145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[17:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér saman um fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Það er gríðarlega mikilvæg umræða af því að í þessum plöggum er að finna stefnumótun stjórnvalda á hverjum tíma og margt af þeirri stefnumótun kemur ekki inn á Alþingi í gegnum annars konar þingmál. Mig langar að gera að umræðuefni þau mál sem eru fyrst og fremst ákveðin í gegnum fjárlög og fjármálaáætlanir á hverjum tíma en hafa samt gríðarlega mikil áhrif á landsmenn alla.

Það er fyrst að segja að auðvitað hafa efnahagsmál þjóðarinnar þróast í betri átt allt frá hruni og er áhugavert að skoða myndir um þróun mála sem birtar eru fremst í fjármálaáætluninni. Þar sést að mikið vatn hefur runnið til sjávar frá hruninu 2008 og allt hefur horft til betri vegar, hvort sem horft er til jöfnuðar í ríkisfjármálum eða annarrar almennrar þróunar á sviði efnahagsmála. Hins vegar stendur ágreiningurinn fyrst og fremst um aðferðafræðina og ekki síst tekjuöflunina. Ef við skoðum myndina á bls. 29 í fjármálaáætluninni sést að ekki er gert ráð fyrir miklum afkomubata. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef farin hefði verið önnur leið í tekjuöflun liti þetta öðruvísi út, og um það snýst auðvitað hinn pólitíski ágreiningur. Hvað varðar auðlindagjöldin var það forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar að lækka veiðigjöldin þegar hún komst til valda. Það munar um minna. Það munar um þá tugi milljarða sem var þar í raun ákveðið að afhenda stórútgerðinni á kostnað samneyslunnar. Ég nefni auðlegðarskattinn sem ákveðið var að framlengja ekki. Æ meiri umræða er á hinu alþjóðlega sviði um nauðsyn þess að reka framsækna skattheimtu, þrepaskipt skattkerfi, en það er það sem ríkisstjórnin hefur horfið frá með því að fækka þrepum þó að þau séu enn þá tvö, og hins vegar sérstaka skattlagningu á hina efnameiri. Þá erum við komin að spurningunni hvort jöfnuður geti verið sérstakt markmið í svona áætlun. Jöfnuður er ekki sérstakt markmið í þessari áætlun eða stefnu. Þó að ríkisstjórnin hafi sent frá sér fréttatilkynningu í morgun um að jöfnuður hafi aldrei verið meiri kom nú á daginn að hún var leiðrétt seinna, enda miðaði hún við tölur frá árinu 2013 en ekki árinu 2014. Ég held að það verði mjög áhugavert að skoða tölur yfir hvernig jöfnuður hefur þróast hér á landi í einhverju tímalegu samhengi, því að við hljótum að sjá að það að draga úr skattheimtu á hina efnameiri í samfélaginu getur ekki leitt til aukins jöfnuðar. Vaxandi misskipting er eitthvað sem við ættum að hafa áhyggjur af, vera meðvituð um, og gera okkur far um að forðast, því að við sjáum að stjórnvaldsaðgerðir á borð við breytingar á skattheimtu hafa skilað aukinni misskiptingu og við sjáum líka að þróun efnahagsmála verður önnur og verri en þar sem jöfnuður er meiri.

Í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra situr hér nýti ég tækifærið og mæli þau varnaðarorð að ef jöfnuður á að vera sérstakt markmið, sem ég tel að hann eigi að vera, bæði út frá markmiðinu jöfnuður í sjálfu sér — jöfnuður skiptir máli ef við viljum dreifa gæðunum með sem réttlátustum hætti og tryggja að allir fái tækifæri til að njóta sín, en líka af því að það eru sérstök efnahagsleg rök með jöfnuði sem nýjar rannsóknir sýna að beinlínis auki hagsæld samfélags, en að stoðirnar gætu verið sterkari. Það skýrir þá staðreynd að opinberar fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki þó að nokkrar fjárfestingar komi hér inn á langtímaáætlun.

Ég fagna að sjálfsögðu áformum um nýjan Landspítala, þó það nú væri, enda erum við margoft búin að samþykkja hér þær fyrirætlanir og vitum öll hversu mikilvæg sú fyrirætlan er. Ég nefni líka Hús íslenskra fræða sem er hér komið inn á langtímaáætlun og ég fagna því. Ég tel enn að það hafi verið mistök að hverfa frá fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sem m.a. gerði ráð fyrir Húsi íslenskra fræða, en sá ágreiningur snerist auðvitað um tekjuöflun, þ.e. hvort menn væru reiðubúnir að afla tekna til þess að ráðast í uppbyggingu nauðsynlegra innviða. Svo var ekki. Þess vegna erum við ekki búin að sjá þetta hús rísa enn þá. Þó að handritin séu á heimsminjaskrá Unesco eru þau enn falin í ófullnægjandi húsnæði þar sem nú nýlega var verið að eitra fyrir meindýrum sem ógnað gætu þessum arfi sem okkur hefur verið falið að varðveita, ekki bara fyrir okkur sjálf, heldur fyrir heiminn allan.

Af því að tíminn er svo óskaplega skammur langar mig að nefna sérstaklega örfá mál á útgjaldahliðinni. Í umfjöllun um málefni háskólanna er þess sérstaklega getið á bls. 174 og 175 í hinu lengra plaggi hér að það hafi verið stefna samþykkt af vísinda- og tækniráði að fjármögnun háskóla eigi að verða sambærileg við meðaltal aðildarríkja innan OECD 2016 og Norðurlanda árið 2020. Meira er ekki rætt um það markmið, sem ég veit þó að stjórnmálamenn úr öllum flokkum hafa opinberlega lýst sig samþykka, enda höfum við lengi — lengi verið eftirbátar annarra Norðurlanda og verið fyrir neðan meðaltal OECD þegar við skoðum þau fjárframlög mæld út frá hverjum nemanda til háskólastigsins á Íslandi. Ekki er hægt að sjá neitt í þessari áætlun sem bendir til þess að það sé raunveruleg ætlun að ná þessu markmiði. Það er ekki hægt að sjá það úr áætluninni að það sé ætlunin. Það er áhyggjuefni, frú forseti, af því að þegar við ræðum um fjárfestingu þá er fjárfesting í menntun líklega arðbærasta fjárfestingin, ef við tökum tungutak markaðarins og beitum því á menntun. Raunar finnst mér tungutaki markaðarins of mikið beitt á menntakerfið í þessari ágætu bók hér, því að þar má mikið lesa um styttingu framhaldsskólans. Því er haldið fram að líklega muni stytting framhaldsskólans minnka brottfall. Hún var í raun ákveðin einhliða án þess að um það hafi farið fram einhver menntapólitísk umræða á þinginu því að það er svigrúm í lögum sem skilið var þannig út frá lögskýringargögnum að framhaldsskólar hefðu svigrúm til þess að bjóða upp á nám af ólíkri lengd, af ólíku inntaki, þ.e. það var sett í hendur skólanna að ákvarða nákvæmlega inntak og lengd náms í framhaldsskóla þegar lög voru hér samþykkt sem tóku gildi 2008 í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Núverandi hæstv. ráðherra hefur tekið þá ákvörðun einhliða að stytta þetta nám. Því er slegið föstu hér að það muni skila minna brottfalli og muni skila nemendum fyrr út á vinnumarkað, sem sé líklegt til að auka hagvöxt.

Ég velti því þó fyrir mér í ljósi þess að þær rannsóknir sem OECD hefur staðið fyrir í samráði við íslensk menntamálayfirvöld sýna ekki að námið sé svo langt, að þess vegna hverfi nemendur frá námi, miklu heldur eru það svokallaðar sálfélagslegar ástæður sem valda því að nemendur hverfa frá námi. Um það er ekkert fjallað hér, heldur er því bara haldið fram að stytting náms muni skila minna brottfalli.

Við Íslendingar bjóðum því miður ekki upp á sömu stoðþjónustu fyrir framhaldsskólanemendur okkar og gert er víða annars staðar á Norðurlöndum. Hér í þinginu eru ágætar tillögur þótt ég segi sjálf frá því að ég er nú flutningsmaður annarrar þeirra sem snýst um að það verði hluti af lögum um framhaldsskóla að bjóða upp á annaðhvort þjónustu hjúkrunarfræðings eða sálfræðings eftir því sem aðstæður leyfa í framhaldsskólum einmitt vegna þess að við sjáum það að hinar sálfélagslegu orsakir eru langveigamestar þegar kemur að brottfalli. Síðan er hér þingsályktunartillaga frá þingmönnum Samfylkingarinnar um að skoðað verði að bjóða upp á sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum.

Hér skerum við okkur úr frá öðrum Norðurlöndum. Ég held að þarna sé í raun verið að halda einhverju fram án þess að fyrir því liggi nægjanlega ígrundaðar ástæður. Það er líka merkilegt að sjá að þarna er orðað í einni setningu á bls. 172, með leyfi forseta:

„Samtímis er búist við að hlutfall fullorðinna framhaldsskólanemenda lækki en haustið 2013 voru 32% nemenda í framhaldsskólum 21 árs eða eldri.“

Þetta er sett inn í kafla um brottfall. Þess er ekki getið að fjárlögum hafi beinlínis verið beitt til að útiloka nemendur 25 ára og eldri frá námi. Þarna er einhvern veginn gefið í skyn að það sé eðlileg þróun að fullorðnum framhaldsskólanemum sé að fækka. Það er ekkert eðlileg þróun, frú forseti. Það er beinlínis ákveðið af stjórnvöldum að veita ekki fjármuni til þess að kenna hinum eldri nemendum í framhaldsskólum. Mér finnst því framsetningin dálítið merkileg þegar lesið er á milli línanna.

Ég hef því miður ekki tíma til að nefna fleira, en þetta er auðvitað hápólitískt plagg. Mig langar þó að segja að lokum á þeim 20 sekúndum sem ég hef í lokin að gert er ráð fyrir að framlög til þróunarsamvinnu verði 0,26% af vergri landsframleiðslu árið 2018. Tillagan sem hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra setti fram miðaðist við 0,27%, þannig að þessi ríkisfjármálaáætlun er enn rýrari en sú rýra tillaga um þróunarsamvinnuáætlun sem hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra lagði fram. (Forseti hringir.) Ég harma það. Ég harma þetta metnaðarleysi í þessum málaflokki. Ég næ því miður ekki að fara yfir allt sem ég hefði viljað fara yfir hér í þessu máli.