145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[19:34]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér er komið fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna sameiningar skógræktarstarfs á vegum ríkisins í nýrri stofnun. Ég tel að hér sé stigið mikilvægt skref að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi þróun skógræktar og skref í átt að markvissari vinnu og stefnumótun á þessu sviði þar sem efla þarf og samhæfa starf við verndun og sjálfbæra landnýtingu.

Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er mikilvægt að gera stjórnsýslu skógræktarmála skilvirkari og samræmdari og auka faglega getu og yfirsýn og styrkja byggð. Nú er staða skógræktar þannig að verkefnin á sviði skógræktar eru stöðugt að breikka þegar kemur að því að auka verðmætasköpun úr þeirra auðlind sem þegar hefur verið byggð upp samhliða því að byggja upp skógarauðlind í fjölbreyttum tilgangi, þar á meðal til kolefnisbindingar. Það er því mikilvægt að auka faglega getu og skapa möguleika á meiri sérhæfingu starfsmanna með þessari sameiningu í nýrri stofnun.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki standi yfir víðtækari endurskoðun á lagaumhverfi í skógrækt og vegna annarrar landnýtingar. Mér sýnist heildarmyndin á lagabreytingunni góð, en eins og við vitum eru lög um skógrækt komin til ára sinna og er mikilvægt að fara í þá heildarskoðun til þess að framþróun skógræktar geti haldið markvisst áfram í framhaldi af því sem hér er lagt til.