145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

útreikningur framfærslugrunns námsmanna.

[15:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég stundaði nám í Lundúnaborg í tvö ár (ÁstaH: Á framfærslu …?) á framfærslu frá lánasjóðnum án þess að fara lengra út í það. Margir hér inni hafa stundað nám erlendis á þessum námslánum.

Ég vil bara ítreka þetta og ekki gleyma því, virðulegi forseti, að fyrir örfáum árum voru námslán til námsmanna erlendis hækkuð að prósentutölu jafn mikið og gert var á Íslandi. Rökin fyrir hækkun á Íslandi voru að verðbólgan væri orðin 20% og að það ætti að skila námsmönnunum sléttum miðað við það. (Gripið fram í.)

Á sama tíma voru námslán fyrir námsmenn erlendis hækkuð um 20% þrátt fyrir að verðbólgan í þeim löndum væri einhvers staðar á bilinu 1–3%. (Gripið fram í: Búinn að gleyma …) Menn átta sig þá á þeirri stöðu sem þar myndast. Það sem verið er að horfa til er að í ýmsum þeim löndum sem við horfum hér á varð veruleg hækkun og er verið að lána langt umfram framfærslu, jafnvel upp undir 200%, (Gripið fram í.)og það er verið að reyna að leiðrétta það.

Það má heldur ekki gleyma því að það sem hefur verið að gerast hér á (Forseti hringir.) undanförnum árum er að við höfum verið að bæta í fyrir nemendur. Ég bendi á að við erum að hækka námslánin fyrir stúdenta á Íslandi sem eru langt fyrir neðan það sem þarf fyrir framfærslunni og að sjálfsögðu verða menn að horfa á þessa hluti í samhengi. (Gripið fram í.)