145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

fjarvera iðnaðarráðherra.

[15:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég velti fyrir mér í ljósi dagskrár sem liggur fyrir hér í dag og viðveru ráðherra á hvaða ferðalagi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sé um þessar mundir sem kemur í veg fyrir að hann geti verið hér og útskýrt fyrir þinginu hvers vegna forstöðumaður Stjórnstöðvar ferðamála, sem átti heldur betur að taka til í þeim málaflokki, hefur sagt upp störfum. Það var mjög umdeild ráðning. Var hann búinn með það sem hann átti að gera? Var bara búið að klára verkefnið og allt klárt fyrir ferðasumarið 2016 þannig að það þarf ekki að gera neitt meir? Geta einhverjir úr ríkisstjórninni útskýrt það fyrir okkur hinum þingmönnunum hvað búið er að gera, hvernig menn hafa undirbúið sumarið sem nú fer í hönd? Það væri fullt tilefni til þess, a.m.k. mundi ég halda að Sjálfstæðisflokkurinn og forseti þingsins mundi búa þannig um hnútana að menn gætu fengið skýringar á þessu framhaldsklúðri sem engan endi ætlar að taka.