna. Ég held að það gæti verið gott fordæmi til framtíðar og mjög til eftirbreytni að nefndir þingsins fundi meira saman, sérstaklega þegar málaflokkarnir liggja svona þétt hlið við hlið.

Virðulegi forseti. Það er eitt enn sem mér finnst afar ánægjulegt; aukið er við varapott sem hægt er að grípa til ef óvæntir atburðir koma upp í samfélaginu. Sá liður fjallar líka um það ef einhverjar breytingar verða á launaþróun eða kjarasamningum og verið er að stækka hann. Svo er ég afar hrifin af því 2% svigrúmi sem hverju málasviði er úthlutað þannig að ráðherra hverju sinni þarf jafnvel ekki að biðja um að fá aukafjárveitingu inn á árið heldur hefur hann meira svigrúm til að færa fjármagn innan síns sviðs og skapar þannig aukasvigrúm. Ég tel að það sé afar þýðingarmikið.

Það er rétt að geta þess að fjárlaganefnd þessa kjörtímabils, og eins síðasta kjörtímabils, fór til Svíþjóðar og kynnti sér málið því að Svíar standa mjög framarlega í fjárlagagerð og opinberum fjármálum. Hefur nefndin litið mjög til vinnu Svía í því efni. Eins og ég hef alltaf sagt á ekki að finna upp hjólið heldur líta til nágrannalandanna og taka það besta sem þau hafa upp á að bjóða og reyna að heimfæra það hér á landi. Tel ég að það hafi tekist býsna vel og lýsi því ánægju minni yfir því í fyrsta lagi að lög um opinber fjármál hafi verið samþykkt í þinginu undir stjórn þessarar ríkisstjórnar ásamt því að nú hefur afurð laganna litið dagsins ljós. Ekki síst óska ég landsmönnum til hamingju með árangurinn sem af er þessu kjörtímabili og ekki síst þann mikla árangur og framtíðarsýn sem birtist hér. Það eru virkilega bjartir tímar fram undan.