145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[17:20]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og menn þekkja voru lög um opinber fjármál mörg ár í fæðingu í þinginu í tíð tveggja ríkisstjórna áður en þau voru loks samþykkt í lok síðasta árs. Lögin hafa í för með sér mikla breytingu á efnahagsumgjörðinni, t.d. samhæfingu á milli fjármála ríkis og sveitarfélaga. Gengið var frá slíku samkomulagi nýlega sem skiptir miklu máli til að geta horft á málið í heild sinni og er, held ég, tímamótaplagg í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Lögin munu koma til með að hafa jákvæð áhrif á hagstjórnina auk aga og annarra breytinga sem er verið að vinna að um þessar mundir, svo sem eins og nýtt vinnumarkaðslíkan að norrænni fyrirmynd og stofnun þjóðhagsráðs.

Í lögunum er kveðið á um að leggja skuli fram fjármálaáætlun, eins og menn þekkja, til fimm ára á vori hverju og fjármálastefnu í upphafi hvers kjörtímabils. Fjármálaáætlunin kemur þar af leiðandi árlega, uppfærð á hverju ári, til næstu fimm ára. Þetta er stórt og umfangsmikið plagg, eins og menn hafa séð, með miklum upplýsingum um opinber fjármál. Í áætluninni nú þegar hún er lögð fram í fyrsta skipti eru mörg nýmæli. Til að mynda er rekstri ríkissjóðs skipt upp í 34 málefnasvið og stefna og áherslur á hverju einstaka málefnasviði eru síðan lagðar fram og menn geta glöggvað sig á þeim í útprentuðu eintaki.

Fjármálaáætlunin gefur færi á því að sjá stefnumörkun í efnahagsmálum á einstökum málefnasviðum, tekjur, útgjöld á einstökum sviðum, afkomu og skuldir. Sú fjármálaáætlun sem við erum að fjalla um hefur verið í smíðum frá því fyrir síðustu áramót. Öll ráðuneytin hafa komið að þeirri vinnu sem og Samband íslenskra sveitarfélaga og bæði ráðherranefnd um ríkisfjármál og ríkisstjórn hafa tekið þátt í gerð áætlunarinnar og samþykkt hana.

Eins og hefur komið fram í umræðunum er markmið í fjármálastefnunni skýrt; að heildarafkoma hins opinbera verði 1%, þ.e. ríki og sveitarfélög, af landsframleiðslu á hverju ári 2017–2021. Samtals gerir þetta um 170 milljarða í afgang á þessu fimm ára tímabili og er ekki ætlast til þess að sveitarfélögin leggi til þar heldur haldi sig við núverandi stöðu. Það er ríkið sem leggur þar af leiðandi til afganginn.

Sá afgangur leiðir til þess að heildarskuldir lækka úr 34% af landsframleiðslu, eins og hún er áætluð árið 2017, og niður í 26% árið 2021. Þar með mun ríkið ná bæði afkomu- og skuldamarkmiðum laga um opinber fjármál á tímabilinu, eitthvað sem menn töldu óhugsandi fyrir nokkrum árum, og í upphaflegum hugmyndum var verið að velta fyrir sér 45% marki sem varð að lokum í lögunum um 30%, en það næst sem sagt þegar á árinu 2018.

Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við á árinu 2013 voru heildarskuldir hins opinbera samkvæmt skilgreiningu laga um opinber fjármál ríflega 60% af landsframleiðslu en nú þremur árum síðar verða skuldirnar um 500 milljörðum lægri — 500 milljörðum — eða um 40% af landsframleiðslu. Eins og ég nefndi áðan er ráðgert að á árinu 2018 verði það komið niður fyrir 30%.

Á árinu 2016 stefnir í að afgangur af rekstri ríkissjóðs verði vel yfir 400 milljörðum, fyrst og fremst vegna stöðugleikaframlaganna. Þetta er auðvitað frábær árangur. Það er sá árangur sem gerir það að verkum að við eigum möguleika á að auka velferðarútgjöld á næstu árum. Horfur eru góðar á næstu árum verði rétt á málum haldið og útlit fyrir að efnahagsstaða Íslendinga, hins opinbera, heimila og fyrirtækja muni vænkast.

Ég hef sagt áður að það skiptir máli í íslensku samfélagi að hér sé jöfnuður ríkjandi og jafnvel meiri jöfnuður en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Við erum 331.000. Við erum meira og minna tengd, skyld eða umgöngumst hvert annað og sjáum hvernig aðrir hafa það í samfélagi okkar og okkur líður betur ef allir hafa það mjög gott og jöfnuður er meiri en í mörgum öðrum löndum.

Það er rétt að í tilkynningu sem kom frá ríkisstjórninni í morgun voru þau leiðu mistök gerð að notaðar (Gripið fram í.) voru tölur sem ekki eru nýjar. Þær byggðu að hluta til á tölum frá 2013 sem er ágætt og sýnir að þegar ríkisstjórnin tók við tók hún til baka fjölmargar niðurskurðartillögur sem höfðu lent á öldruðum og öryrkjum. Við tókum það strax til baka á sumrinu 2013, (Gripið fram í.) þannig að sá jöfnuður sem mælist á 2013 er annars vegar í lok síðasta kjörtímabils og síðan í upphafi af þessu. Síðan komu fram félagsvísar sem voru kynntir til sögunnar fyrir nokkrum vikum, sem byggja á tölum frá 2018. Þar kemur fram að áframhald er á jöfnuði. Það eru sífellt færri sem hafa það verra í samfélagi okkar. Það er alltaf til sá hópur og það er verkefni ríkisins og sveitarfélaga að halda utan um þann hóp. Í þessari fjármálaáætlun er sannarlega verið að koma til móts við það því að svigrúm til aukningar á útgjöldum eru um 42 milljarðar.

Eins og ég nefndi skapast með lækkun skulda forsendur til að bæta innviði samfélagsins og ekki síst í auknum velferðarútgjöldum og fjárfestingum. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir umtalsverðum raunvexti útgjalda til velferðarmála, ekki síst í heilbrigðismálum. Gert er ráð fyrir viðamiklum fjárfestingum í heilbrigðismálunum, svo sem fyrstu áföngum í byggingu nýs Landspítala, hjúkrunarheimilum, viðhaldsframkvæmdum á Landspítalanum, tækjakaupaáætlun, meðferðarkjarna, sjúkrahóteli o.fl. Það er mjög gott jafnvægi í áætluninni miðað við þær aðstæður sem uppi eru í því þensluumhverfi sem við erum með í dag.

Ég hef heyrt ræður um að hin opinbera fjárfesting sé ekki nóg því að við höldum okkur við mjög lága prósentutölu, 1,3% af landsframleiðslu til opinberra fjárfestinga á fyrri hluta tímabilsins. Ástæðan er sú að það er þensla í samfélaginu. Þá verður ríkið að halda aftur af sér. En það eru líka fleiri ástæður. Opinber fyrirtæki eins og Isavia, Landsnet og Landsvirkjun eru með miklar og nauðsynlegar framkvæmdir á næstu árum. Ég veit ekki hvort einhver í þessum sal er tilbúinn til að stöðva framkvæmdirnar við Leifsstöð til að auka svigrúm til annarra fjárfestinga annars staðar á Íslandi eða fresta því að byggja upp öryggiskerfi í raforku á landinu, ég veit ekki hvort það eru hugmyndir. En það er jafnvægi í þessu. Það eru gríðarlega miklar fjárfestingar hjá opinberum aðilum þótt ríkið sjálft verði að halda aftur af sér á fyrri hluta tímabilsins, en á síðasta hluta tímabilsins er gefið í. Þá verður þenslan orðin minni samkvæmt hagspá og síðan verða þær fjárfestingar minni sem eru fyrirhugaðar hjá þeim aðilum sem ég nefndi. Þá er tækifæri fyrir ríkið til að koma sterkara inn.

Hér er líka um mikla innviðafjárfestingu að ræða, raunaukningu útgjalda í heilbrigðismálum og í ýmsum velferðarmálum öðrum. Á sama tíma eru auknar fjárfestingar í ýmsum þeim samgönguinnviðum þar sem það þarf. Ég get nefnt í sambandi við önnur velferðarútgjöld að bætt er verulega í Fæðingarorlofssjóð og tækifæri til þess að innleiða þær tillögur sem nefnd fjallaði um á þessu tímabili, það er svigrúm til þess. Það þarf auðvitað að taka samtal við aðila vinnumarkaðarins um það hvernig við nýtum tryggingagjaldið til þess. Það er líka svigrúm til að fjalla um almannatryggingar og niðurstöður nefndar sem skilaði af sér á vordögum. Að því er unnið í velferðarráðuneytinu.

Varðandi skólakerfið er í raun og veru verið að tryggja framhaldsskólastigið og hefja viðbótarfjármögnun í háskólaumhverfinu, sem er veruleg þörf á.

Það eru ýmis önnur atriði, ég get ekki nefnt þau öll. En varðandi samgöngumálin eru líka fyrirhugaðar ýmsar fjárfestingar þar sem hefur verið kallað eftir, til að mynda Dýrafjarðargöng, þyrlur fyrir Landhelgisgæslu og sitthvað fleira nauðsynlegt viðhald sem er orðið mjög aðkallandi. Það er mjög mikilvægt að við getum farið í allar þær framkvæmdir í jafnvægi, aukið útgjöldin en staðist þá freistni sem ég veit að margir munu standa frammi fyrir, að nota yfir 400 milljarða afgang á fjármálum eins árs í útgjöld. En við erum líka búin að segja það á öðrum stað, og allir sammála um það, að stöðugleikaframlögin eigi að fara í að lækka (Forseti hringir.) skuldir til þess (Forseti hringir.) að auka svigrúm, raunverulegt svigrúm, án þess að við tökum þá fjármuni til að auka þensluna. Þessi fjármálaáætlun sýnir það jafnvægi í verki.