145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[19:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni innilega fyrir þessi orð. Jafnframt vil ég nota tækifærið til að koma þakklæti á framfæri til hennar þar sem hún stýrði verkefnisstjórninni varðandi þessa sameiningu. Hefur hv. þingmaður unnið einstakt verk að því leyti að engin mótmæli voru uppi gagnvart þessari sameiningu. Ég held að það sé nánast einstakt. (ÖS: Ég á eftir að halda mína ræðu.) Fyrirgefðu.

Það er alveg rétt að aukin skógrækt er mikils virði. Það er mikil auðlegð fólgin í skógræktinni, margvísleg auðlegð. Ekki síður er kolefnisbindingin mikilvæg, finnst okkur sem viljum huga vel að loftslagsmálum.

Hv. þingmaður kom með eina fyrirspurn um hvort ekki væri rétt í kjölfarið á þessu að hefja víðtækari skoðun á lagaumhverfinu. Ég get fullvissað hv. þingmann og þingheim um að það er þegar komið í vinnslu í ráðuneytinu.