145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

lán til námsmanna erlendis.

[15:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þykist vita hvaðan þessi misskilningur kemur. Ég ætla að lesa fyrir hv. þingmann athugasemd ritstjóra RÚV-vefjarins við frétt í Ríkisútvarpinu:

„Fréttastofa vill taka fram að of bratt hafi verið farið í umræddri frétt. Í skýrslu Analytica, sem birt er á heimasíðu LÍN, er heimasíðan numbeo.com nefnd í heimildaskrá en ekki er hægt að sjá að hún hafi þar með verið helsta heimild Analytica. Þvert á móti þá segir í tillögum Analytica að traustasti grunnurinn til að byggja útreikninga framfærslu á sé áætlanir einstakra skóla um framfærsluútgjöld. Beðist er velvirðingar á [þessari villu í fréttinni].“

Það er greinilegt að hv. þingmaður hefur ekki fylgst með þessari frétt heldur grípur upp þessar órökstuddu fullyrðingar. Mér fannst hún fara með þær af nokkrum þunga án þess að hafa kynnt sér málið nægilega vel. (BjÓ: Ég kynnti mér málið …) Má ég benda hv. þingmanni á þessa frétt Ríkisútvarpsins (BjÓ: Ég er löngu …) vegna þess að sú villa sem hv. þingmaður endurtók í ræðustól var leiðrétt og beðist hefur verið velvirðingar á henni. (Gripið fram í.)