145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[19:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það mun ekki lengja umræðuna mikið enda bara fimm mínútur í seinni umferð fyrir okkur þingmenn. En úr því að hæstv. fjármálaráðherra heiðrar okkur nú aftur með nærveru sinni eru nokkur atriði sem ég hefði haft áhuga á að koma að en hafði ekki tíma til í fyrri ræðu. Ég byrja þá á því sem ég er ánægður með að sjá í þessari áætlun, eins og það að nú eigi að hefja aftur inngreiðslur inn á framtíðarlífeyrisskuldbindingar sem ríkið er ábyrgt fyrir. Ég er sammála því og tel mjög mikilvægt að við hefjumst sem fyrst handa við það þó að ekki séu það kannski mjög háar fjárhæðir, en það mun muna verulega um eins og 5 milljarða á ári ef við höldum það út á næstu tíu árum eða svo, það mundi draga verulega úr högginu sem ella mundi koma á ríkið einhvern tímann á næsta áratug og auðvitað seinka því mjög að sjóðurinn þurfi á viðbótaraðstoð að halda.

Ég er sömuleiðis ánægður með það, og vil taka það fram til þess að vera sjálfum mér samkvæmur vegna minnar hörðu gagnrýni á þær áætlanir sem hæstv. ráðherra lagði fram tvö undanfarin vor, að nú er orðin sú breyting á, ef ég hef lesið rétt, að ekki er lengur gert ráð fyrir beinum samdrætti frumgjalda sem hlutfalli af landsframleiðslu. Gert er ráð fyrir að það haldist nokkurn veginn í horfinu. Það er ánægjuleg stefnubreyting frá fyrri áætlunum sem gerði ráð fyrir því að draga frumgjöldin beinlínis saman um 1–1,2% af vergri landsframleiðslu, en hér erum við að tala um, ef ég hef lesið rétt, nokkurn veginn óbreytt hlutfall. Á hina hliðina er áhyggjuefni að frumtekjurnar veikjast frekar en hitt á þessum tíma og í sjálfu sér er afkoma ríkisins óbreytt, þ.e. meiningin er að reyna að loka fjárlögum á næstu fimm árum með 1% afgangi miðað við verga landsframleiðslu. Miðað við alla þá óvissu sem uppi er um spár inn í framtíðina er auðvitað ekki mikið borð fyrir báru. Ég held að menn verði að horfast í augu við það.

Það sem ég tel vera veikleika þessarar áætlunar, og væri gaman að heyra hæstv. fjármálaráðherra aðeins tala um það, er að hún byggir algerlega á þeirri gefnu forsendu, sem vissulega er spáð, að hér verði viðvarandi hagvöxtur næstu fimm árin. Það svigrúm sem gefið er að menn hafi til að auka inn í málaflokka eða eftir atvikum auka eitthvað fjárfestingar á síðasta hluta tímans er fyrst og fremst bundið við það sem skapast með viðvarandi hagvexti og svo auðvitað að einhverju leyti þegar líður á tímann svigrúm sem myndast vegna minni vaxtakostnaðar eftir því sem skuldir lækka. Það er auðvitað ánægjulegt.

En þetta segir okkur að áætlunin er ákaflega næm fyrir þessum forsendum og má lítið út af bera. Ef eitthvað slær í bakseglin gæti það fært þetta fljótt niður á núllið eða jafnvel niður fyrir það m.a. vegna þess, og ég veit að þar erum við hæstv. ráðherra ósammála, að hinn stöðugi, stabíli tekjugrunnur ríkisins eða hins opinbera hefur verið veiktur nokkuð. Ef það hefði ekki verið gert væri afkoman með hinum sjálfvirku margföldurum alveg prýðileg og stefndi í mikinn afgang á næstu árum, sem auðvitað þyrfti að vera, því að hvenær ætti að vera myndarlegur afgangur á ríkissjóði ef ekki þegar við erum komin langt inn í jákvæða hagsveiflu? Á sjötta, áttunda eða tíunda ári samfellds hagvaxtar hlýtur að vera ærin ástæða til þess að reyna að stilla dæmið þannig af að myndarlegur afgangur myndist á ríkissjóði og yfirleitt er þess hvort eð er þörf til þess að vinna rétt með hagsveiflunni.

Ég verð að taka undir það sem hér hefur verið nefnt þegar menn horfa í fjárfestingaráformin. Í fyrsta lagi er hlutfallið allt of lágt og mun ekki ganga upp að keyra á 1,3%, eða þó að það verði 1,5% af vergri landsframleiðslu. Það er aldeilis ónóg. Það er einn allra mesti veikleiki þessarar áætlunar. Hún gengur ekki þegar kemur að fjárfestingum í innviðum, vegamálunum og fleiru, þar mun verða að auka í á næstu árum og það munu stjórnvöld þess tíma auðvitað gera.

Ég sakna líka sérstaklega tveggja framkvæmda sem ég hafði vonast til að væru á listanum. Ég er ánægður með það sem þarna er; bygging fyrir Alþingi, Stofnun Árna Magnússonar og að sjálfsögðu upphaf framkvæmda við Landspítalann, en ég skil ekki af hverju Sjúkrahúsið á Akureyri er skilið eftir. Ég harma það líka að íslenska þjóðin sé ekki orðin nógu efnuð um 2020 til þess a.m.k. að hefjast handa með að undirbúa (Forseti hringir.) byggingu náttúruminjasafns.