145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[18:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun. Þetta eru skrýtnir tímar sem við lifum nú og í raun og veru er alveg einstaklega undarlegt að ræða áætlun inn í langa framtíð og hlýða á ráðherra fjármála og efnahagsmála mæla fyrir áætlun inn í framtíðina þegar ríkisstjórnin sem hann er í forustu fyrir ásamt forsætisráðherra er án umboðs. Ríkisstjórnin er í raun starfsstjórn þar sem hún hefur tilkynnt að hún hafi ekki í hyggju að ljúka kjörtímabilinu heldur muni hún stytta það um eitt þing. Það er nokkuð söguleg staðreynd þegar til þess er litið að hér er um að ræða tvo helstu valdaflokka Íslandssögunnar, að þeir hrekist með þeim hætti undan fordæmalausum pólitískum uppákomum sem eru stórar á alþjóðlega vísu. En á þessum degi í ólgunni miðri kemur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, og mælir fyrir fjármálaáætlun árið 2017–2021. Þessi tillaga til þingsályktunar er ekki bara tæknilegt plagg, hún er plagg sem felur í sér stefnumörkun á grundvelli þeirrar pólitíkur sem hæstv. ríkisstjórn stendur fyrir og umboð hennar er runnið út. Manni er því nokkur vandi á höndum að taka þátt í umræðunni á þeim forsendum sem gefnar eru upp, en það er okkar hlutskipti hér í hvert skiptið á fætur öðru að taka þátt í furðulegum pólitískum aðstæðum. Þetta er sannarlega ein slíkra uppákomna.

Mig langar að nefna hér nokkur mál. Hér hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar farið yfir mikilvæga þætti sem lúta að því að áætlun af þessu tagi ætti að fela í sér meginmarkmið fyrir íslenskt samfélag, ekki bara fyrir íslenskan efnahag heldur ekki síður fyrir samfélagssáttmálann. Eins og kom fram í ágætri ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur á jöfnuður að vera meginmarkmið og meginundirtónn í plaggi af þessu tagi og hér ættum við að sjá áætlun um að fátækt verði útrýmt á Íslandi. Hér ættum við að sjá áætlun um að horfið verði frá kostnaðarþátttöku í heilbrigðiskerfinu og hér ættum við að sjá metnaðarfullar áætlanir af því tagi þegar sannarlega er um að ræða þá stöðu að hér hefur verið efnahagsbati til lengri tíma en við höfum áður séð sem hófst við fordæmalausar aðstæður á síðasta kjörtímabili þar sem menn fengu ótrúlegt verkefni í fangið en skiluðu síðan til núverandi ríkisstjórnar viðráðanlegu verkefni sem hefur til viðbótar notið þess að á hennar fjörur hafa rekið hagstæð ytri skilyrði hver á fætur öðru; ferðamenn, olíuverð og ýmislegt því um líkt.

Einhverjir hafa nefnt hér samgöngumálin þannig að ég ætla ekki að dvelja sérstaklega við þau þótt þau heyri undir þá nefnd sem ég sit í, hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Samgönguáætlun sú sem nú liggur fyrir nefndinni er ótæk með öllu vegna þess að hún felur í sér áætlun um vanrækslu lykilinnviða samfélagsins og samgöngukerfisins.

Mig langar til þess að drepa á nokkra þætti sem lúta að umhverfismálum. Í fyrsta lagi langar mig að nefna afar mikilvægan lykilþátt sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið og ráðuneyti ferðamála í samstarfi. Fram kemur í áætluninni á bls. 149 varðandi ferðamálin að náttúran verði áfram helsta aðdráttarafl íslenskrar ferðaþjónustu og að markvisst verði unnið að verndun hennar með álagsstýringu og sjálfbærni að leiðarljósi. Allt er það gott og blessað, en hins vegar er í þessari áætlun allt til ársins 2021 ekki fjallað um byggingu náttúruminjasafns, sem er algjör lykilstofnun í því að við getum tekið á móti ferðamönnum svo bragur sé að, að ég tali nú ekki um mikilvægt uppeldis- og menntunargildi fyrir íslenskt samfélag, bæði fyrir börn, fyrir skóla, fyrir leikskóla, framhaldsskóla á háskólastigi og fyrir auðvitað allan íslenskan almenning. Það er því með öllu ótækt að náttúruminjasafn skuli ekki skipa veglegan sess í þessari áætlun.

Í textanum um umhverfismál er farið nokkrum orðum um stjórnsýslu umhverfismála og fyrirkomulag málaflokksins. Þar eru raktar í nokkrum orðum þær breytingar sem urðu á síðasta kjörtímabili með tilkomu Mannvirkjastofnunar og talað um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, innleiðingu vatnatilskipunar ESB, ný lög um loftslagsmál 2012, ný efnalög snemma árs 2013 og ný náttúruverndarlög, sem tóku gildi 15. nóvember 2015 en voru auðvitað náttúruverndarlög, nr. 60/2013. Þessi kafli er einkar afhjúpandi fyrir þá staðreynd að málaflokkurinn hefur í raun og veru verið vanræktur á þessu kjörtímabili. Skýrasta dæmið um það er sú staðreynd, og það kemur fram líka hér á bls. 163, að þar eru talin upp áform um að svæði í verndarflokki rammaáætlunar verði friðlýst auk annarra svæða samkvæmt náttúruverndarlögum, nr. 60/2013. En þá mætti sannarlega að því spyrja hvaða rammaáætlun sé þar undir, því að enn er það svo að ekki hefur verið farið í friðlýsingu samkvæmt verndarflokki rammaáætlunar sem samþykkt var í þinginu í janúar 2013 þó að við séum nú með rammaáætlun 3 í kynningarferli nú þegar. Það er því umhugsunarefni að fráfarandi ríkisstjórn skuli telja hér upp einhver áform um friðlýsingar sem hún hefur algjörlega vanrækt á yfirstandandi kjörtímabili.

Sú staðreynd er líka til marks um það hversu veik þessi áætlun er efnislega að hér eru ekki skref stigin í þá veru að samþætta markmið um loftslagsmál. Ekki kemur fram að til standi að auka vægi þess málaflokks. Ísland hefur undirgengist sameiginleg markmið Parísarsamkomulagsins, sameiginleg markmið Evrópusambandsríkjanna og Noregs en enn eru engin teikn á lofti um að innleiðing fari í gegnum Alþingi. Og það sem meira er, lykilmálaflokkar sem ættu auðvitað að vera þrungnir af loftslagsmarkmiðum, eins og samgöngumálin og málaflokkur umhverfismála, eru mjög veikir í þessum köflum í áætluninni, þ.e. umræðan um loftslagsmálin. Hér kemur til að mynda fram á bls. 164, þar segir, með leyfi forseta:

„Unnið verður að efldum aðgerðum í loftslagsmálum til að mæta hertum skuldbindingum í Parísarsamkomulaginu.“

Það dugar auðvitað ekki. Loftslagsmálin eru slíkur burðarás í allri framtíðarskipulagningu og allri áætlanagerð inn í framtíðina að þess ætti að sjá stað bæði í málaflokki umhverfismála, samgöngumála og atvinnumála, hvort sem það eru landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál eða önnur mál. Ef við ætlum að standa undir nafni og ef við ætlum að standa við þann samning sem við höfum gerst aðilar að ætti áætlun af þessu tagi, þ.e. tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 fyrst og fremst að einkennast af málaflokki loftslagsmála. Hann ætti að vera hér yfir og allt um kring.

Virðulegi forseti. Eftir kosningar í haust, sem verða í október ef marka má orð forustu ríkisstjórnarinnar, mun ný ríkisstjórn taka við keflinu. Sú ríkisstjórn mun að öllum líkindum og vonandi fyrir Ísland leggja áherslu á jöfnuð, útrýmingu fátæktar og loftslagsmál.