145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[18:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla á þeim tíu mínútum sem mér eru úthlutaðar í ræðutíma aðallega að einbeita mér að málasviði utanríkismála en vil þó í upphafi míns máls segja almennt um þessa þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 að ég hef áhyggjur af þeirri stefnu sem þar er verið að boða. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir spurði í ræðu sinni fyrr í dag hvort jöfnuður gæti verið sérstakt markmið í svona áætlun, og benti svo á að svo væri ekki í þessari áætlun. Ég hef beitt mér fyrir pólitík jafnaðar og tel þess vegna að jöfnuður ætti auðvitað að vera eitt af markmiðunum með svona áætlun. Um það greinir okkur kannski á, meiri hlutann, hæstv. ríkisstjórn hér á Alþingi.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir benti einnig á það í ræðu sinni að samneyslan í þessu plaggi sé í sögulegu lágmarki. Ef það er sett í samband við jöfnuð er það eitt risastórt áhyggjuefni. Fleiri hv. þingmenn hafa komið inn á ýmsa þætti sem snúa að því hvers konar framtíðarsýn um samfélag það er sem hér er verið að boða og mér hugnast hún ekki. Hægt er að taka sem dæmi orðaskiptin hér rétt áður en ég tók til máls um samgönguáætlun, sem enn eitt dæmið þar um.

Eins og ég sagði ætla ég að einbeita mér fyrst og fremst að málasviði utanríkismála. Framlög til utanríkismála aukast nokkuð í þessari áætlun og líkt og rakið er á bls. 61–62 skýrist það af nokkrum ástæðum. Ég vil fjalla um nokkrar þeirra. Þar ber hæst útgjöld til þróunarsamvinnu, líkt og t.d. má sjá á bls. 99 í þingsályktunartillögunni. Þar er ágætismynd þar sem hægt er að sjá að 35% af fjármagni á fjárlögum ársins 2016 sem úthlutað var til utanríkisráðuneytisins fóru einmitt í þann málaflokk, í þróunarsamvinnu.

Eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni og lesa má um á bls. 103 styðja íslensk stjórnvöld það markmið Sameinuðu þjóðanna að iðnríkin skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Ég veit ekki hvort ég á að leyfa mér að segja að það sé kómískt, það er nefnilega eiginlega frekar dapurlegt að heilum þremur línum neðar má sjá að það er langt í frá að vera raunin á Íslandi þó að íslensk stjórnvöld styðji það markmið. Hér má lesa að árið 2008 hafi framlög til þróunarsamvinnu numið 0,37% af vergum þjóðartekjum. Það er hæsta hlutfallið sem við höfum komist í á Íslandi. Þau framlög voru skorin niður eftir hrun en voru svo tekin að hækka aftur. Sé þingsályktunartillaga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016 frá 141. löggjafarþingi skoðuð má sjá hvernig markmiðið var að hækka þessi framlög ár frá ári. Þau hefðu t.d. átt að vera komin upp í 0,42% árið 2016 en eru hins vegar einungis 0,25% í ár.

Frá því að núverandi hæstv. ríkisstjórn tók við hefur verið horfið frá þeirri stefnu og þar birtist stefna núverandi ríkisstjórnar. Í þeirri áætlun sem við ræðum er stefnt að því að hlutfallið verði áfram 0,25% árið 2017, hækki í 0,26% árið 2018 og verði svo í því hlutfalli til loka tímabilsins árið 2021. Það finnst mér algerlega ótækt. Ástand heimsmálanna er einfaldlega þannig að aldrei hafa fleiri verið á flótta frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Margir eru vissulega að flýja stríðsátök en fólk er einnig að flýja loftslagsbreytingar sem gera þeim enn erfiðar fyrir sem eru í hvað verstri stöðu sökum fátæktar. Þess vegna finnst mér að við verðum að gera enn betur því að verkin skortir ekki. Það má meira að segja lesa í þessari sömu áætlun um þau mikilvægu mál sem Ísland sinnir.

Ég vil nefna annað atriði sem fellur líka undir málasvið utanríkismála og lýtur að varnarmálum. Það má eiginlega segja að það sé það sem lýtur að NATO. Þar á að hækka framlögin um 400 millj. kr., m.a. til að mæta uppsafnaðri viðhaldsþörf á varnarmannvirkjum NATO á Íslandi. Fleiri þættir eru nefndir. Ég tel að þeim peningum væri betur varið í allt annað, leyfi ég mér að segja. Í áætluninni er nefnilega lagður fram langur óskalisti yfir hvers kyns endurnýjanir og uppfærslur, búnað og starfsemi á vegum NATO. Ég held að ef þeim lista væri fylgt mjög ítarlega eftir væri hægt að fara langt umfram 400 millj. kr. Ég tel miklu nær að stjórnvöld fari að stíga þau skref að segja okkur frá þátttöku í hernaðar- og árásarbandalaginu NATO, sem í eru nokkur af árásargjörnustu stórveldum heimsins. Ég tel að það væri mun betri og ódýrari stefna. Hægt væri að eyða peningunum í eitthvað annað.

Svo er eitt sem nefnt er í þessu máli sem ekki er hægt að láta hjá líða að nefna í dag í ljósi frétta um leka úr TTIP-viðræðunum, sem annars hefur verið mjög mikil leynd yfir. Þar kemur til að mynda fram í þessum leka að allt að 1 milljón starfa tapist ef af þessum samningum verður. Í þeirri áætlun er einmitt hægt að lesa um það að Ísland vilji í fyrsta lagi leggja sitt af mörkum í systurviðræðum sem nefnast TiSA, og eins að greina hagsmuni Íslands þegar kemur að TTP-samningnum og TTIP-samningunum. Ég held að orku okkar hér inni væri mun betur varið ef við mundum einbeita okkur að öðrum málum. Ég sé að tími minn er búinn. Ég vil því bara endurtaka að framlögin til þróunarsamvinnu (Forseti hringir.) eru stóra hneykslismálið á sviði utanríkismálanna í þessari áætlun. Svo vil ég endurtaka það sem ég sagði í upphafi; þetta er ekki áætlun jöfnuðar og hér er allt of litlum fjármunum ráðstafað til samneyslu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)