145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

brunavarnir.

669. mál
[20:46]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um brunavarnir. Tilgangur frumvarpsins er að innleiða tilskipun 2014/34/ESB, um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi búnað og verndarkerfi sem eru ætluð til notkunar í hugsanlega sprengifimu lofti. Um er að ræða reglur sem varða markaðssetningu vöru sem hefur áhrif á brunaöryggi, þ.e. vöru sem notuð er í hugsanlega sprengifimu lofti, og hafa reglurnar það að markmiði að takmarka sprengihættu við notkun hennar.

Frumvarpið er samið í samvinnu við Mannvirkjastofnun, auk þess sem aflað var umsagna hagsmunaaðila sem og annarra með opnu umsagnarferli. Frumvarpið felur í sér tillögu um tiltekinn lagaramma í lögum um brunavarnir sem mun skapa grundvöll fyrir setningu reglugerða til að innleiða að fullu umrædda gerð.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þær grunnkröfur sem skal uppfylla séu skilgreindar eftir því hversu mikil sprengihættan er. Beita skal skilgreindu samræmismati til að tryggja samræmi við þessar grunnkröfur, festa CE-merki á vöruna og sérstakt merki sem gefur til kynna „sprengivörn“ því til staðfestingar, auk þess að gefa út skriflega samræmisyfirlýsingu.

Tilskipun 2014/34/ESB kemur í stað eldri tilskipunar sem var innleidd á sínum tíma með reglugerð nr. 77/1996, um búnað og verndarkerfi til notkunar á sprengihættustöðum með stoð í þágildandi lögum, nr. 60/1979, um Rafmagnseftirlit ríkisins. Þar sem um er að ræða reglur sem hafa það að markmiði að takmarka sprengihættu er eðlilegt að tilskipunin sæki lagastoð sína í lög um brunavarnir fremur en rafmagnsöryggislöggjöf, samanber lög nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, enda eru búnaðurinn og verndarkerfin sem um ræðir ekki í öllum tilvikum rafmagnsbúnaður.

Í 25. gr. gildandi laga um brunavarnir eru ákvæði um brunaöryggi vöru og eru lagðar til breytingar á því ákvæði til samræmis við þá þróun sem verið hefur í löggjöf á þessu sviði undanfarin ár.

Frumvarpið felur hvorki í sér miklar breytingar á því eftirliti sem verið hefur hér á landi með markaðssetningu á þeim hluta búnaðar og verndarkerfa sem falla undir áðurnefnda tilskipun og teljast rafföng né þeim reglum sem um markaðssetninguna gilda. Hins vegar er stór hluti þess búnaðar sem fellur undir tilskipunina ekki raffang og heyrir því ekki undir lög nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, og hefur markaðseftirlit með þeim hvorki verið á hendi Mannvirkjastofnunar né annarrar stofnunar.

Sérþekking á því sviði er ekki til staðar hjá stofnuninni, t.d. hvað varðar heilbrigðiskröfur, og er því um að ræða útvíkkun á markaðseftirliti stofnunarinnar.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.