145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[18:54]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið gaman að fylgjast með umræðunni hér í dag um fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Hér hafa menn rætt um áætlunina vítt og breitt af mikilli þekkingu og reynslu, margir hverjir, og farið í gegnum helstu málin. Það sem mig langaði til að nota tækifærið í þessari ræðu minni til að gera er að halda mig við heilbrigðismálin. Það hefur komið fram að í þau verða lagðir 30 milljarðar á tímabilinu sem er afskaplega jákvætt. Stóra spurningin er hins vegar hvort þetta sé nóg fjármagn til að koma heilbrigðisþjónustunni í það horf sem almenningur kallar eftir og kom svo vel fram á laugardaginn síðasta þegar Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, afhenti hæstv. forsætisráðherra undirskriftir 86 þús. Íslendinga sem krefjast þess að í heilbrigðiskerfið verði lögð a.m.k. 11% af vergri landsframleiðslu. Það hefur einnig komið ítrekað fram að vilji almennings stendur til þess að forgangsraðað sé miklu meira í þágu heilbrigðismála en nú er gert. Ég velti þess vegna fyrir mér hvort nóg sé að gert í þessari áætlun í þessum málaflokki.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að staðan í þessum mikilvæga málaflokki er alls ekki góð. Brýnna úrbóta er þörf og það strax. Kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur næstum tvöfaldast á síðustu áratugum eins og kom fram í skýrslu frá ASÍ um þessi mál og nú er svo komið að heimilin standa undir 20% af öllum útgjöldum til heilbrigðismála með beinum greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu. Þegar útgjöld heimila vegna heilbrigðismála eru skoðuð sem hlutfall af tekjum heimilanna er útgjaldahlutfall hæst á heimilum eldra fólks, atvinnulausra, fólks utan vinnumarkaðar, grunnskólamenntaðra, lágtekjufólks, langveikra og öryrkja. Það er glæsileg staða.

Fyrir stuttu lagði hæstv. heilbrigðisráðherra fram frumvarp um sjúkratryggingar og kostnaðarþátttöku sjúklinga sem hugsanlega gæti reynst gott fyrsta skref í átt að réttlátara kerfi, en um það eru þó margir efins eins og sjá má í sumum þeirra umsagna sem borist hafa vegna þessa máls. Í einni umsögninni var vitnað í könnun sem Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunardeild Háskóla Íslands, vann nýverið á heilsu og lífsháttum Íslendinga. Þar kemur fram að þeir sem helst njóta góðs af þeim breytingum sem frumvarpinu fylgja eru hópar sem þurfa á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda og því ber að sjálfsögðu að fagna. Hins vegar kemur þar fram að ganga þarf enn lengra fram til að tryggja öllum sem þurfa á aðstoðinni að halda aðgengi óháð efnahag. Enn fremur kemur fram í niðurstöðum könnunar Rúnars að tæp 22% Íslendinga höfðu á síðustu sex mánuðum fyrir þessa könnun og framkvæmd hennar frestað því að leita læknis, jafnvel þó að þetta fólk teldi sig þurfa á læknisaðstoð að halda. Af þeim sem höfðu frestað því að leita læknis sögðust tæplega 40% hafa gert það vegna kostnaðar við heilbrigðisþjónustuna. Því hærra hlutfall af tekjum heimilanna sem fór í heilbrigðisútgjöld, því algengara var að fólk frestaði þjónustunni. Af þeim sem eyddu 4% eða meira af tekjum sínum í heilbrigðisþjónustu hafði um þriðjungur frestað því að leita sér aðstoðar.

Virðulegi forseti. Þó að þessi áætlun sé allra góðra gjalda verð er ljóst að gera þarf betur og leita verður aukinna tekna fyrir ríkissjóð til að mæta þeim kröfum almennings sem áður eru nefndar. Þingmenn og framkvæmdarvaldið eru kosin til að vera fulltrúar fólksins í landinu og því ber þeim, eða okkur sem hér störfum, að hlusta á raddir, jafnt veikar sem sterkar, í þessum málum.

Það eru metnaðarfullar áætlanir í kaflanum um heilbrigðismál og ber að fagna að auknu fé verði varið í uppbyggingu Landspítalans og nokkurri óvissu eytt hvað það þjóðþrifamál varðar. Það eru þó fleiri sjúkrahús á landinu en Landspítalinn. Ef ég horfi til míns kjördæmis sem ég ætla að leyfa mér að gera núna er alveg ljóst að bæta þarf miklu fjármagni í rekstur t.d. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Samkvæmt bréfi sem okkur þingmönnum barst frá forstjóra þeirrar góðu stofnunar horfir til mikils niðurskurðar ef ekki verður gripið strax í taumana.

Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í þetta bréf og nota það sem þungamiðju í mínum málflutningi næstu mínúturnar. Í því segir forstjórinn m.a. að gífurlegur vöxtur hafi orðið í klínískri bráða- og utanspítalaþjónustu á heilbrigðisstofnuninni á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Framkvæmdastjórn stofnunarinnar hefur lokið endurskoðun fjárhagsáætlunar að loknum fyrsta ársfjórðungi 2016. Frá því að áætlunin var upphaflega gerð í nóvember 2015 hafa orðið verulegar launahækkanir í kjölfar nýrra samninga og útfærslu á bókunum í kjarasamningi. Rekstur stofnunarinnar fyrstu þrjá mánuði ársins er í jafnvægi miðað við samþykkta áætlun velferðarráðuneytisins fyrir rekstur stofnunarinnar. Að lokinni endurskoðun launaliða annars vegar og afkomuspá ársins eftir fyrstu þrjá mánuði hins vegar er þó einsýnt að um 152 millj. kr. vantar til að rekstraráætlun stofnunarinnar haldist í jafnvægi. Miðað við sundurliðun fjárlaga á árinu 2016 fara einkum launaliðir á sjúkrasviði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands fram úr áætlunum. Þar fyrir utan axlar HSU, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, skuldavanda fyrri heilbrigðisstofnana á Suðurlandi með yfirdráttarláni í banka upp á 90 milljónir og skuldir upp á 100 milljónir sem hefur verið velt áfram tvo til þrjá mánuði fram að gjalddaga. Heildarrekstrarfé sem heilbrigðisstofnunina vantar nemur því að þessu samanlögðu ríflega 340 millj. kr. Þetta er óleystur vandi og er endalaust verið að ýta honum á undan sér sem gerir það að verkum að koma verður til niðurskurðar. Stofnunin er vel mönnuð starfsfólki og hefur tekið á móti vaxandi fjölda sjúklinga, m.a.s. á bráðamóttöku, til sjúkrahússdvalar eftir aðgerðir og meðferð á Landspítalanum og til göngudeildarmeðferðar í heimabyggð.

Í stóra samhenginu þegar litið er til þess hvar útgjöld úr ríkissjóði falla er núverandi þjónusta heilbrigðisstofnunar skynsamlegra og ódýrara úrræði en dvöl á Landspítalanum. Niðurskurður í þjónustu stofnunarinnar mun leiða til kostnaðarauka annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Því er skynsamlegt og áríðandi að núverandi fjárfesting í innviðum og mannauði stofnunarinnar sé nýtt sem allra best. Þeir fjármunir sem vantar að þessum hagræðingaraðgerðum loknum geta gert gífurlega mikið gagn fyrir íbúa og ferðamenn á Suðurlandi og dregið úr þeim vanda sem að óbreyttu mun ekki síst lenda hjá Landspítalanum og valda óánægju í samfélaginu á Suðurlandi.

Það er alveg óhætt að segja að íbúar á Suðurlandi sætta sig ekki við það ef þarf að skera niður verulega í þjónustu stofnunarinnar og það þarf ekki að taka fram að sá aukni fjöldi ferðamanna sem hingað hefur komið á undanförnum árum hefur aukið álag á þessa stofnun gífurlega, ekki síst þar sem í þeirra umdæmi og á Suðurnesjum eru langvinsælustu og fjölmennustu ferðamannastaðirnir í landinu. Það væri óðs manns æði að ætla að skera niður til þessarar stofnunar. Ég get ekki séð að í þeirri áætlun sem hér er lögð fram eigi að auka fjárveitingar til þessarar stofnunar eða annarra stofnana. Það á vissulega að leggja peninga inn í þær en það er ekki nóg. Ég tek þetta sem dæmi til að benda á þann vanda sem er viðvarandi og núverandi. Það er ekki nóg að leggja fram áætlanir til lengri tíma, það verður að takast á við vandann eins og hann er í dag.

Síðan langar mig, virðulegi forseti, að nefna að lokum málefni heilsugæslunnar sem er ætlað mun stærra hlutverk á komandi missirum. Það er vel, en er hún í stakk búin til að taka við auknum fjölda sjúklinga ef ekki verður bætt verulega miklu fjármagni í rekstur hennar? Ef heilsugæslan á að standa undir þeim kröfum sem henni er ætlað að mæta verður að fjölga heilsugæslulæknum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum og næringarfræðingum í starfsliði hennar. Ef það verður gert og það fjármagn sem til þarf veitt í starfsemi hennar og auknar forvarnir mun það hafa í för með sér mikinn sparnað í heilbrigðiskerfinu. Því miður virðist vanta svolítið upp á það að líta á forvarnir og snemmtæka íhlutun í heilbrigðiskerfinu sem sparnað því að það mun skila sér mjög mikið til baka. Eins er það í geðheilbrigðismálum, þau eru í miklum ólestri og þrátt fyrir að nýlega hafi verið lögð fram fjögurra ára áætlun og stefna í geðheilbrigðismálum ríkir óánægja í samfélaginu þar sem fólk telur að leggja verði miklu meiri fjármuni í þessi mál og það strax. Það mundi líka hafa mikil og jákvæð áhrif til framtíðar litið. Það segir meira en mörg orð að um 38% þeirra sem glíma við örorku á Íslandi gera það vegna andlegra veikinda. Því miður eru geðheilbrigðismál varla nefnd í þessari áætlun sem eru þó sennilega þau mál í dag sem brýnast brenna á fólki. Við verðum að taka verulega á því.

Hvað sem öðru líður verðum við að hlusta á almenning. Það er alveg ljóst hver krafa almennings er til framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins, hún er sú að leggja meiri pening í heilbrigðiskerfið og setja það í algjöran forgang. Eins og við vitum er heilbrigðisþjónusta lykilstofnanir og grunnstoð í nútímasamfélagi sem gerir það að verkum að við getum rekið hér gott samfélag sem tekur á öllum þeim kvillum. Það er af nógu að taka í þessari áætlun en ég læt þetta duga og vil nota tíma minn í að benda á að víða er pottur brotinn sem verður að takast á við strax í dag. Svo mörg voru þau orð, virðulegi forseti.