145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[20:22]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að við séum að fara í gegnum endurskoðun á lögunum og uppfærslu á þeim. Það er nauðsynlegt að endurskoða þessi lög frá 2007 því að þetta er lifandi skjal þar sem við erum að fjalla um 14% af landinu og ég hvet ráðherrann til að hafa veg og vanda af því að styrkja garðinn sem mest hann má því að þarna eru mikil tækifæri.

Í 2. gr. er markmið númer 4 að styrkja byggð og atvinnustarfsemi og þar sem fjallað er um stjórnskipulag garðsins segir að framkvæmdastjóri og öll umsýsla verði staðsett á heimasvæði garðsins. Ég geri að tillögu minni að ráðherrann beiti sér fyrir því að framkvæmdastjórinn verði staðsettur á heimasvæði garðsins, ef við getum sagt sem svo, á einhverju af þessum fjórum eða fimm svæðum sem garðurinn skiptist í með því þá að styrkja byggð og atvinnustarfsemi á svæðinu. Ég held að af því gæti orðið talsverð hagræðing því að ég held að það sé nauðsynlegt að vera hluti af því umhverfi sem maður stýrir. Í 8. gr. segir að dagleg framkvæmdastjórn verði í höndum framkvæmdastjóra.

Þá liggur beinast við að framkvæmdastjórinn sé staðsettur á því svæði sem hann er að stýra dagsdaglega, rétt eins og í málinu hér á undan þar sem við vorum að fjalla um nýja stofnun, Skógræktina. Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór yfir í sinni ræðu er þar kveðið skýrt á um að hún skuli vera staðsett á Héraði. Við eigum bara að setja inn í 8. gr. að ráðherra skipi framkvæmdastjóra til fimm ára í senn og skuli hann staðsettur á heimasvæði garðsins eða hvernig sem við orðum það.