145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:38]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góða spurningu. Ég er á þeirri skoðun varðandi fyrirkomulagið að frítekjumarkið sé allt of lágt. Ég hugsa að pælingar eins og þær sem koma fram á vefsíðunni romur.is, um að nota lífeyrissparnaðinn við húsnæðiskaup og greiða það út jafnt og þétt, sé eitthvað sem er hægt að hugsa og skoða betur en það breytir því ekki að íslenskir stúdentar mega aðeins þéna 930 þús. kr. á ári. Þetta er gert til að koma til móts við þessa þrjá til fjóra mánuði á ári þar sem þeir eru ekki á námslánum, þannig að fólki er í raun haldið við fátæktarmörk. Íslenskir stúdentar hafa tæplega 200 þús. kr. milli handanna á mánuði. Ef fólk er að reyna að koma undir sig fótunum, er að reyna að skapa sér góða framtíð, þá er þetta ekki nóg til þess að byrja að spara til dæmis. Ég reiknaði það út eftir að ég skoðaði vefsvæði Landsbankans fyrir tilviljun að það tekur einstakling fjögur ár að safna sér 100 þús. kr. ef hann leggur fyrir 10 þús. kr. á mánuði. Til þess að eiga fyrir útborgun í 25 millj. kr. íbúð þarf að eiga 3,75 millj. kr. Það þýðir að það tekur 26 ár að safna því ef fólk hefur efni á því að leggja 10 þús. kr. fyrir á mánuði. Eins og staðan er í dag fyrir íslenska námsmenn, og ég þekki það mjög vel þar sem ég var þar til nýlega íslenskur námsmaður, þá hafa námsmenn ekkert efni á þessu. Hugmyndir eins og þær sem eru inni á romur.is eru að sjálfsögðu jákvæðar en það er annað vandamál líka og það er frítekjumarkið.