145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[20:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að leggja örfá orð í belg um þetta mál sem ég geri engar sérstakar efnislegar athugasemdir, aðallega vegna þess að ég fagna því að niðurstaða starfshópsins sem birtist áfram í frumvarpinu er í raun og veru sú að hrófla í aðalatriðum ekki við stjórnfyrirkomulagi eða skipulagi við Vatnajökulsþjóðgarð eins og lagt var upp með það á sínum tíma. Þá á ég fyrst og fremst við hið valddreifða fyrirkomulag með virkri aðkomu heimamanna, sveitarstjórna og félagasamtaka og því jafnvægi sem var byggt upp í því fyrirkomulagi strax frá byrjun og ég kannski vík aðeins að á eftir.

Tilurð Vatnajökulsþjóðgarðs, stofnun hans, var mikil tímamót í þessum málum á Íslandi. Ekki aðeins var þarna um að ræða langstærsta þjóðgarð sem hér hafði verið stofnaður, heldur var það og þannig að hann var stofnaður á stóru og fjölbreyttu landsvæði þar sem ýmist er um að ræða almenninga, þjóðlendur, sem eftir atvikum lá á þeim tíma ekki í öllum tilvikum fyrir, eða land í einkaeigu. Sömuleiðis er garðurinn öðruvísi en aðrir þjóðgarðar höfðu verið hvað varðar það að innan vébanda hans eru mjög mismunandi verndarstig, allt frá því að um alfriðuð náttúrugersemi sé að ræða, sem höfðu verið það jafnvel fyrir, og yfir í svæði þar sem hefðbundnar nytjar ganga sinn vanagang, hvort sem um er að ræða beit, veiðar eða annað.

Í þriðja lagi var stofnun þjóðgarðsins tímamót hvað varðar stjórnsýsluna eða fyrirkomulagið. Það á sér þann bakgrunn sem ætti að vera orðið feimnislaust að rifja upp núna. Sannfæring mín er að án þessa fyrirkomulags hefði Vatnajökulsþjóðgarður einfaldlega ekki orðið til, hefði a.m.k. orðið miklu minni en tókst að gera hann á sínum tíma.

Ég var svo heppinn að sitja í sérstakri undirbúningsnefnd um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á tveggja, þriggja ára tímabili í umhverfisráðherratíð Sivjar Friðleifsdóttur og þekki þetta þar af leiðandi ágætlega sem nefndarmaður í þeirri nefnd. Í henni sátu ásamt mér m.a. hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem nú hefur vikið sér frá en væri annars alveg vís til að halda hér skemmtilega ræðu og rifja jafnvel upp ferðasögur úr starfi þjóðgarðsnefndarinnar. Í henni var líka fyrrverandi hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir og fleira gott fólk.

Við gerðum víðreist og heimsóttum allt svæðið, ekki bara það sem fyrir lá að menn væru að hugsa um, Vatnajökul sjálfan og jaðra hans, heldur líka aðliggjandi svæði. Það leiddi ásamt með öðru til þess að við reyndum að teygja mörk þjóðgarðsins út. Það er alveg hægt að segja frá því að t.d. heimsókn nefndarinnar í Vonarskarð gerbreytti eiginlega viðhorfum þeirra sem höfðu efasemdir um að vitanlega ætti Vonarskarð að vera í Vatnajökulsþjóðgarði sem og svæðið þar í kring, t.d. Torfajökull. Hið sama gerðist í raun þegar við, nefndin og okkar sérfræðingar og ráðgjafar sem með okkur voru, komum í Suðurárbotna. Þá urðu allir sammála um það sem litu það náttúruundur og höfðu ekki gert áður, sem var að vísu í mínu tilviki, að auðvitað vildum við sjá vesturjaðar Vatnajökulsþjóðgarðs ná þangað.

Það var alveg ljóst að það var mikil jafnvægislist að ná góðu andrúmslofti í þetta gagnvart heimamönnum, bæði landeigendum sem slíkum og sveitarstjórnum og fleiri aðilum í héraði. Stemningin var ekkert alltaf mjög góð í fyrstu umferð og á fyrstu fundum með heimaaðilum. Talsverð tortryggni var uppi. Náttúruverndarráð og þjóðgarðar eða þau friðlýstu svæði sem voru til staðar höfðu, sumpart ómaklega að mínu mati, fengið á sig það orð að það að verða að þjóðgarði þýddi að allt yrði lokað og læst, ekkert mætti gera o.s.frv. Það þurfti miklar umræður og heilmikla fræðslu og upplýsingu um hvernig hægt væri að hafa þetta, m.a. að erlendri fyrirmynd og fá menn til að treysta því að þannig yrði það, til að mynda að taka inn víðáttumiklar afréttir upp frá byggð inn í þjóðgarðinn sem voru hluti af upprekstrarlandi bænda, höfðu verið nytjaðar frá fornu fari sem beitarland eða til veiðimennsku eða annarra slíkra hluta, að hægt væri að stofna þjóðgarð án þess að hrófla við þessu. Heimamenn höfðu efasemdir eftir sem áður og það leiddi okkur í nefndinni smátt og smátt inn á það spor að eina leiðin til að ná utan um þetta, ná samkomulagi og fá gott andrúmsloft í þetta væri að heimamenn yrðu sjálfir mjög ráðandi, sterkir í stjórnsýslu garðsins og hefðu mikið um það að segja hvernig með málin væri farið á þeirra svæði. Þannig fæddist smátt og smátt í vinnunni hið valddreifða stjórnunarfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég endurtek að það er mitt mat að án þessa hefði garðurinn ekki orðið til í þeirri mynd sem hann er í í dag.

Þar af leiðandi og vegna þess að ég tel að þetta hafi gefist vel, að ekki hafi orðið nein sérstök vandamál eða óyfirstíganlegir árekstrar vegna þessa fyrirkomulags, er mjög mikilvægt að varðveita þetta. Það gæti að sjálfsögðu súrnað í samskiptunum aftur ef menn færu að bakka á einhvern hátt út úr þessu og það mætti kalla það a.m.k. vissar vanefndir á þeim fyrirheitum sem mönnum voru gefin í byrjun um að svona yrði þetta til frambúðar. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt og farsælt að hér er lagt upp með það.

Varðandi staðsetningu framkvæmdastjórans eða hugsanlegrar stjórnsýslumiðstöðvar garðsins er ágætt að ræða það í þessu samhengi. Það er eitt af því sem að sjálfsögðu var mikið rætt. Á að ákveða að höfuðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs verði á einhverjum tilteknum stað innan svæðisins, á einni af svæðismiðstöðvunum? Það hefði a.m.k. ekki verið auðvelt að fara af stað því að það hefði strax orðið viðkvæmt. Liður í því að ná þessu öllu vel saman var að svæðin yrðu öll jafn rétthá og það er ansi hætt við því að mönnum hefði fundist þeir vera settir skör neðar ef menn hefðu ákveðið strax frá byrjun að í einni miðstöð yrðu höfuðstöðvar þjóðgarðsins, jafn eðlilegt og það sjónarmið er frá ýmsum öðrum sjónarhóli að þessi starfsemi, atvinna og störf tilheyri svæðinu.

Ég held að staðan sé breytt í dag. Ég mundi veðja á að menn væru miklu síður viðkvæmir fyrir þessu núna en þeir hefðu getað orðið þá. Eitt ágætt fyrirkomulag gæti vissulega verið þegar kæmi að framtíðarráðningum í þessum efnum að einfaldlega kveða á um að starfsstöð framkvæmdastjórans skyldi vera einhvers staðar innan svæðisins á einhverri af starfsstöðvum þjóðgarðsins. Það gæti orðið eftir vali. Það þyrfti ekki að vera eins í öllum tilvikum. Það gæti ráðist af aðstæðum og óskum þess framkvæmdastjóra sem ráðinn yrði. Þá held ég að menn mundu í sjálfu sér allir una því vel.

Að síðustu finnst mér ekki hægt að ræða hér um Vatnajökulsþjóðgarð öðruvísi en að nefna inn í það samhengi áform um miðhálendisþjóðgarð. Er ekki orðið tímabært að leggja af stað í næsta skref sem hefur orðið mikil og jákvæð þróun gagnvart hvað viðhorf snertir og stuðning við? Um það höfum við vísbendingar úr skoðanakönnunum að það sé orðinn meirihlutavilji þjóðarinnar að miðhálendið í heild sinni fari undir svona fyrirkomulag. Ég held að tíminn til að gera það sé núna. Þar með mætti útkljá að einhverju leyti annars illvígar deilur sem gætu verið í farvatninu um að fara með mannvirkjagerð inn á sjálft miðhálendið. Má ég þá upplýsa — það er ekki oft sem ég er alveg hjartanlega sammála hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, jú, jú, gerist auðvitað af og til — að óskaplega þótti mér vænt um að heyra hann segja í gær úr þessum ræðustóli að hann gæti ekki hugsað sér háspennulínur yfir miðhálendið. Það get ég ekki heldur. Ég vil ekki sjá háspennulínur eða uppbyggðan veg yfir miðhálendið, hjarta hálendisins. Ég held að því sé best borgið í einu samræmdu skipulagi sem voldugur Vatnajökulsþjóðgarður er nú á heimsvísu. Það yrði enn þá magnaðra fyrirbæri ef allt miðhálendi Íslands út undir hálendisbrúnirnar yrði að einum risavöxnum þjóðgarði með fjórum jöklum og eiginlega öllu því sem hægt er að finna á jörðinni sem tengist eldvirkni, jarðhita og ótrúlegum fyrirbærum öðrum, eina af nyrstu eyðimörkum heimsins o.s.frv.

Má ég þá segja við hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem hefur því miður boðað okkur að hún hyggi ekki á áframhaldandi þátttöku í stjórnmálum bak næstu alþingiskosningum að mikið óskaplega væri það fallegur svanasöngur hjá hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að leggjast á árar og taka upp eindregna baráttu fyrir því að áformum um miðhálendisþjóðgarð verði hrint í framkvæmd. Ég held að hæstv. ráðherra gæti ekki reist sér glæsilegra minnismerki en það ef það gæti orðið að veruleika. Það mundi að sjálfsögðu muna mjög mikið um það ef hæstv. umhverfisráðherra og ráðuneyti hennar tækju forustu eða einhentu sér í baráttuna með þeim sem að þessu vilja vinna og/eða hafa lagt þetta til. Það þarf ekki að sækja vatnið yfir lækinn. Það liggur hér fyrir og er til skoðunar í nefnd það ég best veit prýðilega útbúin tillaga um nákvæmlega þessa grundvallarákvörðun sem að sjálfsögðu væri eðlilegt að hefja með því að Alþingi tæki af skarið fyrir sitt leyti og samþykkti að að því skyldi stefnt, alveg eins og gert var á sínum tíma með Vatnajökulsþjóðgarð.