145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[16:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Nýlegar upplýsingar um eignir Íslendinga í lágskattaríkjum og möguleg undanskot frá skatti hafa orðið kveikjan að mikilli umræðu hér á landi á undanförnum vikum.

Víða erlendis hefur umræða af þessu tagi varað í nokkuð langan tíma og mikið starf hefur verið unnið á síðustu árum til að spyrna gegn skattundanskotum. Þau eru því miður ekki nýtt fyrirbæri heldur alvarleg meinsemd sem hefur dregið úr getu samfélaga til að byggja upp velferð og styrkja innviði sína.

Ísland hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi gegn skattundanskotum og í kjölfar opinberunar Panama-skjalanna er mikilvægt að samstarfið verði enn markvissara en áður. Við munum áfram vinna náið með öðrum þjóðum og áfram leggja áherslu á gerð upplýsingaskiptasamninga við ríki sem teljast til skattaskjóla. 44 slíkir samningar hafa verið gerðir á undanförnum árum, sá nýjasti við Sameinuðu arabísku furstadæmin í apríl síðastliðnum.

Þarna er um að ræða tímamótastarf sem hefur verið unnið á síðustu árum. Fyrir daga þessara samninga höfðu íslensk stjórnvöld fá úrræði til að sannreyna upplýsingar um eignarhald eða tekjur af fyrirtækjum í eigu Íslendinga í lágskattaríkjum.

Á næstunni má búast við frekari viðbrögðum og frumkvæði á alþjóðavettvangi. Brýnt er að Ísland eigi þar hlut að máli og taki virkan þátt í þeim aðgerðum sem ráðist verður í. OECD hefur að frumkvæði G20-ríkjanna sett málið á dagskrá og skilað skýrslu um 15 aðgerðir sem aðildarríkin hafa nú til skoðunar.

Af aðgerðum sem varða EES-samninginn má nefna breytingar á tilskipun um árleg reikningsskil, samstæðureikningsskil og fleira. Þarna er um að ræða breytingar sem fela m.a. í sér aukin upplýsingaskipti milli ríkja á innri markaði Evrópu. Þessar breytingar, sem ég ræddi um á þingi í síðustu viku og óskaði eftir heimild Alþingis til þess að taka upp í EES-samninginn, fela í sér kröfu um að stór alþjóðleg fyrirtæki geri í mun ríkari mæli grein fyrir umsvifum sínum í einstökum ríkjum sem eru aðilar að innri markaðinum. Gangi þessar breytingar eftir munu þær ná til þúsunda fjölþjóðafyrirtækja á innri markaði Evrópu og gera þeim skylt að birta upplýsingar um hagnað sinn, skattgreiðslur, starfsmannafjölda og veltu, brotið niður á þau lönd sem þau eru starfrækt í. Krafa um þetta gæti náð til stórra alþjóðlegra fyrirtækja sem eru með starfsemi hér á landi.

Gert er ráð fyrir að tilskipun um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi verði tekin upp í EES-samningnum eins og fyrri tilskipanir um sama efni. Þá er leitast við að tryggja samræmi við alþjóðlega staðla í tilmælum Peningaþvættisstofnunarinnar.

Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París og Brussel og útkomu Panama-skjalanna leggur framkvæmdastjórn ESB ríka áherslu á að þessi tilskipun verði innleidd í landslög á öllu EES-svæðinu fyrir árslok. Þá er í smíðum áætlanagerð gegn skattundanskotum sem gert er ráð fyrir að hafi áhrif á allan innri markaðinn.

Fyrirliggjandi tillögur hvíla á þremur stoðum. Í fyrsta lagi er lagt upp með að skattlagning sé skilvirk þannig að fyrirtæki greiði skatta þar sem arðurinn verður til. Í öðru lagi er lögð áhersla á gagnsæi svo að aðildarríkin hafi nauðsynlegar upplýsingar til að tryggja sanngjarna skattlagningu. Í þriðja lagi er lagt upp með að komið verði í veg fyrir tvísköttun svo fyrirtæki líði ekki fyrir það að starfa á innri markaðnum.

Mikil áhersla er einmitt lögð á upplýsingaskipti sem er mikilvægt tæki í baráttunni gegn skattundanskotum og skattsvikum. Tillögurnar hafa ekki síst að markmiði að hindra alþjóðleg stórfyrirtæki í að nota skattareglur í þeim einbeitta tilgangi að sniðganga eða lágmarka skattgreiðslur. Tillögurnar byggja í stórum dráttum á umræðu sem mun hafa farið fram um þetta á vettvangi OECD.

Virðulegur forseti. Ég er sammála þeim sem hér hafa talað um mikilvægi þess að Ísland marki sér enn fastari stefnu og taki forustu í baráttunni gegn skattaskjólum og notkun aflandsfélaga. Eins og fram hefur komið þá ákvað ríkisstjórnin að tillögu fjármála- og efnahagsráðherra að skipa sérstakan starfshóp til að gera tillögur að breytingum á lögum, reglugerðum og verklagsreglum sem saman mynda aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn skattundanskotum og nýtingu skattaskjóla almennt. Okkar færustu sérfræðingar á þessu sviði munu skipa hópinn og bind ég miklar vonir við starf hans.

Í síðustu viku var á Alþingi tekin til umræðu tillaga til þingsályktunar um alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum þar sem ríkisstjórnin er hvött til þess að beita sér fyrir og taka undir slíkar aðgerðir. Til að slíkar aðgerðir hafi tilætluð áhrif þurfa mörg ríki eða ríkjahópar að taka sig saman um að beita þeim. Alþingi samþykkti á síðasta þingi að rýmka nokkuð heimildir stjórnvalda til að taka undir aðgerðir af þessu tagi, en þær hafa til skamms tíma verið bundnar við að alþjóðastofnanir hafi samþykkt að beita þeim. Viðbrögð á alþjóðlegum vettvangi munu eðlilega þurfa að eiga sér nokkurn aðdraganda. Verði ráðist í þær mun Ísland taka fullan þátt í þeim.