145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[19:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla sannarlega að vona að ég hafi slökkt á símanum mínum, ég sé að það er í lagi með það.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson segir, að sérstaklega framan af höfðu menn ekki endilega mikla trú á nytjaskógrækt á Íslandi og fannst skógurinn þokast frekar hægt upp og af stað. Því tengist skemmtileg saga af nóbelsskáldinu okkar sem menn hafa kannski heyrt, þ.e. því hvað trén vaxa hægt. Það var gestur hjá honum á Gljúfrasteini og þeir voru að ræða um hríslurnar þar fyrir utan og hversu hægt þær hefðu nú vaxið og hækkað og að þetta væri barningur hjá þeim í næðingnum þarna upp frá. Menn voru auðvitað alveg sammála um að skógrækt væri erfiðisstarf og þolinmæðisverk á Íslandi við þessar aðstæður. Engu að síður kvaddi nú nóbelsskáldið gest sinn með þeim orðum að hann vonaðist til að þetta yrðu orðin stór tré þegar gesturinn kæmi næst. [Hlátur í þingsal.]

Ég vil bara segja örstutt um þetta frumvarp að ég held að hér hafi í aðalatriðum tekist ágætlega til og verkið verið vel undirbúið. Ég hef aðeins fylgst með því í gegnum ýmsa kunningja og tengiliði sem ég á í þessum geira að menn hafa í vaxandi mæli orðið ásáttir um að þetta sé skynsamleg ráðstöfun og tekist hefur að vinna þannig að þessu að það er, það ég best veit, ágætisandrúmsloft í kringum það. Það er alltaf lofsvert. Það er langt í frá sjálfgefið að svo sé og á umliðnum árum þegar menn hafa velt þessum hlutum upp og rætt möguleika á þessu hefur verið nokkur spenna og tortryggni í samskiptunum. Til dæmis var íhaldssemi ríkjandi gagnvart því að færa forræði landshlutaverkefna í skógrækt frá atvinnugreininni, eða atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu sem nú heitir, og að það færi með þessum hætti undir hatt umhverfisráðuneytisins. Hér er það væntanlega að takast og þannig að menn eru ágætlega ásáttir.

Þá hefur sömuleiðis tekist mjög vel til í einu tilviki sem oft er aðalvandamálið þegar verið er að breyta verkefnum stofnana, ég tala nú ekki um og sameina þær. Hér hefur tekist ágætlega til með nafngiftina á nýju stofnuninni, öfugt við það sem stundum er þegar það hefur nánast orðið banabiti tilrauna til að sameina eitthvað að menn hafa orðið svo rífandi ósáttir eða ósammála um nafnið. Mér finnst það fínt að hið sameinaða fyrirbæri heiti einfaldlega Skógræktin.

Þá vil ég í þriðja lagi fagna því sem hæstv. ráðherra sagði og er svo sem ekki ástæða til að ætla að neitt annað standi til en að höfuðstöðvar Skógræktarinnar verði áfram á Héraði. Það þykir mér vænt um því að ég stóð að því sem ráðherra fyrir um 25 árum síðan að flytja Skógrækt ríkisins frá Reykjavík og austur á Hérað. Var því fagnað þar á öndverðu ári 1991 með ógleymanlegri veislu sem ég mun muna svo lengi sem nokkur hugsun er eftir í mínum kolli hvað var mikil gleði og hvað var gaman þegar því var fagnað í Valaskjálf að Skógræktin væri komin þangað austur. Það var sömuleiðis vandasamt verk og þurfti að leysa úr ýmsum ágreiningi til að það gæti gengið fyrir sig með skaplegum hætti, sem það gerði að lokum, þannig að ég held að allir hafi orðið sáttir. (ÖS: Var þetta ekki bara gott?)

Það er líka sögulega séð svolítið gaman að það sé nú að gerast að landshlutaverkefnin eða héraðsverkefnin séu að renna með þessum hætti saman undir hatt Skógræktarinnar á Héraði, en fyrsta stóra landshluta- eða héraðsverkefnið í bændaskógrækt, Héraðsskógaverkefnið, var einmitt komið í gang og var á sínu fyrsta ári, árið 1990, svo maður leyfi sér nú aðeins meiri sögulega upprifjun, og var drifið áfram dálítið af þeim aðstæðum sem þá voru uppi á Héraði að þar var allt sauðfé skorið niður vegna riðu. Menn óttuðust verulegan brest í búsetunni ef menn stæðu frammi fyrir fjárleysi í þrjú ár eða svo og ekki væri að neinu öðru að hverfa. Þá var gripið á það ráð að setja fjármuni og kraft í það að starta fyrsta stóra nytjaskógaverkefninu með bændum, Héraðsskógaverkefninu, sem varð síðan fyrirmynd landshlutaverkefnanna annars staðar og vonandi sér enginn eftir því.

Ég vona líka eins og var hér nefnt áðan að þessu muni tengjast stóraukinn kraftur á nýjan leik með batnandi þjóðarhag sem settur verði í skógrækt. Ég er skógræktarmaður og trúi því og sé það eins og við öll að hér er að vaxa upp ný atvinnugrein í landinu og vaxandi nytjar munu nú ár frá ári falla til vegna afurða úr skógum, fyrir utan mörg önnur rök sem fyrir því eru. Ég hef líka skilning á þeim sjónarmiðum að það er ekki endilega þannig að fylla eigi allt með trjám alls staðar. Það þarf að sjálfsögðu að skipuleggja það og plana og virða önnur sjónarmið sem geta t.d. verið þau að sums staðar eigi skógræktin síður heima og þar eigi náttúran sjálf að fá að ráða alveg þróuninni og ferðinni án þess að mannshöndin komi þar nokkuð að. Það þarf t.d. að passa vel upp á þau vistkerfi sem tengd eru hinum náttúrulegu birki- og víðiskógum með stöku reynitrjám o.s.frv.

Deilurnar sem risu á sínum tíma þegar menn plöntuðu grenitrjám inn í leifarnar af birkikjarrinu sem eftir voru í landinu eru vonandi óþarfar í dag, því að í sjálfu sér er mikið land sem taka má undir nytjaskógrækt þar sem maður fer ekki inn í náttúrulegt kjarr eða skóga.

Við allar þær röksemdir sem áður hafa staðið fyrir skógrækt bætast að sjálfsögðu loftslagsmarkmiðin sem hæstv. ráðherra nefndi reyndar, það kom a.m.k. fram í andsvari. Ég hef beðið svolítið eftir því frá því að Ísland kom fram með markmið sín og þátttöku og skuldbindingar í sambandi við loftslagsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að við sæjum þess stað að menn færu að taka betur til hendinni í sambandi við möguleika sem eru til bindingar í skógrækt eða eftir atvikum með endurheimt votlendis sem Íslendingar börðust nú fyrir að fá viðurkennt á þeim vettvangi og verður nú svolítið vandræðalegt fyrir okkur sem tímar líða ef þess sér svo ekki stað að við ætlum að nota okkur þessi úrræði.

En til þess að lengja ekki tímann í þessari umræðu læt ég þetta duga. Ég sé ekki annað en að hér sé hið ágætasta mál á ferð sem öll ástæða sé til að vinna að að fái framgang og nái til framkvæmda, hvort sem það næst að það gangi í gildi og verði að lögum strax núna 1. júlí sem hér er sett.

Að síðustu má svo nefna, án þess að ég hafi skoðað það nákvæmlega, að mér sýnist hér betur takast til varðandi yfirfærslu réttinda starfsmanna en stundum hefur sést áður. Þessi ríkisstjórn hefur nánast aldrei notað sömu formúluna í þeim efnum og stundum verið á mjög tæpu vaði hvað varðar réttindi starfsmanna þegar svona hlutir hafa gerst. Í sumum tilvikum hefur hún farið harkalegustu leiðina sem til er þegar breytt hefur verið um starfsemi stofnana, þær sameinaðar eða lagðar niður eða fluttar eða hvað það nú er, þ.e. að einfaldlega segja öllum upp. Hér eru réttindi og skyldur færðar yfir og Skógræktin tekur jafnframt yfir ráðningarsamninga starfsmanna í landshlutaverkefnunum þannig að hagsmunir allra eiga að vera sæmilega tryggðir með því með vísan til ákvæða laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eða þá lög um aðilaskipti að fyrirtækjum.

Í þessu tilviki þarf þess ekki sem því miður hefur oft þurft áður á undanförnum mánuðum og missirum, þ.e. að setja ofan í við ríkisstjórnina vegna þess að hún hafi ekki hugað að réttindum starfsmanna. Þau mistök hefur hún gert í nokkrum tilvikum og valdið miklum deilum, eins og kunnugt er, en ekki ætti að vera ástæða til slíks hér.