145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að taka upp þráðinn þar sem ég sleppti honum í samræðum við hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur áður en ég fer í efni máls. Ég held að nákvæmlega það sem hv. þingmaður var að ræða sýni mikilvægið í því að ræða stóra samhengið af því að leiguverð, húsnæðisverð og annað slíkt er samspil í það minnsta tveggja stjórnsýslustiga, ríkis og sveitarfélaga. Langvarandi lóðaskortsstefna meiri hlutans í Reykjavík hefur leitt af sér hækkandi kaupverð húsnæðis og sömuleiðis leiguverð. Einn þriðji af kostnaði við nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu er opinber, annars vegar til ríkisins varðandi eftirlitskostnað, flókna byggingarreglugerð o.s.frv. Hins vegar rukka sveitarfélög, stærsta sveitarfélagið sérstaklega, að vísu hafa sum ekki landfræðilega möguleika á að fjölga lóðum, en Reykjavíkurborg hefur því miður verið með mjög sérkennilega stefnu í skipulagsmálum sem kemur ekki bara niður á borgarsjóði heldur líka einstaklingum, sérstaklega yngsta fólkinu. Við þurfum að ræða þetta í samhengi. Þess vegna er svo mikilvægt að við séum komin með lög um opinber fjármál.

Það er algjörlega frábært að hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. ríkisstjórn og sveitarfélögin séu búin að koma sér saman um markmið sem er alveg grundvallaratriði. Við munum aldrei ná árangri nema þessir aðilar spili saman. Það hefur t.d. verið vandi lengi að menn hafa ekki spilað saman milli sveitarfélaganna og ríkisins. Sem betur fer fyrir alþjóðlega bankahrunið hafði ríkissjóður greitt nokkurn veginn niður allar skuldir sínar og greitt inn á lífeyrisskuldbindingar. Ef við hefðum ekki verið búin að því, þeir stjórnmálamenn sem stóðu fyrir því fengu litlar þakkir, en ef við hefðum ekki gert það hefði verið mjög erfitt fyrir okkur að vinna okkur úr þeirri stöðu sem þarna myndaðist. Á sama tíma juku sveitarfélögin skuldir sínar með afleiðingum sem við þekkjum.

Það dugar lítið að koma með fína fjármálaáætlun ef við munum ekki fara eftir henni. Eftir áratugabið erum við núna loksins komin með áætlun þar sem við erum að ræða og skoða hlutina til langs tíma. Eðli máls samkvæmt erum við ósammála í stjórnmálum, en það er lykilatriði í þessu sem og öllu öðru að líta til langs tíma, gera áætlanir til langs tíma. Það skiptir máli fyrir alla, m.a. að þeir sem stýra opinberum stofnunum viti nokkurn veginn hvað framtíðin ber í skauti sér. Það er mikilvægt að við náum þeim stað sem við viljum vera á og við í hv. fjárlaganefnd komumst að því þegar við heimsóttum Svíþjóð, það land sem við höfum borið okkur hvað mest saman við hvað þetta varðar, að þar er pólitísk samstaða um að vera með ábyrgð í opinberum fjármálum. Menn eru með mismunandi flokka og mismunandi lífsskoðanir þar eins og hér og takast á eins og við gerum, en það er algjör samstaða um það, og þar eru líka fjölmiðlarnir mikilvægt tæki, að mönnum leyfist ekki að vera með óábyrgt hjal og yfirboð þegar kemur að opinberum fjármálum. Það er grundvallaratriði.

Mér finnst auðvitað, eins og öllum, að við getum ekki annað en sagt að það sé bjart fram undan. Við eigum mikla möguleika á að ná mjög miklum árangri en við erum ekki komin í mark. Stjórn Reykjavíkurborgar sýnir það, það sveitarfélag var með algjöra sérstöðu fyrir tiltölulega fáum árum og stjórnmálamenn vildu í alvöru skattleggja Reykjavíkurborg sérstaklega vegna þess að hún hafði svo mikla yfirburðastöðu. Það er hægt að koma henni á þann stað sem hún er á núna þannig að það er allt hægt. Þó að við séum með áætlanir sem líta vel út er auðvelt að klúðra þessu ef ekki er rétt á málum haldið.

Ef menn skoða það kynningarefni sem er með þessu, t.d. varðandi erlenda stöðu þjóðarbúsins, vek ég athygli á að við sjáum hér alveg gríðarlega breytingu. Við erum að koma okkur á betri stað en við vorum á fyrir efnahagshrunið. Á sama hátt höfum við líka aukið kaupmáttinn verulega. Auðvitað getum við ekki náð þessu með þessum hraða áfram, en það er mjög ánægjulegt að sjá þessar breytingar. Einnig má segja það sama um skuldir heimilanna, þær hafa breyst í grundvallaratriðum og er það vel því að það er mjög mikilvægt að sem allra flestir, helst allir, séu fjárhagslega sjálfstæðir. Þeir geta ekki orðið það nema vera með litlar skuldir.

Hins vegar eru ýmis hættumerki. Við getum lækkað skuldir, það er ekki sjálfgefið en við eigum alla möguleika til þess. Við vitum náttúrlega ekki um alla þætti, vitum ekki nákvæmlega hvað framtíðin ber í skauti sér. Ógnin felst m.a. í því að það er hætta á að gengi íslensku krónunnar styrkist. Það mun hafa áhrif á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar eins og ferðaþjónustuna og aðrar útflutningsgreinar. Það getur gert okkur erfiðara fyrir að ná þeim markmiðum sem við viljum sjá.

Ástæðan fyrir því að staðan er svona góð er sú að ríkið skuldar enn þá mikið, en á móti kemur að við erum út af stöðugleikaframlaginu komin með miklar eignir. Ef okkur tekst farsællega að selja þessar eignir í opnu og gagnsæju ferli og nota þá fjármuni til að lækka skuldir munum við lækka vaxtakostnað verulega. Það er nokkuð sem við verðum að gera.

Ég er algjörlega á því að við eigum að gera allt hvað við getum til að það sé traust á því ferli þegar kemur að því að selja eignir, en við getum ekki setið uppi með allra handa verslun og iðnað. Við erum með lyfjaverslanir og alls konar fyrirtæki sem ríkið á, banka og guð má vita hvað, og því er ekki vel fyrir komið hjá ríkinu. Á sama tíma þurfum við líka, af því að ég nefndi banka sem eru stærstu einstöku eignirnar, að huga að því að vera með bankakerfi sem er ekki í fanginu á skattgreiðendunum.

Hingað kom prófessor frá London School of Economics í boði Samfylkingarinnar, John Kay, sem fór sérstaklega í þetta, að vísu í umræðunni um aflandsfélög, sagði að fjármálakerfið hjá okkur væri orðið svo flókið. Það er allt upprunnið frá ESB, við tökum það meira og minna þaðan, og við verðum að gera hvað við getum til að lágmarka áhættu íslenskra skattgreiðenda. Þar hafa menn rætt hluti eins og að aðskilja fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, en menn þurfa að ganga miklu lengra. Innstæðufyrirkomulagið er augljóslega meingallað. Nýjasta tilskipunin frá Evrópusambandinu, sem við megum alls ekki taka upp, gengur út á að hækka innstæðutryggingar upp í 100 þús. evrur á hverjum reikningi og í raun setja ríkisábyrgð á þá þætti. Það er nokkuð sem við megum aldrei gera. Við eigum að sjá til þess að hér séu öflugar fjármálastofnanir en þær verða að vera þannig uppbyggðar að ef illa fer tapa viðkomandi eigendur en ekki skattgreiðendur. Nú gæti einhver sagt að þetta væri sjálfgefið, en svo er ekki. Þetta er t.d. áberandi í umræðum í bandarísku forsetakosningunum, kannski ekki jafn mikið í Evrópu, en sérstaklega gömlu ríki Evrópu eru ekki búin að leysa úr vanda sínum sem kom í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Þau stórjuku opinberar skuldir og hafa ekki náð að greiða þær niður vegna þess að þau voru að greiða inn í bankakerfið. Oft og tíðum voru þau að bjarga þeim sem áttu viðkomandi stofnanir. Allt þetta hangir saman.

Það er líka afskaplega mikilvægt að við ræðum núna útgjaldaramma málefnasviða og lítum til lengri tíma, það er grundvallaratriði. Á bls. 5 í frumvarpinu eru útgjaldarammarnir. Þó að ég sé ánægður með stóru myndina í þessu finnst mér að margt megi betur fara þegar kemur að einstaka málaflokkum. Það vekur athygli mína, virðulegi forseti, að t.d. ráðgerð hækkun til 2021 til utanríkismála er mjög mikil, bæði í upphæðum og líka hlutfallslega. Ég held að þetta sé nokkuð sem við þurfum að skoða sérstaklega. Örugglega snýr eitt af þessu að því að uppfylla skuldbindingar okkar eða markmið varðandi þróunaraðstoð, en það hefur hækkað mikið að undanförnu án þess að við höfum gert skilmerkilega grein fyrir því. Þá á ég bæði við aðstoð við flóttamenn sem við eigum að skilgreina sem þróunaraðstoð og einnig er það að við setjum háar upphæðir í Þróunarsjóð EFTA sem við undirgengumst í tengslum við samstarfið við Evrópska efnahagssvæðið. Sá sjóður á að mínu áliti ekki að fara í neitt annað en að hjálpa þeim sem minnst hafa, á auðvitað að vera skilgreindur sem framlög til þróunaraðstoðar og á að fara til þróunaraðstoðar.

Við erum hér með ferðaþjónustuna þar sem gert er ráð fyrir lækkun á framlagi. Það er vel, það er ánægjulegt þegar maður sér lækkun en vegna þess að við þurfum að fjárfesta í innviðum í tengslum við ferðaþjónustu geri ég ráð fyrir að við ætlum að ná því með öðrum hætti, þ.e. að þeir aðilar sem nýti þjónustuna greiði fyrir hana. Mér finnst það skynsamleg leið.

Ég hef áhyggjur af háskólastiginu, að þar sé ekki nógu mikil aukning. Ef við ætlum að alhæfa um íslenskt skólakerfi er það einhvern veginn þannig að ef við berum okkur saman við önnur lönd eru framlögin til grunnskólans með því hæsta hér, en ef við berum okkur saman við önnur lönd á sama tíma er kerfið frekar undirfjármagnað þegar kemur að framhaldsskólunum og háskólunum. Hér var farið í styttingu á framhaldsskólanum, m.a. til að nýta fjármunina betur þar. Háskólastigið er nokkuð sem við verðum að leggja áherslu á. Vegna þess að það er mikill vandi í grunnskólunum höfum við farið í að auka framlög til nokkurs sem heitir Menntamálastofnun, sem m.a. styrkir grunnskólana með beinum hætti. Ég tel að við þurfum að hugsa það hvort við getum ekki nýtt þá peninga frekar á háskólastiginu því að það er augljóst að stærsti vandi grunnskólans er ekki skortur á fjármunum, það er eitthvað annað að þar, þegar við erum á þeim stað að við náum ekki að kenna fólki í grunnskólanum að lesa, sérstaklega ekki ungum drengjum. Reyndar held ég að í grunnskólanum sé ákveðið vandamál þegar kemur að drengjum. Ég ætla ekki að fara í það nákvæmlega núna.

Annað sem ég hef áhyggjur af og sem við þurfum að líta sérstaklega á er það sem kemur að hjúkrunarrýmum. Gert er ráð fyrir verulegum fjármunum til að fjárfesta í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Það er óhjákvæmilegt en miðað við þær áætlanir sem gert er ráð fyrir er það ekki nóg. Við sjáum mjög stóra árganga koma inn á næstu árum. Við þurfum ekki bara að byggja hjúkrunarrými, við þurfum líka að vera með skilgreinda áætlun um það hvernig við getum verið með framboð af þjónustuúrræðum eins og skammtímavistun og öðru slíku til að fólk geti búið sem allra lengst heima hjá sér. Þetta er eitt af stóru verkefnunum. Miðað við þær áætlanir sem voru til staðar þurftum við ekki bara að byggja nýjan Landspítala heldur í rauninni setja sambærilega upphæð í byggingu nýrra hjúkrunarheimila. Það er ansi dýr leið og við þurfum að líta til nágrannalandanna og skoða hvernig þau hafa leyst þennan vanda. Við búum þannig að við getum skoðað hvað þær þjóðir sem eru með öðruvísi aldurspíramída en við hafa gert til að leysa þennan vanda vegna þess að þær eru búnar að vera með aldurspíramídann eins og við erum að fara í í miklu lengri tíma. Við getum bæði lært af því sem þær hafa gert vel og skoðað það sem þær hafa gert illa og reynt að komast hjá því að fara þá leið.

Það er ánægjulegt, virðulegi forseti, að sjá fjármögnuð stór og dýr verkefni eins og Landspítalann og Vestmannaeyjaferjuna því að oft hafa stjórnmálamenn lofað svolítið upp í ermina á sér þegar slíkir hlutir eru, sérstaklega þegar kemur að kosningaári, en núna erum við með þetta inni í okkar áætlun sem er grundvallaratriði.

Núna erum við loksins komin með langtímaáætlun. Við erum loksins komin á þann staða að við séum að ræða þetta út frá stærri málefnasviðum í stað þess að ræða alltaf hlutina út frá mjög lágum upphæðum og þó að þær séu mikilvægar verðum við sem þjóð að líta á stóru myndina þegar við gerum áætlanir. Það er enginn vafi á að framtíðin er björt. Það er enginn vafi á að það náðist gríðarlegur árangur á þessu kjörtímabili og miklu meiri en menn þorðu að vona. Ég held að allir þeir sem hefðu talað með þeim hætti sem staðan sýnir núna fyrir síðustu kosningar eða í upphafi þessa kjörtímabils hefðu verið blásnir út af sem óraunsæisfólk. En það er líka vandi að spila úr stöðu eins og þessari. Það er auðvelt að ofreisa sig í því þegar betur árar. Það er nokkuð sem við verðum að koma í veg fyrir. Við verðum að sýna ábyrgð í fjármálum og þetta plagg er grunnur að því. Ég vona að við náum samstöðu um að vinna, ekki bara núna hvað þessa framlagningu varðar, heldur að vinna í þessum anda í nánustu og fjærstu framtíð.