145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[19:38]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svar hæstv. ráðherra. Eins og áður sagði tel ég að sú breyting sem hér er á ferðinni geti leitt til farsællar sameiningar þeirra stofnana sem þarna um ræðir og finnst mjög gott að heyra að þegar sé hafin frekari vinna við lagabreytingar. Ég vil þá leggja áherslu á að horft verði á sameiginleg eða samhæfð markmið á víðara sviði, svo sem í skógrækt, landgræðslu og náttúruvernd þannig að öll vinna við verndun og sjálfbæra landnýtingu hafi sameiginlega sýn og að lagaumhverfið virki betur en það gerir í dag.

Nú er verið að leggja til að sameina skógrækt á lögbýlum og ég veit að skógarbændur velta fyrir sér hvernig aðkomu og samráði þeirra fulltrúa verður háttað varðandi skógrækt á lögbýlum. Eins og ráðherra kom inn á áðan gerir frumvarpið ráð fyrir að í stað ákvæðis um skipun stjórnar landshlutaverkefna verði kveðið á um samráð við félög skógarbænda varðandi áherslur og framkvæmd viðkomandi landshlutaverkefna og Landssamtök skógareigenda varðandi ákvörðun viðmiða fyrir endurgreiðslu samþykkts kostnaðar. Ákvæði um að Landssamtök skógareigenda komi að samþykkt nýrra samninga verður óbreytt.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji gott að farið verði sérstaklega yfir þá vinnu í umhverfis- og samgöngunefnd um hvað (Forseti hringir.) samráðið við skógarbændur á að snúast.