145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

breytingar á útlánareglum LÍN.

[15:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þá er hv. þingmaður væntanlega sammála mér um að það hefur skipt máli í nýjum úthlutunarreglum að nýta aukið svigrúm til að hækka lán vegna barneigna, að hækka framfærsluhlutfallið hér á landi úr 90% í 92% sem gagnast auðvitað stærstum hópi námsmanna. Við hv. þingmaður hljótum að geta verið sammála um að þetta skipti máli.

Áður hafði frítekjumarkið verið hækkað úr 750 þús. kr. upp í 930 þús. kr. fyrir skólaárið 2014–2015 og af hálfu stjórnar lánasjóðsins hefur verið gripið til ýmissa annarra aðgerða til að tryggja hag lánasjóðsins, til að tryggja að hann haldi áfram að geta sinnt hlutverki sínu.

Ég er ekki sannfærður um að að það sé t.d. mikil jafnaðarhugsun að lána upp undir 209% umfram reiknaða framfærslu. Er ekki betra að nýta þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum þannig að þeir elti sem best framfærslugrunninn og nýtist sem flestum, að ekki sé sums staðar lánað umtalsvert yfir framfærslunni og annars staðar undir henni?

Hvernig má það vera, virðulegi forseti, að menn geti haft þá skoðun að það sé eitthvert réttlætismál (Forseti hringir.) að lána sums staðar langt yfir framfærslu og annars staðar undir? Eigum við ekki að reyna að jafna þetta og nýta fjármunina þannig að sem flestir eigi sem best tækifæri til að stunda nám bæði heima á Íslandi og erlendis?