145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[19:28]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tillögu um að setja á fót nýja stofnun vegna málefna skógræktar. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur á undanförnum missirum haft til skoðunar ýmsar sviðsmyndir varðandi sameiningar eða aukið samstarf stofnana ráðuneytisins.

Í júní 2015 hófst vinna hjá starfshópi við skoðun á sameiningu alls skógræktarstarfs á vegum ríkisins í eina stofnun, þ.e. Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt; Vesturlandsskóga, Skjólskóga á Vestfjörðum, Norðurlandsskóga, Héraðs- og Austurlandsskóga og Suðurlandsskóga, auk umsjónar með Hekluskógum. Starfshópurinn, sem skilaði niðurstöðum í september síðastliðnum, vann greiningu á sameiningu alls skógræktarstarfs ríkisins um ávinning og áskoranir í kjölfar hennar. Hópurinn hafði náið samráð við Landssamtök skógareigenda og Skógræktarfélag Íslands.

Niðurstaða hópsins var að sameining landshlutaverkefnanna og Skógræktar ríkisins í eina stofnun væri æskileg og skapaði tækifæri fyrir framþróun og eflingu skógræktar í landinu. Samhæfing skógræktarstarfsins gæti stuðlað að eflingu atvinnulífs og rennt styrkari stoðum undir búsetu í byggðum landsins. Þá er markmiðið að gera stjórnsýslu skógræktarmála skilvirkari, auka faglega getu og yfirsýn.

Ný skógræktarstofnun hefur höfuðstöðvar á Fljótsdalshéraði og rekur starfsstöðvar í öllum landshlutum. Þannig má sameina starfsstöðvar Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna í skógrækt í landshlutunum. Meðal helstu verkefna stofnunarinnar yrðu skipulag og ráðgjöf við nýræktun skóga, umhirðu og nýtingu, umsjón þjóðskóga eins og Hallormsstaðaskógar og Vaglaskógar, rannsóknir í skógrækt, fræðsla og kynning.

Ég ætla nú að gera grein fyrir hvernig staðið var að vinnu við samningu frumvarpsins með það að markmiði að skapa sem víðtækasta sátt um efni þess. Vinna við frumvarpið hófst í kjölfarið á vinnu starfshópsins sem falið var að skoða sameiningu skógræktarstarfs ríkisins í eina stofnun. Við vinnslu þess var m.a. fundað með framkvæmdastjórum landshlutaverkefnanna og skógræktarstjóra sem upplýstu starfsfólk sitt um áframhaldandi vinnu við fyrirhugaða sameiningu. Þá var haft samráð við kjara- og mannauðssýslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna ákvæða er tengjast réttindum og skyldum starfsmanna Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna.

Skógræktarstjóri leiðir undirbúningsvinnu sameiningarinnar og myndaður var stýrihópur sem hann situr í ásamt framkvæmdastjórum landshlutaverkefnanna, fjórum starfsmönnum Skógræktar ríkisins og fulltrúa umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Unnið er að stefnumótun fyrir starf nýrrar stofnunar með virkri þátttöku starfsmanna Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt.

Ég mun nú gera grein fyrir helstu breytingum í frumvarpinu. Breytingar á lögum um skógrækt, nr. 3/1955, eru tvenns konar. Annars vegar er um að ræða nauðsynlegar breytingar sem snúa að því að ný stofnun, Skógræktin, tekur við öllum verkefnum Skógræktar ríkisins og hins vegar er um að ræða breytingar er snúa að því að eitt af verkefnum Skógræktarinnar verður að reka landshlutaverkefni í skógrækt samkvæmt lögum nr. 95/2006. Að auki er að finna í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða er snýr að réttindum og skyldum starfsmanna Skógræktar ríkisins.

Breytingar á lögum um landshlutaverkefni í skógrækt, nr. 95/2006, snúa einkum að yfirstjórn verkefnanna. Landshlutaverkefni í skógrækt eru lögbundin verkefni og eru fjármunir þeirra ákveðnir í fjárlögum hverju sinni. Ráðherra skipar stjórn fyrir hvert verkefni sem hefur á hendi yfirstjórn verkefnisins og samþykkir starfs- og fjárhagsáætlanir þess.

Stjórn ræður framkvæmdastjóra sem annast daglegan rekstur. Við sameiningu landshlutaverkefnanna og Skógræktar ríkisins mun ný stofnun taka yfir hlutverk stjórnanna. Ekki verða lengur skipaðar stjórnir yfir verkefnunum, en í stað þess er lagt til að nýtt ákvæði um samráð við félög skógarbænda og Landssamtök skógareigenda verði bætt við lögin.

Landshlutaverkefnin verða ekki lengur nefnd í lögunum, en gert er ráð fyrir að stofnunin muni sinna þeim verkefnum sem landshlutaverkefnin sinntu áður. Að auki er lagt til sambærilegt ákvæði til bráðabirgða er snýr að réttindum og skyldum starfsmanna landshlutaverkefnanna og er lagt til í breytingum á lögum um skógrækt, nr. 3/1955. Breytingar á öðrum lögum eru eingöngu nafnbreytingar þar sem lagt er til að ný stofnun, Skógræktin, taki við verkefnum sem áður voru á hendi Skógræktar ríkisins. Að lokum er í frumvarpinu lagt til að lög um viðauka við lög nr. 3/1955, um skógrækt, nr. 22/1966, falli niður þar sem fjallað er um skógræktarverkefni í lögum um landshlutaverkefni í skógrækt.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.