145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

671. mál
[20:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Megintilgangur frumvarpsins er að innleiða tilskipun 2014/35/ESB, um samræmingu laga aðildarríkjanna um markaðssetningu raffanga sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka, og tilskipun 2014/30/ESB, um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafsegulsamhæfi.

Til viðbótar eru í frumvarpinu lagðar til lítils háttar lagfæringar á lögunum í ljósi reynslunnar og snúa þær annars vegar að skyldum rafverktaka til yfirferðar eigin verka og hins vegar að skilgreiningu helgunarsvæða raflína. Markmið þeirra breytinga er að styrkja lagagrundvöll framkvæmdar sem þegar er til staðar.

Frumvarpið var samið í samvinnu við Mannvirkjastofnun auk þess sem aflað var umsagna hagsmunaaðila sem og annarra með opnu umsagnarferli. Hvað varðar innleiðingu á umræddum tilskipunum felur frumvarpið í sér tillögu um tiltekinn lagaramma sem mun skapa grundvöll fyrir setningu reglugerða til að innleiða að fullu þessar gerðir. Frumvarpið fjallar þannig annars vegar um öryggi raffanga sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka, þ.e. 50–1.000 volt AC og 75–1.500 volt DC. Tilgangurinn er að tryggja að rafföng á markaði uppfylli tilteknar grunnkröfur sem er ætlað að vernda heilbrigði og öryggi manna, húsdýra og eigna, auk þess að tryggja starfsemi innri markaðarins. Gert er ráð fyrir að skilgreindu samræmismati sé beitt til að tryggja samræmi við grunnkröfur og er skylt að festa CE-merki á öll eintök viðkomandi raffangs því til staðfestingar, auk þess sem gefin er út svokölluð samræmisyfirlýsing.

Frumvarpið fjallar hins vegar um tæki og fastan búnað sem valdið getur rafsegultruflunum eða orðið fyrir áhrifum af slíkum truflunum. Hér er tilgangurinn einnig sá að tryggja starfsemi innri markaðarins með því að kveða á um fullnægjandi rafsegulsamhæfi. Í tilskipuninni eru því skilgreindar þær grunnkröfur sem búnaðurinn skal uppfylla. Beita skal skilgreindu samræmismati til að tryggja samræmi tækja við grunnkröfur og festa á CE-merki því til staðfestingar, auk þess sem gefin er út samræmisyfirlýsing. Umræddar tilskipanir fela í sér endurgerð á eldri tilskipunum. Frumvarpið felur þó ekki í sér umfangsmiklar breytingar á fyrirkomulagi markaðseftirlits hér á landi frá því sem verið hefur en skerpt er þó á ákveðnum atriðum og lagt til að stofnuninni verði veitt heimild til beitingar nýrra úrræða, þ.e. beitingar stjórnvaldssekta í stað hefðbundinna refsinga.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.